Fundargerðir

Aðalfundur 2019

Aðalfundur Íslenska málfræðifélagsins, haldinn fimmtudaginn 11. apríl 2019 í fundarherbergi Stofnunar Árna Magnússonar á Laugavegi 13.

Fundarmenn: Eiríkur Rögnvaldsson (ER), Elma Ólafsdóttir (EÓ), Ingunn Hreinberg Indriðadóttir (IHI), Einar Freyr Sigurðsson (EFS), Ari Páll Kristinsson (APK), Kristján Friðbjörn Sigurðsson (KFS) Ásta Svavarsdóttir (ÁS), Kristín Bjarnadóttir (KB).

Fundarstjóri: Ari Páll Kristinsson

Ritari: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir

Dagskrá fundar:
1. Formaður flytur skýrslu stjórnar
2. Gjaldkeri leggur fram ársreikninga félagsins
3. Tillögur að lagabreytingum
4. Stjórnarkjör
5. Önnur mál

1. Formaður flytur skýrslu stjórnar

ER flytur skýrslu stjórnar þar sem farið er yfir starfsemi félagsins á starfsárinu 19. janúar 2018 – 11. apríl 2019. Seinasti aðalfundur var haldinn óvenju snemma (19. janúar) vegna fráfarandi formanns. Þá urðu formannsskipti og ritstjórnarskipti. Ekki var unnt að ganga frá ársreikningi svo snemma, því var aukaaðalfundur 23. október 2018. Dagskrárliðir skýrslu stjórnar eru málvísindakaffi, Rask-ráðstefnan og fyrirlestrar, félagatal, viðburðir og ný vefsíða félagsins.

Málvísindakaffi hefur verið haldið reglulega undanfarinn vetur en hefur þó fallið niður af ýmsum ástæðum, t.a.m. vegna gjaldþrots WOW air. 19 fyrirlestrar hafa verið fluttir hingað til og fleiri verða haldnir eftir páska.

33. Rask-ráðstefnan var haldin laugardaginn 26. janúar. Í fyrsta sinn þurfti að vísa frá útdráttum enda berast æ fleiri með ári hverju. Í þetta sinn voru formsatriði ráðstefnukallsins notuð til að hafna útdráttum á málefnalegum forsendum og einnig var fyrirlestrartími styttur. ER leggur til að viðbrögð við þessum aðstæðum verði rædd á næsta stjórnarfundi. Auk Rask-ráðstefnunnar kom félagið óbeint að ráðstefnu um mállýskur og máltilbrigði, sem haldin var í ágúst 2018, og Kristjánsþingi, sem haldið var til heiðurs Kristjáns Árnasonar í nóvember 2018.

Áskrifendum hefur fjölgað örlítið og eru þeir nú um 280. Félagið sótti um styrk í Málræktarsjóð og fékk 500.000 krónur til styrktar útgáfunni.

Ný vefsíða félagsins er nú komin í gagnið. Málvísindastofnun styrkir félagið um lénið. Stjórn félagsins hefur samþykkt að héðan í frá muni ritari félagsins sjá um að uppfæra vefsíðuna.

Samkvæmt skýrslu stjórnar hélt félagið einn kynningarviðburð árið 2018. EÓ gerir þá athugasemd að félagið hafi í reynd haldið tvo viðburði: einn að vori og annan að hausti til að kynna nýjustu útgáfu Íslensks máls og Tilbrigðaverkefni Höskuldar Þráinssonar. Viðburðirnir hafi skilað félaginu 10 nýjum áskrifendum. ER segist munu leiðrétta skýrsluna. Skýrsla stjórnar er einróma samþykkt.

2. Gjaldkeri leggur fram ársreikninga félagsins

Gjaldkeri leggur fram ársreikning ÍM. Fram kemur að tap ÍM árið 2018 hafi verið 251.947 kr. EÓ greinir frá því að 500.000 styrkurinn frá Málræktarsjóði sé talinn inn í ársreikninginn en félagið heigi eftir að fá 100.000 kr af því fé greiddar út. Félagið fékk 250.000 frá málræktarsjóði á árinu 2019. Nauðsynlegt sé að muna að merki Málræktarsjóðs birtist í tímaritinu. EÓ greinir frá því að fjármagnsgjöld hafi lækkað milli ára vegna þess að félagið greiðir ekki lengur kostnað til Landsbankans fyrir reikningaútgáfu. Útistandandi viðskiptaskuldir félagsins séu ógreidd laun fyrrverandi ritstjóra. EÓ felldi niður allar kröfur sem eru eldri en 2017 og mun halda þeirri reglu héðan í frá. EÓ greinir frá því að félagið eigi varasjóði, enda hafi félagið ekki snert vaxtareikning sinn á síðasta ári. Ársreikningur er einróma samþykktur.

3. Tillögur að lagabreytingum

EÓ bendir á að tímasetning aðalfundar sé fullsnemma fyrir skil ársreiknings og leggur til að tímanum verði breytt. 4. grein laga félagsins kveður á um að aðalfund skuli halda í febrúar ár hvert. Stjórn Íslenska málfræðifélagsins leggur til eftirfarandi breytingu á 4. grein laga félagsins um tímasetningu aðalfunds:

4. gr. Aðalfund félagsins skal halda á fyrsta ársfjórðungi ár hvert, og skal til hans boðað með viku fyrirvara.

Tillagan er einróma samþykkt og tekur þegar gildi.

4. Stjórnarkjör

ER les upp nöfn stjórnarmeðlima ársins 2018:

Formaður: Eiríkur Rögnvaldsson
Gjaldkeri: Elma Óladóttir
Ritari: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Meðstjórnandi: Kristján Friðbjörn Sigurðsson
Ritstjórar: Þórhallur Eyþórsson og Ásta Svavarsdóttir, Einar Freyr Sigurðsson
Varamenn: Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Nedelina Ivanova.
Skoðunarmenn reikninga: Ari Páll Kristinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir.
Fulltrúi félagsins á aðalfundi Málræktarsjóðs: Ingibjörg Frímannsdóttir.

IHI gefur ekki kost á sér til áframhaldandi ritarastarfs en býður sig fram til meðstjórnanda. KFS gefur ekki kost á sér sem meðstjórnandi en býður sig fram í starf ritara. Þorbjörg Þorvaldsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Dagbjört Guðmundsdóttir býður sig fram sem varamann.
APK leggur fram eftirfarandi tillögu að stjórn ÍM 2019:

Formaður: Eiríkur Rögnvaldsson
Gjaldkeri: Elma Óladóttir
Ritari: Kristján Friðbjörn Sigurðsson
Meðstjórnandi: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Ritstjórar: Þórhallur Eyþórsson og Ásta Svavarsdóttir, Einar Freyr Sigurðsson
Varamenn: Dagbjört Guðmundsdóttir og Nedelina Ivanova.
Skoðunarmenn reikninga: Ari Páll Kristinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir.
Fulltrúi félagsins á aðalfundi Málræktarsjóðs: Ingibjörg Frímannsdóttir.

Ný stjórn ÍM er einróma samþykkt.

5. Önnur mál á dagskrá

APK spyr hvort félagið ætli að halda gamla léni vefsíðunnar, fyrst ný vefsíða sé komin í gagnið. EÓ spyr hvort félagið geti sparað sér kostnað með því að segja upp léninu. APK bendir á að lénið málfræði.is gæti verið verðmætt. ER tekur að sér að athuga hvað hægt sé að gera við gamla lénið og vísar málinu til stjórnar félagsins.

EÓ spyr hvort tímabært sé að endurskoða áskriftargjald félagsins, sem er 4890 núna. EÓ vill að félagið eigi innistæðu fyrir bókaútgáfunni að mestu leyti og leggur til að áskriftargjaldið verði hækkað um 1000 kr. EFS spyr hvort ekki verði erfitt að fá nýja áskrifendur ef verðið fer hátt yfir 5000 kr. ÁS bendir á að árið 2019 komi út tvö tímarit og greiðslurnar verði því tvöfaldar fyrir áskrifendur. Því sé kannski ekki réttur tími til að hækka áskriftargjaldið. ER vísar málinu til stjórnar.

KB spyr hvenær ÍM verði rafrænt tímabil. IHI vísar til ákvarðanar stjórnar á síðasta stjórnarfundi. Stjórnin komst að þeirri niðurstöðu að félagið væri ekki tilbúið fyrir rafræna útgáfu en að fylgjast þurfi með framgangi mála og öðrum ritum sem hafa gerst rafræn.
ÁS spyr hvort eitthvað hafi komið í ljós varðandi styrki frá ráðuneytunum. IHI greinir frá því að hún hafi loksins fengið staðfestingu þess efnis að félagið hafi skilað inn skýrslu fyrir síðasta styrk sem það fékk, ólíkt því sem áður var talið. Styrkirnir séu ekki auglýstir og félagið verði að fylgjast vel með þeim. IHI segist munu komast að því hvenær hægt sé að sækja um styrk til ráðuneytisins fyrir árið 2020.

EÓ spyr um þóknun gjaldkera og óskar þess að félagið kaupi vinnugögn handa gjaldkera frekar en að greiða honum 100.000 kr. í laun. ER segir enga ástæðu til að andmæla þeirri ósk, séu útgjöldin innan hins samþykkta ramma. ER vísar málinu til stjórnar.

ER spyr um stöðu útgáfunnar. ÁS segir að talsvert mikið efni sé komið inn og að verið sé að vinna úr því. EFS segir að ritstjórar hafi gert dálitlar efnisbreytingar; fækkað flokkum, með meiri áherslu á flugur. ÁS segir að nýja heimasíðan sé mjög gagnleg og að það hafi reynst vel að kalla eftir greinum þótt sú regla haldist að alltaf megi senda inn efni.

APK slítur fundi kl. 16:10

Fundargerð ritaði Ingunn Hreinberg Indriðadóttir

 

Framhaldsaðalfundur 2018

Framhaldsaðalfundur Íslenska málfræðifélagsins, haldinn þriðjudaginn 23. október kl. 16:30 í kaffistofu kennara í Árnagarði.

Fundarmenn: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir (IHI), Elma Óladóttir (EÓ), Einar Freyr Sigurðsson (EFS), Þórhallur Eyþórsson (ÞE), Nedelina Ivanova (NI), Ásta Svavarsdóttir (ÁS), Eiríkur Rögnvaldsson (ER), Matthew Whelpton (MW), Margrét Guðmundsdóttir (MG).

 Fundarstjóri: Eiríkur Rögnvaldsson.

 Dagskrá fundar:

Ársreikningur Íslenska málfræðifélagsins.

Fundur settur kl. 16:30.

EÓ kynnir ársreikning ÍM. Fram kemur að tap ÍM á árinu 2017 hafi numið kr 427.153. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 2.221.667. EÓ segir að breytingar á ársreikningi frá því að hann var fyrst kynntur í janúar séu til komnar vegna endurgreiðslu frá skattinum. Að öðru leyti hafi reikningurinn ekki breyst. EÓ greinir frá því að rekstrartekjur hafi batnað og að fleiri erlendir áskrifendur hafi bæst við. EÓ segist hafa breytt uppsetningu ársreiknings til að gera hann skýrari.

ER spyr hvað flokkist undir „annan kostnað“. EÓ svarar að félagið hafi greitt reikninga sem átti að borga 2017, þess vegna sé kostnaður hærri núna. EÓ fékk engin gögn frá fyrri gjaldkera og þess vegna er erfitt að gera samanburð.

EÓ gerir grein fyrir að hallinn á rekstri félagsins hafi lækkað mjög mikið og haldist hann eins og er, þá muni styrkur frá Málræktarsjóði ná yfir hann árið 2018. Þá komi rekstur félagsins út á jöfnu. ER þakkar gjaldkera kærlega fyrir vel unnin störf.

Ársreikningur er einróma samþykktur.

ER slítur fundi kl. 16:48.

Fundargerð ritaði Ingunn Hreinberg Indriðadóttir.

 

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Íslenska málfræðifélagsins, haldinn föstudaginn 19. janúar 2018 kl. 14:30 í stofu 107 í Veröld – húsi Vigdísar.

Fundarmenn: Jóhannes Gísli Jónsson (JGJ), Höskuldur Þráinsson (HÞ), Ingunn Hreinberg Indriðadóttir (IHI), Margrét Guðmundsdóttir (MG), Elma Óladóttir (EÓ), Þorbjörg Þorvaldsdóttir (ÞÞ), Mathew Whelpton (MW), Einar Freyr Sigurðsson (EFS), Þórhallur Eyþórsson (ÞE), Nedelina Ivanova (NI), Kristján Friðbjörn Sigurðsson (KFS), Haraldur Bernharðsson (HB), Ásta Svavarsdóttir (ÁS), Sigríður Sigurjónsdóttir (SS) (mætti 14:56). Iris Edda Nowenstein (IEN) og Eiríkur Rögnvaldsson (ER) boðuðu forföll.

Fundarstjóri: Jóhannes Gísli Jónsson.

Dagskrá fundar:

  1. Formaður flytur skýrslu stjórnar
  2. Gjaldkeri leggur fram ársreikninga félagsins
  3. Stjórnarkjör
  4. Önnur mál

Fundur settur kl 14:18.

1. Formaður flytur skýrslu stjórnar.

ÞE flytur skýrslu stjórnar þar sem farið er yfir starfsemi félagsins á starfsárinu 7 mars 2017 – 19. janúar 2018. Dagskrárliðir eru: málvísindakaffi og fyrirlestrar, Rask-ráðstefnan sem haldin verður 27. janúar 2018, félagatal og kynningarmál ÍM. ÞE gerir grein fyrir því að Málvísindakaffi hafi ekki enn farið fram árið 2018 þar sem fyrir lá að ný stjórn yrði kosin í janúar. Skýrsla stjórnar er einróma samþykkt.

2. Gjaldkeri leggur fram ársreikninga félagsins.

EÓ kynnir ársreikning ÍM. Fram kemur að tap ÍM á árinu 2017 hafi numið kr 639.070. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 2.035.804.

EÓ segir að hún þurfi að afla sér frekari bókhaldsgagna til að fullvinna ársreikning 2017. Ársreikningur 2016 hafði ekki verið gerður af síðasta gjaldkera og því hafi hún unnið hann á árinu. Auk þess hafi skattframtölum félagsins ekki verið skilað fyrir síðastliðin tvö ár svo EÓ skilaði þeim á þessu ári. EÓ gerir grein fyrir því að hún hafi fengið virðisaukanúmer félagsins endurvirkjað.

EÓ gerir grein fyrir því að hún hafi sett sig í samband við gamla félaga, sem höfðu dottið út af lista og ekki fengið ársrit lengi, og komið þeim aftur í félagaskrá. Hún eigi von á 20-30 slíkum félögum í viðbót. Vegna þessa hafi árstekjur félagsins hækkað töluvert og einnig vegna þess að ársgjaldið var hækkað um tæpar þúsund krónur frá því í fyrra. Tap félagsins af útgáfu er lítið í ár en það skýrist af því að EÓ felldi niður gamlar kröfur upp á rúmlega 50.000 kr., vegna skorts á bókhaldsgögnum frá árunum 2016 og 2017, og greiddi skattinum útistandandi skuldir félagsins.

HÞ leggur til að Ársreikningurinn verði samþykktur á framhaldsaðalfundi eftir tvo mánuði sem verður sérstaklega tileinkaður honum. Stjórn samþykkir uppkast ársreiknings 2017 og samþykkir að hafa framhaldsaðalfund innan tveggja mánaða.

EÓ leggur til að breytingar verði gerðar á stjórn ÍM og að hún verði aðeins skipuð af fjórum stjórnarmeðlimum auk ritstjóra. Varamenn verði þ.a.l. teknir út. JGJ bendir á að til þess þurfi lagabreytingu og EÓ leggur til að ný stjórn taki málið fyrir á nýju starfsári.

3. Stjórnarkjör.

ÞE les upp nöfn stjórnarmeðlima starfsársins 2017:

Formaður: Þórhallur Eyþórsson
Gjaldkeri: Elma Óladóttir
Ritari: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Meðstjórnandi: Kristján Friðbjörn Sigurðsson
Ritstjórar: Höskuldur Þráinsson og Haraldur Bernharðsson
Varamenn: Íris Edda Nowenstein og Nedelina Ivanova
Skoðunarmenn reikninga: Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir
Fulltrúi félagsins á aðalfundi Málræktarsjóðs: Ingibjörg Frímannsdóttir

ÞE og IEN gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. HÞ og HB gefa ekki kost á sér til áframhaldandi ritstjórnarstarfa. ÞE bendir einnig á að ER geti ekki lengur sinnt hlutverki skoðunarmanns reikninga, verði hann kjörinn formaður nýrrar stjórnar. ÞE les upp eftirfarandi tillögu að stjórn ÍM 2018:

Formaður: Eiríkur Rögnvaldsson
Gjaldkeri: Elma Óladóttir
Ritari: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Meðstjórnandi: Kristján Friðbjörn Sigurðsson
Ritstjórar: Þórhallur Eyþórsson og Ásta Svavarsdóttir
Aðstoðarritstjóri: Einar Freyr Sigurðsson
Varamenn: Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Nedelina Ivanova
Skoðunarmenn reikninga: Ari Páll Kristinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir
Fulltrúi félagsins á aðalfundi Málræktarsjóðs: Ingibjörg Frímannsdóttir

MG spyr hvort til sé lagastoð fyrir því að hafa aðstoðarritstjóra. HB telur svo ekki vera en bendir á það að aðalfundur hafi vald til að ákveða fjölda ritstjóra. ÞE leggur til að EFS verði formlegur ritstjóri og leggur fram nýja tillögu að stjórn ÍM 2018:

Formaður: Eiríkur Rögnvaldsson
Gjaldkeri: Elma Óladóttir
Ritari: Ingunn Hreinberg Indriðadóttir
Meðstjórnandi: Kristján Friðbjörn Sigurðsson
Ritstjórar: Þórhallur Eyþórsson, Ásta Svavarsdóttir og Einar Freyr Sigurðsson
Varamenn: Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Nedelina Ivanova
Skoðunarmenn reikninga: Ari Páll Kristinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir
Fulltrúi félagsins á aðalfundi Málræktarsjóðs: Ingibjörg Frímannsdóttir

Ný stjórn ÍM er einróma samþykkt.

4. Önnur mál.

EÓ spyr hvort ekki sé til betri leið til að halda utan um skráningu nýliða í félagið. Henni finnst rafræna skráningarblaðið ekki virka nógu vel þar sem hún fær engar tilkynningar þegar nýr aðili skráir sig og að það sé óþægilegt að hafa fleiri en einn félagalista. IHI bendir á að IEN hafi stofnað skráningarblaðið á sínum tíma til að endurnýja félagaskráninguna en að það hafi kannski ekki virkað sem skyldi, enda eru einhverjir félagar skráðir á mörgum stöðum. EFS bendir á að það sé hægt að fá tilkynningar í hvert sinn sem einhver skráir sig með rafræna eyðublaðinu. EÓ leggur til að félagar skrái sig frekar með því að senda henni tölvupóst. Ákveðið er að málið verði aftur á dagskrá á framhaldsaðalfundi.

IHI leggur til að nýr kynnisviðburður verði skipulagður í samstarfi við Mími. IHI bendir á að síðasti viðburður hafi verið ódýr í skipulagningu og kostað félagið u.þ.b. 16.000 kr. en að hann hafi skilað félaginu hagnaði með nýjum áskrifendum og sölu á tímaritapökkum. IHI leggur til að hún taki að sér að skipuleggja nýjan viðburð í byrjun febrúar og að hún fái einn af yngri stjórnarmeðlimum til aðstoðar. Tillagan er einróma samþykkt.

EÓ spyr um þóknun gjaldkera. Skv. samþykkt félagsins á EÓ að fá 100.000 kr. þóknun fyrir störf sín. EÓ afþakkar þóknunina og biður um að þess í stað greiði félagið skráningargjald námskeiðsins „Skattaskil rekstraraðila“ fyrir hana (37.800 kr.). Tillagan er einróma samþykkt.

IHI bendir á að flutningur heimasíðu félagsins af malfraedi.is yfir á síðu Málvísindastofnunar megi ekki bíða lengur. IHI minnir á að Bjarki Karlsson hafi lokað síðunni í fyrra án þess að sækja af henni gögn sem félagið vill halda til haga. Þegar þetta kom í ljós opnaði Bjarki síðuna á nýjan leik til að bjarga gögnunum. Síðan þá hafi síðan staðið opin en hún hafi ekki verið uppfærð í tvö ár. IHI bendir á að ÍM verði að hafa virka, uppfærða heimasíðu og að ekki sé nóg að hafa Facebook síðu fyrir félagið. MG leggur til að Elín Björk Jóhanssdóttir taki verkefnið að sér. Hún hafi unnið við Hugvísindaþing og þekki kerfið sem síða ÍM fer inn í. Tillagan er einróma samþykkt.

ÞE vekur máls á því að hann hafi sótt um styrk fyrir félagið í Málræktarsjóð. IHI vekur máls á því að enn eitt árið hafi félagið ekki sótt um styrk frá ráðuneytunum. IHI og EÓ hafi kannað málið og þá kom í ljós að fyrrverandi gjaldkeri skilaði aldrei skýrslu til ráðuneytanna um það hvernig félagið varði styrknum árið 2015. Ekki sé hægt að sækja um á nýjan leik fyrr en það hefur verið gert. EÓ segist munu hafa samband við styrkveitendur og greiða úr málinu.

ÞE spyr hvort einhver ástæða sé til að taka upp rafræna áskrift. EÓ bendir á að tilgátur um að félagar segi sig úr félaginu vegna þess að þeir vilja ekki pappírsrit séu ekki á rökum reistar. MG leggur til að formi félagsins verið breytt þar sem áskriftin sé of bundin við tímaritaútgáfuna. Hún leggur til að félagar ÍM greiði ársgjald til að styrkja félagið og að tímaritið verði alfarið í opnum aðgangi á netinu. Ákveðið er að stjórn ræði málið á nýju starfsári.

JGJ slítur fundi kl. 15:30.

Fundargerð ritaði Ingunn Hreinberg Indriðadóttir.