21. Rask-ráðstefnan 2007

Rask-ráðstefna Íslenska málfræðifélagsins
Þjóðminjasafni Íslands 27. janúar 2007

 

Dagskrá og útdrættir

09:15-09:45: Ari Páll Kristinsson: Stafsetningarorðabókin 2006

Stafsetningarorðabókin, ritstjóri Dóra Hafsteinsdóttir, kom út hjá JPV 29. ágúst 2006. Bókin var samin í Íslenskri málstöð í umboði Íslenskrar málnefndar sem hafði það hlutverk skv. lögum að gefa út stafsetningarorðabók. Stafsetningarorða­bókin er því opinber réttritunarorðabók um íslensku og var samin í framhaldi af þeirri réttritunarorðabók sem málnefndin gaf út fyrst 1989, þ.e. Réttritunarorðabók handa grunnskólum, ritstjóri Baldur Jónsson, en hún hafði að geyma um 14.700 flettiorð. Stafsetningarorðabókin nýja er miklu stærri að vöxtum: 736 bls. að lengd. Bókin geymir um 73.000 flettiorð og þar við bætast ýtarlegar ritreglur með fjölda dæma.
Í þessu erindi verður rakin forsaga þessa rits með hliðsjón af hinu lög­bundna hlutverki málnefndarinnar og hverjar séu almennar forsendur og markmið slíkrar opinberrar stafsetningarorðabókar. Litið verður tilnágrannalanda til samanburðar. Því næst verður vikið að fáeinum einstökum úrlausnarefnum sem ritstjóri, málstöð og málnefnd stóðu frammi fyrir í verkefninu, m.a. leiðbeiningum um vandaða beygingu og hvort ýmis orð úr óformlegu talmáli ættu erindi í bókina. Einnig verður greint frá vinnureglum um rithátt tökuorða sem notast var við. Þá verður fjallað um lagabreytingar 2006 og hvort þær muni hafa einhverja þýðingu fyrir endurútgáfu og endurbætur á bókinni þegar fram líða stundir.

 

09:45-10:15: Margrét Jónsdóttir: Stafsetningarorðabókin

Í þessu erindi ætla ég að skoða Stafsetningarorðabókina sem kom út á liðnu ári frá ýmsum sjónarhornum. Þannig lít ég til uppsetningar en einkum þó til efnisins, hvernig því er miðlað og hvaða forsendur liggja þar að baki. Má þar t.d. nefna val flettna, notkunina á stórum og litlum staf og hvernig örnefni eru kynnt. Í fram­haldi af þessu mun ég ræða þá grundvallarspurningu hvaða hlutverki bókinni hafi í raun og veru verið ætlað. Margt bendir nefnilega til þess að henni hafi ekki aðeins verið ætlað að vera hjálpartæki við stafsetningu. Það birtist gleggst í eignarfalli veikra kvenkynsorða.

 

10:15-10:45: Kristín Bjarnadóttir: Enn um –na. Um eignarfall fleirtölu af veikum kvenkynsorðum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls

Í fyrirlestrinum verður fjallað um endingar í eignarfalli fleirtölu af veikum kven­kynsorðum í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Beygingarlýsingin er verkefni sem var upphaflega unnið fyrir styrk frá menntamálaráðuneytinu með það í huga að koma upp tölvutækri beygingarlýsingu sem nýtast mætti í tungutækniverkefn­um en jafnframt yrðu beygingardæmin birt á vefsíðu Orðabókar Háskólans.
Í Beygingarlýsingunni eru nú um 260 þúsund beygingardæmi en þar af eru ósamsett veik kvenkynsnafnorð um þrjú þúsund en samsett ríflega 24 þúsund.

Beygingarflokkar veikra kvenkynsnafnorða skiptast í höfuðdráttum í fernt í verkefninu, þ.e. í orð sem aðeins fá -na (t.d. stúlka), í orð sem alltaf fá –a (t.d. stofa), og svo í orð sem geta fengið hvora endinguna sem er og er þeim raðað, þ.e. –na/-a (t.d. staða) og –a/-na (t.d. stika). Í fyrirlestrinum verður sagt frá niðurstöðum úr þeirri rannsókn sem liggur að baki þessari skiptingu í beygingarflokka og gerð grein fyrir vinnulagi og þeim gögnum sem notuð voru.

 

11:15-12:15: Tony Kroch: Finding dynamics in a corpus: the case of English verb movement

Over the past couple of decades, the quantitative study of historical corpora has led, in the domain of syntax, to the discovery of certain general principles connecting frequencies in usage to patterns in underlying grammars. Some of these principles are:

  1. Diachronic changes in the settings of syntactic parameters appear in texts as gradual changes in the relative frequencies of the superficial indicia of the competing parametric options, generally following an „S-shaped“ curve (the logistic).
  2. The usage frequencies of such indicia in distinct surface grammatical contexts, when they are governed by a single, changing parameter, all change over time at the same rate (the „Constant Rate Effect“).
  3. Grammatically independent alternations exhibit statistical independence in usage.
  4. In the absence of grammatical change, usage frequencies tend to be diachronically stable over long periods.

In this talk, I will show how these principles, when applied to the history of verb movement in English, can shed light on two major developments: the loss of the verb-second constraint and the loss of V-to-I movement. Specifically, I will give evidence: (1) that the loss of V2 in Middle English occurs via competition between a Scandinavian-influenced V2
grammar and the native Anglo-Saxon V2 system and (2) that the loss of V-to-I movement in Early Modern English occurs in two stages, consistent with the „Split-INFL“ hypothesis.

 

13:00-13:30: Eiríkur Rögnvaldsson og Hrafn Loftsson: Hlutaþáttun íslensks texta

Vélræn setningagreining eða þáttun er grunneining í mörgum máltæknikerfum. Markmið með setningagreiningu er að greina formgerð setninga og tengsl ein­stakra hluta þeirra. Þáttari er forrit sem framkvæmir setningagreiningu. Inntak í þáttara er í flestum tilvikum í formi markaðra setninga og úttakið er lýsing á form­gerð þeirra og fyrrgreindum tengslum.

Setningagreiningu er oftast skipt í tvo yfirflokka. Annars vegar er um að ræða fulla þáttun, þar sem búið er til fullkomið þáttunartré(liðgerðartré) fyrir sér­hverja setningu, og hins vegar hlutaþáttun þar sem setningar eru greindar í setn­ingarhluta án þess að krefjast þess að sérhver hluti passi inn í víðtæka þáttun.

Í þessum fyrirlestri lýsum við svokölluðum stigvaxandi hlutaþáttara fyrir íslensku. Í þáttaranum er tengd saman röð af stöðuferjöldum —úttakið úr undan­farandi stöðuferjaldi er notað sem inntak í ferjaldið sem á eftir kemur. Sérhvert ferjald hefur ákveðið hlutverk, eins og að merkja tiltekna setningarliði eða tiltekin setningafræðileg hlutverk. Merkingarnar sem um ræðir fylgja svokölluðu þáttunar­skema sem var sérstaklega hannað fyrir þetta verkefni.

Mælingar hafa sýnt fram á háa nákvæmni þáttarans. Við greiningu setning­arliða fæst 96,75% nákvæmni (e. precison) og 96,52% griphlutfall (e. recall). Fyrstu mælingar benda einnig til hárrar nákvæmni við greiningu setningafræðilegra hlut­verka.

 

13:30-14:00: Jón Hilmar Jónsson: Íslenskt orðanet — efniviður og uppbygging

Íslenskt orðanet er heiti á rannsóknarverkefni sem Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir hafa unnið að undanfarin tvö ár. Verkefnið er í því fólgið að rekja og greina merkingartengsl íslenskra orða og orðasambanda og flokka orðaforðann eftir merkingareinkennum orðanna. Grunneiningar orðanetsins eru annars vegar stök orð, hins vegar sjálfstæð orðasambönd af ýmsu tagi. Birtingarform orða­sambandanna er samræmt og tenging þeirra við aðrar einingar byggist jöfnum höndum á merkingarlegum skyldleika og formlegum (setningargerðarlegum) sam­einkennum.

Flokkunin byggist á því að stilla saman formlega samstæðum orðasam­böndum og samsetningum og greina þar samstæður merkingarskyldra orða (heyra þrusk, heyra skrjáf; falla í yfirlið, falla í öngvit; tún-bleðill, tún-skækill). Meginstofn orðanetsins er fólginn í tveimur orðabókarverkum með umfangsmiklu og rækilega greindu safni orðasambanda og samsetninga, Stóru orðabókinni um íslenska málnotk­un og Orðasambandaskrá Orðabókar Háskólans. Efni þessara tveggja verka er steypt saman í gagnagrunn sem nýttur er til frekari efnisgreiningar og flokkunar.

Mikilvæg forsenda fyrir merkingarflokkuninni er sú að fletturnar séu (því sem næst) merkingarlega einræðar. Þetta hefur m.a. krafist víðtækrar greiningar á sögnum, sem skilað hefur miklum fjölda sjálfstæðra sagna- og sagnasambanda­flettna þar sem bæði er tekið tillit til formlegra og merkingarlegra einkenna.

Greining efniviðarins fer fram í aðgreindum lotum þar sem tiltekinn orð­flokkur og orðflokkatengsl eru til meðferðar hverju sinni. Megináhersla er lögð á greiningu samheita-og andheitavensla, en á síðari stigum verður sú greining nýtt til myndunar stærri merkingarflokka.

 

14:00-14:30: Ásta Svavarsdóttir: Orð nema land

Í fyrirlestrinum verður fjallað um notkun og aðlögun tökuorða. Sjónum verður einkum beint að spurningunni: Hvenær (og hvernig) verða orð af erlendum upp­runa, sem notuð eru í íslensku samhengi, íslensk? Hér er um ákveðna þróun að ræða allt frá erlendum orðum sem notuð eru sem innskot í íslensku tali eða texta (og ljóst er að bæði þeir sem nota þau og viðmælendurnir líta á þau sem útlensk)til orða sem hafa lagað sig svo að íslensku málkerfi að málnotendur almennt gera sér ekki grein fyrir því að þau eigi uppruna sinn í öðrum málum.

Þróunin er þó engan veginn einföld og ferill einstakra orða er afar breytilegur, t.d. gengur að­lögunin mjög mishratt fyrir sig. Ætlunin er að skoða þetta ferli út frá ýmsum sjónarhornum og líta bæði á innri þætti, s.s. formleg og merkingarleg einkenni orða, og ekki síður á ýmsa ytri þætti sem hafa áhrif á það, t.d. ólík hlutverk máls­ins og viðhorf málnotenda.

 

14:30-15:00: Guðrún Kvaran: Jótur, jútur og önnur skyld orð

Í orðabók Johans Fritzners er orðið jótr fletta og heimildin fengin annars vegar úr Snorra-Eddu en hins vegar úr biskupasögum, nánar tiltekið úr Guðmundar sögu B sem talin er rituð um eða eftir miðja 14. öld. Merkingin er sögð ‘jaxl; andlitsmein’. Orðmyndina er einnig að finna í Guðmundar sögu C, sem varðveitt er í handriti sem skrifað er um miðja 17. öld. Þar er hún rituð „jetvr“.

Í fyrirlestrinum er ætlunin að ræða orðið jótur og tengsl þess við orðið jútur ‘bólgugúll, kýli; feitur maður’. Fleiri orð verða tekin til umfjöllunar eins og jötur ‘krabbamein’ og tengsl verða rakin við sagnirnar jótrajóttra og jórtra og stað­bundnu orðin jósturog jóstra. Ásgeir Blöndal Magnússon telur uppruna orðsins jótur óvissan í Íslenskri orðsifjabók (1989:434–435) en gerð verður tilaun til að komast skrefi lengra.

 

15:30-16:00: Kristín Eik Gústafsdóttir: Hálb er öld hvar

Þessi fyrirlestur er unninn upp úr lokaritgerð fyrirlesara til BA-prófs í íslensku. Rannsóknarefni ritgerðarinnar var lokhljóðun [v] á eftir l og r í orðum eins og orf > orb og kálfur > kálbur. Þó nokkrar vangaveltur hafa verið um uppruna og eðli þess­arar breytingar en hún hefur ekki verið rannsökuð til hlítar. Merki um breyting­una er að finna í stafsetningu fjölmargra handrita frá ýmsum tímum en samtíma­heimildir eru fáar. Markmið ritgerðarinnar var að safna saman heimildum um þennan framburð með aðstoð ritaðra heimilda og skerpa þannig þekkingu okkar á þessari breytingu. Rannsóknin var gerð sumarið 2006.

Fjallað verður um túlkun og vægi þeirra heimilda sem til eru um lokhljóðs­breytinguna og hversu mikið þær segja okkur í raun um útbreiðslu og viðhorf til þessarar mállýsku. Þá var eðli hljóðbreytingarinnar rannsakað og kannað í hvaða hljóðumhverfi hana er helst að finna.

Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru þær að lokhljóðunin er eldri en áður var talið. Hún birtist þegar í elstu heimildum og upphafs hennar gæti verið að leita nokkru fyrr. Lokhljóðsframburðurinn hefur verið til óslitið frá elstu mál­heimildum á tólftu öld og allar götur fram á nítjándu öld. Þessi breyting virðist ekki ná til orða með upphaflegt *w í stofni en aðeins eitt slíkt dæmi fannst og er umdeilt hvort upphaflegt *w eða *ƀ. hafi verið að finna í stofni þess.

 

16:00-16:30: Bjarki Karlsson: Tvinnhljóð í íslensku?

Í máli margra Íslendinga virðist einhvers konar blísturshljóði vera skotið á milli t og j í orðum sem byrja á ‘tj’. Þá hljóma orð eins og ‘tjald’ og ‘tjón’ eitthvað í átt við það sem rita mætti ‘tsjald’ og ‘tsjón’ með venjulegum latínustöfum en umdeilanlegra er hvernig réttast er að hljóðrita. Framburðarhljóð þetta virðist oft vera eitt hljóð fremur en tvö sjálfstæð, þ.e. tvinnhljóð (eða affríkat) en það er hliðstæða samhljóðakerfisins við tvíhljóð sérhljóðakerfisins. Fjallað verður um líkindi við tvinnhljóð í öðrum germönskum málum, einkum [ʧ] (e. ‘church’, f. ‘kyndil’) og [ʦ] (d. ‘tale’, þ. ‘zug’). Stundum virðist þó fremur vera um framgómað tannbergsmælt (palato-alveolar) lokhljóð að ræða, þ.e. /t/ með framgómslitun. Í fyrirlestrinum verður greint frá niðurstöðum málhafakönnunar og leikin hljóðdæmi með mismunandi framburði. Á grundvelli hljóðfræðilega þátta verður reynt að lýsa þessari framburðarbreytu sem nákvæmast en í ljósi félagslegra þátta reynt að svara spurningunni um hvort komin sé fram einhvers konar mállýska.

 

16:30-17:00: Þóra Másdóttir: Frávik í framburði tveggja og þriggja ára barna. Greining í anda David Stampe

Í fyrirlestri þessum er ætlunin að fjalla um þróun hljóðkerfisferla hjá ungum börnum. Ætla mætti að ferlum fækki eftir því sem tal barna þroskast. Reyndin er hins vegar sú að ferlin breytast með aldrinum og sum sem voru hverfandi í tali tveggja ára barna eru nú meira áberandi hjá þriggja ára börnum. Þetta má rekja til ýmissa hljóð-og hljóðkerfisbreytinga í eðlilegri máltöku barna. Ferlagreining sem á rætur að rekja til náttúrulegrar hljóðkerfisfræði David Stampe hefur víða átt miklu fylgi að fagna meðal talmeinafræðinga þótt hún hafi lítt verið notuð hér á landi. Gera verður ráð fyrir ferlum sem lýsa íslensku sérstaklega. Sem dæmi má nefna vöntun á fráblæstri sem er afar algengt ferli hjá tveggja ára íslenskum börn­um. Vöntun á aðblæstri er ferli sem ekki er algengt en kemur stundum fram í tali barna með mikil frávik í framburði. Í fyrirlestrinum verður fjallað nánar um „sér­íslensk“ ferli.

Umfjöllun þessi er byggð á gögnum úr langsniðsrannsókn á fram­burði og hljóðkerfi ungra barna. Þátttakendur voru 28 börn á aldrinum tveggja til þriggja ára með eðlilegan málþroska. Í fyrirlestrinum verður vikið að sambærilegri þróun enskumælandi barna og samanburður gerður á íslensku og ensku.