Fréttir

Hinrik Hafsteinsson í málvísindakaffi 13. september

Í málvísindakaffi í stofu 310 í Árnagarði föstudaginn 13. september kl. 12-13 flytur Hinrik Hafsteinsson meistaranemi erindi sem nefnist

Orðtíðnibók máls sem beinist að börnum

Útdráttur:

Rannsóknarverkefnið „Í beinan karllegg: Skráning talmáls þriggja ættliða“ miðar að skráningu máls sem beint er að börnum (e. child-directed speech), sem fengið er úr barnamálsupptökum. Hluti verkefnisins er gerð orðtíðnibókar úr þessum upptökum, sem Hinrik Hafsteinsson vinnur nú að. Þessi orðtíðnibók verður á endanum í opnum aðgangi og mun hún veita innsýn í ýmsa þætti í máltöku barna. Umsjónarmaður verkefnisins er Einar Freyr Sigurðsson.

Í verkefninu er notast við upptökur frá árunum 1987–1992 og 2011–2018. Þar af eru annars vegar upptökur með töluðu máli barns (f. 1982) og föður þess (f. 1954) og hins vegar upptökur með sama „barni“ (f. 1982) og sonar þess (f. 2011). Með því að greina talmál feðra barnanna (f. 1954 og 1982) fást miklar upplýsingar um mál sem beint er að börnum en slíkt er mikilvægt við rannsóknir á ílagi (e. input) sem íslensk börn fá í máltöku. Auk þess má með svo umfangsmiklum langsniðsgögnum fá ítarlegar upplýsingar um máltöku barnanna tveggja (f. 1982 og 2011).

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um núverandi ástand orðtíðnibókarinnar, framgang verkefnisins hingað til og verklag og áherslur í undirbúningsferlinu. Einnig verður rætt um notagildi slíkrar orðtíðnibókar í máltökurannsóknum og næstu skref í undirbúningi hennar.