Tinna Frímann Jökulsdóttir og Anton Karl Ingason

Um nýyrði sem tengjast tölvum og tækni

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um nýlega rannsókn á nýyrðum í íslensku sem tengjast tölvum og tækni.  Rannsóknin byggir á hluta af MA-verkefni fyrsta höfundar en það var unnið sem hluti af stærra verkefni um stafrænt málsambýli íslensku og ensku sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannsóknasjóði RANNÍS og er stýrt af Sigríði Sigurjónsdóttur og Eiríki Rögnvaldssyni.

Íslensk nýyrði: Í íslenskri málsögu má finna hugmyndir þess efnis að íslenska sé nær uppruna sínum en mörg önnur tungumál (sjá t.d. Árna Böðvarsson 1964; Kjartan G. Ottósson 1990). Orðaforðinn hefur þó vitanlega tekið breytingum. Nýyrðamyndun og –notkun tengjast ekki aðeins formi íslenskrar tungu heldur einnig umdæmi hennar því íslensk nýyrði geta spilað stórt hlutverk þegar kemur að því að uppfylla aðalmarkmið íslenskrar málstefnu frá árinu 2009, þ.e. „að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags“ (Mennta- og menningarmálaráðuneyti 2009). Í kjölfar samfélags- og tæknibreytinga undanfarin ár þar sem enska verður sífellt meira áberandi má greina auknar áhyggjur af stöðu og framtíðarhorfum íslensku. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að málsambýli íslensku og ensku nú með allt öðrum hætti en áður hefur sést og fleiri hættumerki sjáanleg (sjá t.d. Drude o.fl. 2018; Dagbjörtu Guðmundsdóttur 2018; Elínu Þórsdóttur 2018; Lilju Björk Stefánsdóttur 2018; Tinnu Frímann Jökulsdóttur, 2018).

Könnun: Vorið 2018 var framkvæmd rannsókn sem m.a. hafði þann tilgang að varpa ljósi á viðhorf til nýyrða og notkun á ýmsum tæknitengdum nýyrðum. Vefkönnun var deilt á samfélagsmiðlum og þegar upp var staðið fengust 354 nýtileg svör frá einstaklingum á aldrinum 15–81 árs (á árinu), 275 konum og 79 körlum. Þar var m.a. sett fram staðhæfingin „það á að búa til ný íslensk orð í staðinn fyrir ensku orðin sem koma inn í málið“ og voru svarmöguleikar settir fram á fimm stiga kvarða, frá „mjög ósammála“ upp í „mjög sammála“ auk valmöguleikans „vil ekki svara“. Einnig var spurt um notkun þátttakenda á tilteknum tækninýyrðum. Fyrir hvert hugtak var sett upp tveggja orða par þar sem fyrra orðið var íslenskt nýyrði yfir þetta tiltekna hugtak og það seinna enska heitið. Fyrir hvert hugtak voru þátttakendur beðnir um að meta á fimm stiga kvarða hvort algengara væri að þeir notuðu íslenska nýyrðið eða enska heitið.

Niðurstöður: Hvað viðhorf varðar kom í ljós að mikill meirihluti þátttakenda styður myndun íslenskra nýyrða og tóku fleiri sterka afstöðu þar um en veika. Slíka samstöðu mátti finna í öllum aldursflokkum þó hlutfallið hafi aðeins lækkað með lækkandi aldri. Þegar kemur að notkun nokkurra íslenskra nýyrða er samstaðan þó ekki alveg jafn skýr. Greina má augljósan mun á því hvort þátttakendur segjast nota íslenska eða enska heitið eftir því um hvaða hugtak/orðapar er að ræða (sjá graf) og í fyrirlestrinum verður rætt um
hugsanlegar ástæður þessa. Meira en helmingur þátttakenda sem velja íslensku hverju sinni sterka afstöðu með íslensku en því er öfugt farið með ensku þar sem þeir sem hana velja hverju sinni virðast líklegri til að taka veika afstöðu. Mögulegt er að tengja þetta við einhvers konar togstreitu milli þess sem fólki, sem kýs frekar enska heitið, finnst að það eigi að gera, þ.e.a.s. nota íslensk nýyrði og þess sem það raunverulega gerir. Í fyrirlestrinum munum við fjalla um nánari mynstur tengd aldri þátttakenda og eðli einstakra nýyrða.

Heimildir:

  • Árni Böðvarsson. 1964. Viðhorf Íslendinga til móðurmálsins fyrr og síðar. Í: Halldór Halldórsson (ritstj.). Þættir um íslenzkt mál eftir nokkra íslenzka málfræðinga, bls. 177–200. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
  • Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6. Reykjavík: Íslensk málnefnd.
  • Drude, Sebastian, Anton Karl Ingason, Ari Páll Kristinsson, Birna Arnbjörnsdóttir, Einar Freyr Sigurðsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Iris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir. 2018. Digital resources and language use: Expanding the EGIDS scale for language development into the digital domains. Í: Ostler, Nicholas, Vera Ferreira og Chris Moseley (ritstj.). Communities in Control: Learning tools and strategies for multilingual endangered language communities. Proceedings of the 21st FEL Conference 19 – 21 October 2017, bls. 98–106. Hungerford: Foundation for Endangered Languages.
  • Elín Þórsdóttir. 2018. Áhrif aukinnar enskunotkunar á íslenska málfræði. MA-ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/29876
  • Lilja Björk Stefánsdóttir. 2018. Heimdragar og heimsborgarar: Menningarlegur hvati í stafrænu málsambýli. MA-ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/29936
  • Mennta- og menningarmálaráðuneyti. 2009. Íslenska til alls: Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009. Reykjavík: Höfundur.
  • Tinna Frímann Jökulsdóttir. 2018. „I didn’t understand that — please try again“: Samskipti Íslendinga og stafrænna aðstoðarmanna. MA-ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/29997