Mirko Garofalo

Staða setningafornafnsins það í íslenskri setningagerð

Fyrirlesturinn fjallar um setningafornafnið (e. anticipatory pronoun) það í íslensku og stöðu þess í setningum í ljósi naumhyggjumálfræðinnar (e. Minimalist Program). Oft kemur þetta ábendingarfornafn á undan skýringarsetningum, nafnháttarsetningum, óbeinum spurnarsetningum og jafnvel tíðarsetningum (sbr. Kress (1982)):

(1) Ég geri ráð fyrir (því) að hann sé búinn að skila ritgerðinni.

(2) Vandamálið er (það) að fyrirtækið skuldar of mikið.

(3) (Það) að fara á skíði er skemmtilegt.

(4) Man einhver eftir (því) þegar Alex Ferguson skoraði þetta mark?

(5) Afleiðingin er () að við skuldum meira núna.

(6) Axel fékk að vita (það) að hann er samþykktur í Harvard.

Þessi dæmi sýna að fornafnið fær fall á sama hátt og önnur fornöfn og samræmist frumlaginu í tölu, kyni og falli þegar það stendur á undan sagnfyllingarsetningu (sbr. (5)). Fornafnið er oft valfrjálst og virðist mynda heilan setningalið með eftirfarandi aukasetningu, sbr. dæmi eins og (3) þar sem fornafn + aukasetning er fyrsti liður setningarinnar á undan sögn í öðru sæti. Þessir eiginleikar setningafornafnsins hafa vakið spurningar um það hvort setningafornafnið sé hluti af vinstri jaðri aukasetningarinnar (sbr. Rosenbaum (1967); Höskuld Þráinsson (1979); Roussou (1991); Delicado Cantero (2013); Han (2005); Hartman (2012), m.a. vegna þess að tilvist fornafnsins hefur oft verið tengd við fallhöfnunarskilyrðið (e. Case Resistance Principle, sbr. Stowell (1981), en það kveður á um að aukasetningar megi ekki fá fall og því sé nauðsynlegt að bæta við fornafni svo að fallinu sé úthlutað. Þetta er þó langt frá því að vera óumdeilt enda hefur Anton Karl Ingason (2018) fært rök fyrir því út frá hegðun magnliða að fallsetningar í íslensku geti fengið fall.

Í fyrirlestrinum verður reynt að greina stöðu setningafornafnsins í íslenskum setningum. Í því sambandi verður fjallað um hömlur sem geta varpað ljósi á stöðu fornafnsins, þar á meðal þá staðreynd að aukasetningar sem fornafnið stendur með eru eyjar en samsvarandi aukasetningar án fornafns eru það ekki (sbr. Höskuld Þráinsson (1979) og Wood (2017)):

(7) Hún ákvað (það) að hitta Þorvald

(8) Þorvaldi ákvað hún (*það) að hitta si

Þessar hömlur verða líka athugaðar í sambandi við fráfærslusetningar. Í íslensku geta fornafnið og aukasetningin verið aðskild, a.m.k. í yfirborðsgerð setninga:

(9) Ég gerði ráð fyrir því í gær að hann væri búinn að skila verkefninu.

Fráfærslusetningar geta veitt okkur innsýn í setningastöðu fornafnsins og aukasetningarinnar en ekki er ljóst hvort fornafnið færist til vinstri (sbr. Stroik (1996); Yoon (2001)) eða aukasetningin færist til hægri (sbr. Shahar (2008); Höskuld Þráinsson (1979); Hartman (2012)).

Heimildaskrá

 • Delicado Cantero, M. (2013). Clausal substantivization in spanish: syntax and constraints. Australian Journal of Linguistics, 33(2):106–120.
 • Han, H. (2005). A nominal-shell for CPs: Beyond subject CPs. In Proceedings from the Annual Meeting of the Chicago Linguistic Society, 41, 95–109. Chicago Linguistic Society.
 • Hartman, J. (2012). Varieties of clausal complementation. PhD thesis, Massachusetts Institute of Technology.
 • Ingason, A. K. (2018). Icelandic case-marked CP. Canadian Journal of Linguistics/Revue canadienne de linguistique, pages 1–10.
 • Kress, B. (1982). Isländische Grammatik. Hueber.
 • Rosenbaum, P. S. (1967). The grammar of English predicate complement structures. Cambridge: Mass, MIT Press.
 • Roussou, A. (1991). Nominalized clauses in the syntax of Modern Greek. UCLworking papers in linguistics, 3:77–100.
 • Stowell, T. A. (1981). Origins of phrase structure. PhD thesis, Massachusetts Institute of Technology.
 • Stroik, T. S. (1996). Extraposition and expletive-movement: A minimalist account. Lingua, 99(4):237–251.
 • Wood, J. (2017). Icelandic object extraposition is still a problem for the movement theory of control: A reply to Drummond and Hornstein. Linguistic Inquiry, 48(3):513–527.
 • Yoon, H.-J. (2001). Expletive it in English. Studies in Generative Grammar, 11:543–562.
 • Þráinsson, H. (1979). On Complementation in Icelandic. New York: Garland.