Þorgeir Sigurðsson

Rím og hljóðkerfi, nýjar athuganir

Í fyrirlestrinum eru dregnar ályktanir af efni tveggja nýlegra greina um rím í fornum kveðskap. Fyrri greinin: Haustlǫng birtist í 2021 hefti Íslensks máls [1] en hin síðari: How inaccurate rhymes reveal vowel phonemes, mun birtast í 2023 hefti Mål og Minne (líklega í hefti I) [2]. Málfræðingar styðjast við rím í fornum kvæðum til að draga ályktanir um hljóðkerfi norræns máls. Umræddar greinar skipta máli varðandi meðferð þeirra á þessari heimild. Segja má að báðar greinarnar styðji að rím og hljóðkerfi fornmálsins séu nánar tengd en áður hefur verið talið.

Kvæðið Haustlöng frá um 900 hefur jafnan verið talið standa á mörkum eldri og nýrrar gerðar dróttkvæðs háttar varðandi notkun á rími, og sé ekki fyllilega reglulegt,  en í fyrri greininni [1] er sýnt að kvæðið fylgir sömu reglum og yngri kvæði á 10. öld. Haustlöng er elsta kvæðið með nákvæmu rími bæði sérhljóða og samhljóða. Þetta rím er í svokölluðum aðalhendingum,  sem standa í jafntölu-línum vísna. Rímið er mjög snemma á ferð; það á sér ekki augljósa fyrirmynd, og er líklegra til að vera fyrirmynd ríms annars staðar í Evrópu en eftiröpun.

Haustlöng er elsta kvæðið með skyldubundnu samhljóðarími (skothendingum) í oddatölu-línum að undanskildum þeim línum sem standa, eða gætu staðið, í upphafi vísuhelminga (sem hefja mál). Í eldri gerð dróttkvæða (hjá Braga og Torf-Einari) var skyldubundið samhljóðarím í jafntölu-línum.

Í seinni greininni [2] sem ekki hefur enn verið birt, er kenning  Hreins Benediktssonar um tengsl hljóðkerfis og ríms sérhljóða þróuð áfram. Kenninguna má orða þannig að sérhljóð, sem ríma eingöngu með sjálfu sér, eru þau sömu og þau sem eru sjálfstæð hljóðön. Hljóðön sem ekki eru fyllilega aðgreind geta rímað saman. Í fyrirlestrinum er þessu lýst nánar og rísandi tvíhljóðum lýst sem sjálfstæðum hljóðönum á 10. öld.

[1]          2021. Þorgeir Sigurðsson. Haustlǫng. How rhyme and syntax interact in early Old Norse dróttkvætt. Íslenskt mál 43, 13–32.

[2]          2023. Þorgeir Sigurðsson. How inaccurate rhymes reveal Old Norse vowel phonemes. Mål og Minne, líklega vorhefti 2023.