Málvísindakaffi

Íslenska málfræðifélagið stendur fyrir tiltölulega óformlegum fyrirlestraröðum sem nefnast Málvísindakaffi. Þessir viðburðir eru yfirleitt haldnir u.þ.b. vikulega yfir vetrartímann, í hádeginu á föstudögum.

Sigíður Sæunn Sigurðardóttir  í Málvísindakaffi 6. janúar

Sigríður Sæunn Sigurðardóttir's picture

Næsta Málvísindakaffi verður haldið í stofu 101 í Árnagarði föstudaginn 6. janúar næstkomandi kl. 12-13. Þar flytur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir erindi um niðurstöður tilraunarannsóknar þar sem áhrif hljómfallshlés á möguleika í orðaröð voru könnuð. Erindið ber yfirskriftina

Áhrif hljómfallshlés á S3-orðaraðir sem innihalda atvikssetningar.

Útdráttur fylgir hér fyrir neðan.

Þrátt fyrir að persónubeygðar sagnir séu alla jafna í öðru sæti (S2) í íslensku, eru frávik leyfð við ákveðnar aðstæður (S1-, S3-orðaraðir). Í erindinu fjalla ég um S3-orðaraðir þar sem heilar atvikssetningar standa fremst á undan hefðbundnum S2-setningum, t.d. spurnarsetningum (1).

(1)       Þegar Haraldur fer til Belgíu í sumar, hvað ætlar hann að gera?

Ég kynni niðurstöður úr tilraunarannsókn þar sem áhrif hljómfallshlés (e. prosodic break) á möguleika slíkra orðaraða voru könnuð. Rannsóknin var svokölluð skynjunarrannsókn þar sem málhafar voru beðnir að hlusta á streng þar sem atvikssetning kom fyrir á milli tveggja S2-setninga, A og B, (2).

(2) Bárður horfir oft á fréttir þegar Baldvin er ekki heima Hvað horfir Kjartan oft á?
A atvikssetning B

Á milli atvikssetningarinnar og setninga A og B voru hljómfallshlé af mismunandi lengd. Verkefni þátttakanda var að dæma hvor setningin, A eða B, væri lengri, en svarið endurspeglaði hvort atvikssetningin tilheyrði A eða B. Niðurstöður gefa til kynna að bæði lengd hljómfallshlés og tegund setningar B hafi áhrif á hvort þátttakendur skynji S3 eða ekki. Í þeim tilfellum þar sem B var staðhæfingarsetning virðist S3-orðaröð talin málfræðilega ótæk. Þetta gefur innsýn í flókið samspil hljómfalls og setningafræði og bendir til að hljómfallshlé geti aðeins haft áhrif á möguleika S3-orðaraða ef þær eru setningafræðilega tækar.

Að vanda er hægt að óska eftir tengli fyrir aðgang að lifandi streymi fyrir þau ykkar sem komast ekki á staðinn.

Verið öll velkomin!