Rannveig Sverrisdóttir

Er táknmál nóg?

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan táknmál voru álitin látbragð og bendingar en aðrar ranghugmyndir lifa þó enn og viðhorf til táknmála breytast hægt. Ýmislegt bendir til þess að þegar allt kemur til alls séu táknmál aldrei „nóg“ og þó lagaleg staða þeirra sé tryggð standi þau ekki jafnfætis raddmálum. Það má að mestu leyti skýra með því að í raunveruleikanum eru hugmyndir manna um táknmál fyrst og fremst tengdar við heyrnarleysi en ekki tungumál.

Íslenska táknmálið fékk lagalega stöðu árið 2011 en samkvæmt Valgerði Stefánsdóttir o.fl. (2019) voru væntingarnar sem málhafarnir gerðu sér í kjölfar laganna ekki uppfylltar. Lítið er hins vegar vitað um hugmyndir málhafanna sjálfra til tungumálsins en eins og í öðrum málsamfélögum má gera ráð fyrir að þar séu uppi hugmyndir um gott mál og vont (sbr. Ari Páll Kristinsson 2017). Erlendar rannsóknir hafa margar skoðað utanaðkomandi viðhorf (viðhorf heyrandi) til táknmála en færri hafa lagt mat á stöðu innan samfélaganna sjálfra, flestar staðhæfingar um viðhorf innan táknmálssamfélaga byggja á atvikssögum. Ekki er alltaf ljóst hvað býr að baki viðhorfum málhafanna, kennslustefnur á hverjum tíma (þar með talið táknmálsbannið svokallaða) hafa haft áhrif á hugmyndir málhafanna og útskýra þær þann kynslóðamun sem er t.d. að finna í íslenska táknmálinu. Hversu mikill munurinn er á máli kynslóða hefur ekki verið kannað nákvæmlega né það hvort samræmi sé á milli málviðhorfa innan málsamfélagsins og málhegðunar. Nú þegar stendur til að skrifa og móta málstefnu íslenska táknmálsins er mikilvægt að kanna þetta, þ.e. hin duldu viðhorf og málleg viðmið samfélagsins.

Í erindinu verður sjónum því beint að viðhorfum og hlutverki þeirra þegar kemur að stöðu tungumáls og þá fyrst og fremst íslenska táknmálsins. Auk þess að ræða hverju viðhorf málhafanna, til eigin máls og máls annarra, skipti, verður fjallað um hvernig sé best að kanna þau viðhorf. Aðstæður táknmálssamfélaga eru ólíkar eftir löndum og ekki víst að sömu skilgreiningar eigi við hér og annars staðar. Svör fólks við spurningum sem snúa að viðhorfi geta verið mjög persónuleg og skiptir bakgrunnur fólks máli í því samhengi, til dæmis hvenær fólk lærði táknmál og hvort fleiri táknmálstalandi séu í fjölskyldunni. Rætt verður um aðferðafræði í þessu samhengi sem og sérstakar aðstæður íslenska táknmálssamfélagsins.

Heimildir sem vísað er til í útdrætti:

  • Ari Páll Kristinsson. 2017. Málheimar. Sitthvað um málstefnu og málnotkun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  • Valgerður Stefánsdóttir, Ari Páll Kristinsson og Júlía G. Hreinsdóttir. 2019. The Legal Recognition of Icelandic Sign Language: Meeting Deaf Peopleʼs Expectations? Maartje de Meulder, Joseph J. Murray og Rachel L. McKee (ritstj.), The Legal Recognition of Sign Languages. Advocacy and Outcomes around the World. Bristol: Multilingual Matters, bls. 238-253.