Filippa Lindahl og Sigríður Sigurjónsdóttir

Andlagsstökk í máltöku tveggja íslenskra barna

Andlagsstökk (e. object shift) hefur verið rannsakað töluvert í máli fullorðinni Íslendinga (t.d. Collins og Höskuldur Þráinsson 1996, Höskuldur Þráinsson 2001, 2007) en engin kerfisbundin rannsókn hefur farið fram á því hvernig íslensk börn tileinka sér andlagsstökk. Rannsóknir á þróun andlagsstökks í máli norskra og sænskra barna sýna að þau eru lengi að ná valdi á því og það kemur afar sjaldan fyrir í máli þeirra (Josefsson 1996, Anderssen et al. 2010, Anderssen et al. 2012). Þannig er máltöku andlagsstökks ekki lokið í langsniðsgögnum frá 3;0-3;6 ára norskum og sænskum börnum og framköllunarpróf sýna að þau ná ekki valdi á andlagsstökki fyrr en við 5-6 ára aldur.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þróun andlagsstökks í langsniðsgögnum frá tveimur íslenskum stúlkum, Evu og Fíu. Niðurstöður benda til að þróun andlagsstökks í máli íslenskra barna sé að nokkru leyti ólík þróun þess í norsku og sænsku. Fylgst var með Evu á aldrinum 1;1-2;4 ára og Fíu 0;10-4;3 ára. Langsniðsgögnin voru könnuð með tilliti til stöðu andlags og setningaratviksorðs. Á fyrsta stigi, þegar stúlkurnar eru tveggja ára og yngri, beitir hvorug þeirra andlagsstökki og öll andlög eru í grunnstöðu (1). Báðar stúlkurnar beita andlagsstökki í fyrsta skipti skömmu eftir tveggja ára afmælisdag sinn (2). Eftir það, á öðru stigi, beita þær stundum réttilega andlagsstökki en stundum beita þær því hins vegar ekki þar sem það er skyldubundið í íslensku, þ.e. þegar um er að ræða fornafn (3). Í rannsókn á gögnunum frá Fíu kemur í ljós að um þriggja ára aldur hefur hún náð málhæfni fullorðinna, þar sem hún beitir andlagsstökki kerfisbundið aðeins þar sem það á við í máli fullorðinna (4).

(1) a. ég vil ekki vatn/ (Eva 1;6:10)
b. Eva á ekki þetta golfsett/ (Eva 1;8:11)
c. Eva á ekki mig/ (Fía 2;1:18)
(2) a. hún er (  ) ((HL)) sér dýrin ekki ((HL))/ (Eva 2;0:16)
b. ég held það ekki/ (Eva 2;2:16)
c. veit það ekki/ (Fía 2;1:29)
(3) a. ég var ekki það/ (Eva 2;2:16)
b. Lubba finnst ekki það best/ (Eva 2;3:23)
c. Guð hjálpar nefnilega ekki mér/ (Fía 2;11:12)
(4) a. nenni því ekki/ (Fía 3;0:5)
b. ég veit þetta ekki/ (Fía 3;0:9)
c. Eva ég næ henni ekki úr þessum bíl/ (Fía 3;0:21)

Þessar niðurstöður sýna að Fía er miklu yngri þegar hún nær valdi á andlagsstökki en norsk og sænsk börn, a.m.k. hvað varðar færslu fornafna. Fá dæmi eru um andlagsstökk fullra nafnliða í gögnunum frá Fíu og Evu en slík færsla er valfrjáls í íslensku. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til að fornafnið það hafi sérstöðu í máltöku andlagsstökks í íslensku. Það getur ýmist vísað í NL, SL eða heila setningu (S). Flest dæmin með andlagsstökki í gögnunum fela í sér að það er fært þegar það vísar í SL eða S. Andlagsstökki er einmitt oft beitt á þetta fornafn í máli fullorðinna Íslendinga (Lindahl 2019) en samsvarandi fornöfn í norrænu meginlandsmálunum geta aðeins færst einstaka sinnum (Andréasson 2010, Bentzen og Anderssen 2019).