28. Rask-ráðstefnan 2014

28. Rask-ráðstefnan um íslenskt mál og almenna málfræði

Fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 25. janúar 2014

 

Dagskrá:

9.30  Ráðstefnan sett

9.40 -10.20  Í minningu Jóns R. Gunnarssonar (1940-2013)

Höskuldur Þráinsson, Guðrún Þórhallsdóttir og Sigurður Konráðsson minnast Jóns R. Gunnarssonar og segja frá kennslu hans, rannsóknum og frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum málvísinda á Íslandi.

Fundarstjóri Brynhildur Stefánsdóttir

10.20-10.40: Haraldur Bernharðsson: Brot úr sögu ritmálsstaðals á 19. og 20. öld: hefur og hefir

10.40-11.00: Már Jónsson: Bókstafurinn ð í skrifum almennings um og eftir miðja 19. öld

11.00-11.20  Kaffihlé

11.20-11.40: Marion Lerner: Af „setubingum“ og „hugvitsverkfærum“: Orðfæri í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

11.40-12.00: Jón Friðrik Daðason, Kristín Bjarnadóttir og Kristján Rúnarsson: Skrambans villurnar: Villugreining á tölvutækum textum

12.00-13.00  Hádegishlé

Fundarstjóri Anna S. Þráinsdóttir

13.00-13.20: Sigríður Mjöll Björnsdóttir: Enginn Turkey hef jeg

13.20-13.40: Ása Bryndís Gunnarsdóttir og Þórhallur Eyþórsson: Skynjun heimsins í íslensku og ensku

13.40-14.00: Jóhanna T. Einarsdóttir: Málsýni íslenskra leikskólabarna

14.00-14.20: Hrafnhildur Ragnarsdóttir: Þróun orðaforða íslenskra barna frá leikskólaaldri upp í þriðja bekk grunnskóla: Stöðugleiki og einstaklingsmunur

14.20-14.40 Kaffihlé

Fundarstjóri Haraldur Bernharðsson

14.40-15.00: Sigríður Sæunn Sigurðardóttir:„Heill þú farir“ Um sögulegan breytileika í íslenskum kveðjum

15.00-15.20: Þorgeir Sigurðsson: Nokkrar leiðréttingar í Arinbjarnarkviðu

15.20-15.40: Nicole Dehé: The prosodic phrasing of the Icelandic parenthetical clause held ég in spontaneous spoken language

15.40-16.00: Katrín Axelsdóttir: Óþægilegur samhljómur

16.00: Ráðstefnuslit

 

Útdrættir:

 

Höskuldur Þráinsson, Guðrún Þórhallsdóttir og Sigurður Konráðsson: Í minningu Jóns R. Gunnarssonar

Höskuldur Þráinsson, Guðrún Þórhallsdóttir og Sigurður Konráðsson minnast Jóns R. Gunnarssonar og segja frá kennslu hans, rannsóknum og frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum málvísinda á Íslandi.

 

Haraldur Bernharðsson: Brot úr sögu ritmálsstaðals á 19. og 20. öld: hefur og hefir

Beyging sagnarinnar hafa á sér nokkra sögu breytileika í eintölu í nútíð. Í nútímamáli eru myndirnar hef – hefur – hefur allsráðandi en í fornu máli var beygingin hefi – hefir – hefir langalgengust, ef marka má ritheimildir. Gömlu myndirnar hefi – hefir – hefir eru þó áberandi í ritmáli á 19. öld og fram um miðja 20. öld en virðast aftur á móti hafa haft takmarkaða útbreiðslu í mæltu máli. Fjallað verður um notkun gömlu myndanna í ritmáli á 19. og 20. öld.

 

Már Jónsson: Bókstafurinn ð í skrifum almennings um og eftir miðja 19. öld

Í Stuttu stafrófskveri frá 1851 er bókstafurinn ð hvergi nefndur og ekki einu sinni sýndur í stafrófi (bls. 3), heldur er útskýrt neðanmáls: „Framanskrifadar Støfunar- og Lestrarreglur munu øllum almenningi nægja. Heldri manna børn ættu þar á mót ad kynna sér vel prófessor Rasks 1839 útkomna Lestrarkver, og réttritareglur, einkum þau, er sett verda til menta“ (bls. 14). Hjá Rask var ð í hávegum haft, enda átti hann frumkvæði að endurupptöku þess, en d nægði fyrir almenning! Í erindinu verður þessari mismunun fylgt eftir og kannað hvernig bókstafurinn breiddist niður eftir samfélaginu, ef svo má segja, fram undir aldamótin 1900. Einungis verður stuðst við óprentuð gögn, svo sem uppskriftir dánarbúa með hendi hreppstjóra, sendibréf alþýðufólks af ýmsum toga og skuldheimtuseðla með hendi karla jafnt sem kvenna. Vonir standa til að hægt verði að ákvarða hvenær nákvæmlega ð var orðið almenningseign.

 

Marion Lerner: Af „setubingum“ og „hugvitsverkfærum“: Orðfæri í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar

Í sambandi við fyrirhugaða þýðingu á Ferðabók Tómasar Sæmundssonar yfir á þýsku þarf að greina frumtextann. Þessi greiningarvinna leiðir fljótlega í ljós mörg sérkenni textans sem stafa að hluta til af því að höfundur kláraði bókina aldrei, þannig að í raun er um drög að ræða. Íslenskur orðaforði hans nægði þar að auki ekki yfir þann raunveruleika sem hann þurfti að lýsa. Lausnin fólst í því að fá orð að láni úr öðrum tungumálum en einnig í nýorðasmíð. Jafnframt gerði Tómas ráð fyrir að þurfa að útskýra margt í evrópskri menningu sem íslenskum lesendum væri framandi. Í erindinu verður farið yfir nokkur einkenni textans en einnig hugað að því hvaða áhrif þau hafa á ákvarðanir þýðandans.

 

Kristján Rúnarsson, Kristín Bjarnadóttir og Jón Friðrik Daðason: Skrambans villurnar: Villugreining á tölvutækum textum

Gerð verður grein fyrir flokkun ritvillna sem á rætur í verkefni sem unnið var sumarið 2011 á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Villurnar skipast í tvo meginflokka, orðleysisvillur og samhengisháðar villur. Í fyrri flokknum eru orðmyndir sem ekki eru til (t.d. kanske og fleirri) en í síðari flokknum eru tækar orðmyndir notaðar í röngu samhengi (t.d. sína/sýna og leiti/leyti). 5.000 orðleysisvillum er skipt í villuflokka (stærsti flokkurinn er eitt orð í stað tveggja) og gefnar tölur um algengustu samhengisháðar villur. Villuflokkunin verður borin saman við flokkun Baldurs Sigurðssonar og Steingríms Þórðarsonar á stafsetningarvillum grunnskólanemenda (1987).

 

Sigríður Mjöll Björnsdóttir: Enginn Turkey hef jeg

Í erindinu verður gerð grein fyrir tilbrigðum og breytingum í máli tveggja tvítyngdra Vestur-Íslendinga. Gögnin sem liggja til grundvallar eru bréf málhafanna tveggja sem spanna tæpa 8 áratugi, þar sem báðir málhafar skrifuðu persónuleg bréf frá barnæsku og nánast fram til dauðadags. Gerð verður tilraun til að varpa ljósi á hvaða þættir málfræðinnar taka mestum breytingum í máli málhafanna og hvaða þýðingu rannsóknir á erfðamálum hafa fyrir þekkingu okkar og skilning á tungumálum almennt.

 

Ása Bryndís Gunnarsdóttir og Þórhallur Eyþórsson: Skynjun heimsins í íslensku og ensku

Sweetser (1991) setti fram tilgátu um merkingarþróun „skynfærasagna“ (e. perception verbs) í ensku sem flokkar kerfisbundið orðaforða um skynjun og hvernig hann vísar í óhlutbundin hugtök með tilstyrk hugtakslíkinga. Í þessum fyrirlestri verður tilgátunni beitt á íslensku í því skyni að kanna umfang hugtakslíkinga í víðara samhengi. Auk íslensku verður stuðst við sambærilegar rannsóknir á öðrum tungumálum til að prófa almennt gildi tilgátunnar (Ibarretxe-Antuñano 2002, Viberg 2008, Yu 2008). Samanburður á ensku og íslensku styður eindregið flokkun Sweetser. Raunar koma fyrir undantekningar frá almennu tilhneigingunni í báðum málunum en þær eru þó í samræmi við meginregluna. Við ályktum að frávikin auki skilning okkar á notkun hugtakslíkinga og hlutverki þeirra í skynjun okkar á  heiminum.

 

 Jóhanna Einarsdóttir: Málsýni íslenskra leikskólabarna

Kynntar verða niðurstöður verkefnis um málsýni íslenskra leikskólabarna. Skoðað var sjálfsprottið tal barna á leikskólaaldri (2,6 til 6,6 ára) á meðan þau voru að spjalla við fullorðinn einstakling. Niðurstöður 220 málsýna frá mismunandi börnum sýndu að börn lengdu setningar og notuðu fleiri mismunandi orðmyndir með auknum aldri. Málnotkun barnanna var frekar einföld og villur sjaldgæfar. Jafnframt sýndu niðurstöður að málsýni gefa góða mynd af máltjáningu barna og eru til þess fallin að meta málþroska þeirra.

 

Hrafnhildur Ragnarsdóttir: Þróun orðaforða íslenskra barna frá leikskólaaldri upp í þriðja bekk grunnskóla: Stöðugleiki og einstaklingsmunur

 

Í fyrirlestrinum verða raktar niðurstöður langskurðarrannsóknar á 111 börnum sem fylgt var eftir með tvenns konar mælingum á orðaforða við 4, 5, 6, og 8 ára aldur. Niðurstöður tölfræðigreiningar sýndu sterka fylgni milli árangurs á prófunum tveimur og marktækar framfarir í orðaforða hjá öllum börnunum á milli ára, en jafnframt gríðarmikinn einstaklingsmun.  Til dæmis reyndist slakasti fjórðungur barnanna vera með álíka orðaforða í fyrsta bekk grunnskóla og sterkasti fjórðungurinn var með tveimur árum áður. Mælingarnar voru stöðugar á milli ára; börnin í lægsta fjórðungnum  fjögra ára voru langflest í lægsta fjórðungnum í upphafi grunnskólagöngu og áfram í þriðja bekk.

 

Sigríður Sæunn Sigurðardóttir : „Heill þú farir“ Um sögulegan breytileika í íslenskum kveðjum

Kveðjur í tungumálum eru fjölbreyttar og geta tekið ýmsum breytingum í tímans rás. Í þessu erindi verður sjónum einkum beint að íslenskum kveðjum sem innihalda lýsingarorðið eða nafnorðið heill og/eða lýsingarorðið sæll, s.s. heill þúheill þérheill og sællfarðu heillsæll vertu o.s.frv. Í erindinu mun ég nýta mér nálgun út frá talgjörðum (Austin 1962, Searle 1969), líkt og fordæmi eru fyrir (t.d. Grzega 2008), og sýna fram á að með slíkri athugun á afmörkuðum kveðjum er hægt að varpa ljósi á breytileika þeirra, bæði formlega og með tilliti til hvernig þær eru samsettar.

 

Þorgeir Sigurðsson: Nokkrar leiðréttingar í Arinbjarnarkviðu

Sagt er frá nokkrum orðum sem nýlega hefur tekist að lesa og leiðrétta í eina handriti Arinbjarnarkviðu í Möðruvallabók. Rætt er  um þau frá málfræðilegu og bragfræðilegu sjónarhorni og fjallað um þýðingu þeirra fyrir umræðu um aldur textans og kvæðisins. Fyrirlesari vinnur að doktorsritgerð þar sem Arinbjarnarkviða verður m.a. endurútgefin. Líta má á fyrirlesturinn sem framhald á grein í Són 2013: Arinbjarnarkviða – Varðveisla.

 

Nicole Dehé: The prosodic phrasing of the Icelandic parenthetical clause held ég in spontaneous spoken language

Based on corpus data, this paper investigates the prosodic phrasing of the Icelandic parenthetical held ég and relates the results to prosodic theory. The main findings are as follows. (i) Prosodic integration, such that held ég is phrased in one domain together with host material is the default pattern. (ii) The prosodic phrasing is related to meaning: held ég with conventional implicatures semantics is prosodically prominent and phrased separately; epistemic/evidential held ég is unstressed and integrated. (iii) The findings can be accounted for in prosodic theory such that prosodic restructuring applies on the output of the syntax-phonology-interface constraint Match clause.

 

Katrín Axelsdóttir: Óþægilegur samhljómur

Óþægilegur samhljómur (e. uncomfortable homophonypernicious homophony) er fyrirbæri sem stundum er vísað til við skýringar á málbreytingum; tiltekin breyting er þá skýrð með því að menn breyti máli sínu til að forðast samhljóminn. Dæmi um þetta er þegar í sumum frönskum mállýskum voru tekin upp orðin faisan eða vicaire í stað gat ‘hani’ (< gal). Við hljóðbreytingu urðu orðin fyrir ‘hani’ og ‘köttur’ (gat) samhljóða og talið er að menn hafi tekið upp önnur orð fyrir ‘hani’ til að forðast þennan samhljóm. Slíkar skýringar hafa þó verið gagnrýndar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvað felst í þeirri gagnrýni og rætt hvort hún á rétt á sér.