29. Rask-ráðstefnan 2015

29. Rask-ráðstefnan um íslenskt mál og almenna málfræði
31. janúar 2015, fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins

Dagskrá:

10.00: Ráðstefnan sett

10.00 -10.30: Michael Schulte: Inflection versus imperfection?  On the notion of more and less perfect language structures in Wilhelm von Humboldt’s and other early typologists’ works

In this paper I deal with the claim, made by several early typologists, that the method of inflection is the only perfect language structure in terms of linguistic processing. As Wilhelm von Humbold once put it, «in all its completeness, [..] there can be no doubt that it [viz. inflection] harbours exclusively the sure principle of language-structure» (W. von Humboldt, Über die Verschiedenheit des Menschlichen Sprachbaues […], engl. Edn. By M. Losonsky, Cambridge 1999, p. 145). The discussion draws on recent typological as well as cognitive research.

10.30-11.00: Katrín Axelsdóttir: … og nokkur einhver

Í bók frá 1997, Indefinite pronouns, fjallar Martin Haspelmath um merkingu/hlutverk tiltekinna „raða“ óákveðinna „fornafna“. Þetta eru raðir á borð við any- og some-raðirnar í ensku (any, anyone, anyhow …; some, someone, somebody, somewhere …). Rannsóknin sem lýst er í bókinni er málgerðarfræðileg, Haspelmath kannar fjölda tungumála, af mörgum ættum, ber þau saman og finnur hvað er líkt og hvað ólíkt og setur fram lögmál um hlutverkadreifingu fornafnanna. Hlutverkadreifingin getur verið allmisjöfn milli tungumála og hún er líka harla óstöðugt fyrirbæri. Íslenska er eitt þeirra tungumála sem er til umfjöllunar í bókinni. Í fyrirlestrinum verður fyrst fjallað stuttlega um rannsókn Haspelmath. Síðan verða rædd ýmis dæmi um notkun fornafnanna nokkur og einhver sem stangast, eða kunna að stangast, á við greiningu hans á íslensku.

11.00-11.30: Þorsteinn G. Indriðason: Af orðlíkum liðum í íslensku

Í íslensku er oftast auðvelt að greina á milli orða og aðskeyta (forskeyta og viðskeyta) af ýmsu tagi. Þar finnast hins vegar fjölmargir liðir sem geta ekki staðið sjálfstæðir en hafa samt sem áður sterk orðleg einkenni og eru að því leyti frábrugðnir venjulegum aðskeytum. Við getum til hægðarauka kallað þessa liði orðlíka liði. Í erindinu verða einkenni þessara liða rædd og þau borin saman við einkenni aðskeyta af ýmsu tagi auk þess sem rædd verða ýmis próf sem hægt er að beita til þess að kanna nánar tengsl orða, orðlíkra liða og aðskeyta.

Hlé

12.20-12.50: Eiríkur Rögnvaldsson: Að á undanhaldi

Fyrir 100 árum voru mun fleiri tegundir nafnháttarsetninga tengdar með að en nú er. Þannig var sagt sýnast að vera, virðast að vera, reynast að vera, hyggjast að vera, sagður að vera, talinn að vera, álitinn að vera o.fl. Á seinni hluta 19. aldar er algengara en hitt að hafa að í þessum samböndum, þótt að-lausar myndir komi líka fyrir. Þegar kemur fram á 20. öld lætur að undan síga í öllum þessum samböndum og er nær alveg horfið upp úr miðri öldinni. Í fyrirlestrinum verður tíðni og útbreiðsla að-myndanna skoðuð og leitað skýringa á því hvað breyttist og hvers vegna.

12.50-13.20: Ásgrímur Angantýsson: Stílfærsla í íslensku og færeysku

Fjallað verður um hvað er líkt og ólíkt með stílfærslu og skyldum orðaraðartilbrigðum í frændtungunum tveimur og niðurstöðurnar settar í samhengi við kenningar um að stílfærsla og leppinnskot tengist gátun hljóðkerfislegra þátta (Holmberg 2000). Meðal þess sem fram kemur er að í báðum málum er leppinnskot tekið fram yfir stílfærslu í skýringarsetningum, en í færeysku, ólíkt íslensku, fær leppinnskot betri undirtektir en stílfærsla í atvikssetningum og einnig í tilvísunarsetningum. Þá vekur athygli að yngri málnotendur samþykkja síður dæmi um stílfærslu en þeir eldri. Þær niðurstöður má túlka sem vísbendingu um að stílfærsla sé á undanhaldi.

13.20-13.50: Helgi Skúli Kjartansson: Útrýmum stofnanakarlkyni!

Boðendur nýrra sjónarmiða boða oft breytingar á viðteknu orðalagi, t.d. svonefnt „mál beggja kynja“, sem innleitt hefur verið með ýmsum nýmælum í erlendum málum, og eðlilega líkt eftir þeim á íslensku. Málræktarmenn, bæði heima (Guðrún Þórhallsdóttir) og erlendis, hafa talið sum þeirra brjóta gegn viðteknum málvöndunarsjónarmiðum. Fyrirlesari mælir með einni af þessum breytingum, þ.e. að nota fornafnið „þau“ í stað „þeir“ þegar átt er við yfirvöld, stofnanir og fyrirtæki. Reglan, sem kalla má „stofnanakarlkyn“, hefur verið að nota „þeir“ þegar fornafn 3. persónu er notað um slík fyrirbæri. Það má gera að táknrænu mállýti sem meðvituðum málnotendum beri að forðast.

Hlé

14.10-14.40: Kristín Bjarnadóttir: Ef-og-þá-kannski-hlutir. Um setningarliði í samsettum orðum

Í generatífri málfræði er yfirleitt ekki gert ráð fyrir því að setningarliðir séu inntak samsettra orð, sbr.  kenninguna um bann við setningarliðum sem orðhlutum, No Phrase Constraint. Þar vill reyndar ekki betur til en svo að nafnið á hömlunni brýtur gegn hömlunni sjálfri (Botha 1981, Scalise 1986).

Í íslensku er talsvert um samsett orð þar sem orðhlutar eru setningarliðir, bæði gamalgróin orð eins og milliþinganefnd,  einsatkvæðisorð og haltukjaftibrjóstsykur, og einnotasamsetningar eins og ef-og-þá-kannski-hlutir og korter-í-þrjú-gæi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um flokkun íslenskra orða af þessu tagi, með samanburði við gögn og kenningar úr rannsókn við Háskólann í Mannheim (Trips 2012).

14.40-15.10: Haukur Þorgeirsson: Skáldið í tíðninni

Er hægt að segja til um hvort tveir eða fleiri textar eigi sér sama höfund? Fræðimenn hafa leitað margra leiða til að komast að raun um þetta. Einföld aðferð sem víða hefur gefist vel byggist á því að bera saman tíðni allra orðmynda í textunum sem um ræðir. Út frá tíðnigildunum er reiknað delta-gildi sem kennt er við Burrows. Í erindinu er aðferð Burrows beitt á íslenskar skáldsögur frá 19. öld eftir þekkta höfunda. Síðan er gerður  samanburður á nokkrum miðaldatextum og reynt að varpa ljósi á hversu mikil líkindi séu í orðfæri Egils sögu og Heimskringlu.

15.10-15.40: Þorgeir Sigurðsson: Rím ǫ í Rekstefju – Er kvæðið óreglulegt eða er það heimild um málbreytingar?

​​Kvæðið Rekstefja var nýlega birt í nýrri heildarútgáfu dróttkvæða (árið 2012). Rolf Stavnem, útgefandi kvæðisins, segir óreglulegt rím vera einkenni á kvæðinu, einnig sé setningagerð kvæðisins afbrigðileg. Hann telur þörf á að rannsaka hvort erfiður háttur kvæðisins eigi hér sök en kvæðið er ort undir afbrigði af skjálfhendum hætti.

Ég lýsi þessu afbrigðilega kvæði. Setningagerð þess er eins og í öðrum kveðskap undir sama hætti. Rímið þarf ekki að vera óreglulegt þótt það fylgi ekki hefðbundnum reglum. Ég leita skýringa á því hvers vegna það er ekki eins og í öðrum dróttkvæðum.

Ég vísa m.a. í grein um skjálfhendur eftir mig sem mun birtast í Són 12, 2014 og heitir: Nýjar skjálfhendur á tólftu öld.

Hlé

16.00-16.30: Heimir van der Feest Viðarsson: (Ó)stöðugleiki íslensku í aldanna rás

Stöðugleiki íslensks máls hefur löngum verið talinn óvenjulegur. Til dæmis leit Rasmus Christian Rask á íslensku (19. aldar) og forna tungu Norðurlanda sem nokkurn veginn sama málið. Að vissu leyti gætir hliðstæðs hugsunarháttar í tengslum við viðmið um íslenskt staðalmál frá 19. öld og fram á okkar tíma. Aftur á móti hafði Rask líka stórkostlegar áhyggjur af þróun málsins og stöðu þess vegna erlendra áhrifa. Í erindinu mun ég sýna hvernig báðar þessar mýtur hafa villt um fyrir þeim sem hafa reynt að skýra þróun íslensku í tíma og í staðinn kynnumst við ferskri sýn Halldórs Kr. Friðrikssonar á málið.

16.30-17.00: Ivar Berg: From Rask to Noreen: Nineteenth-century research on Old Icelandic

The first thorough description of Icelandic was Rasmus Rask’s 1811 grammar. He believed that the ‘classical’ language of the sagas was very much the same as present-day Icelandic. In Adolf Noreen’s reference grammar (first ed. 1884, fourth ed. 1923) Old Icelandic was firmly established as a language distinct from that spoken by modern Icelanders. This was the result of a century of research on the history of Icelandic, part of the general historical drive of nineteenth-century linguistics. My talk will address important landmarks in the gradually emerging understanding of Old Icelandic.

17.00   Ráðstefnuslit