Gísli Rúnar Harðarson

Munstur og undantekningar í samsettum nafnorðum í íslensku

Formgerðarhömlur: Formgerð samsettra nafnorða virðist að verulegu leiti skilyrt af því hvort eignarfallsviðskeyti sé til staðar eða ekki (sjá t.d. Baldur Jónsson 1984,1987 [BJ]; Eirík Rögnvaldsson 1990: 35–6; Þorstein Indriðason 1999; Kristínu Bjarnadóttur 2017 [KB]). Einnig virðist vera sterk hneigð fyrir því að ef forliður er samsettur er annar liður beygður, (1) (BJ). Þó má finna ýmsar undantekningar, (2) (BJ; KB).


Á móti hömlu BJ virðist einnig vera samsvarandi regla þar sem fyrsti liður virðist þurfa vera beygður ef viðliður er samsettur, (3). En sú regla er heldur ekki undantekningalaus, (4).


Gísli Rúnar Harðarson (2016, 2017 [GRH]) færir rök fyrir lagskiptri formgerð þar sem beygðir forliðir hengjast ofar í formgerðina en óbeygðir, þ.e. í beygingarlag hauss samsetningarinnar, (5).


Útfrá þessari nálgun er hægt að ná utan um dæmin í (1) og (3) og undantekningarnar í (2) og (4). Ef báðir liðir eru beygðir eða óbeygðir eru bæði samsettur viðliður og samsettur forliður mögulegir, (2) og (4). Hins vegar ef annar forliðurinn er beygður og hinn óbeygður er einungis önnur formgerðin í boði. Ef beygður forliður fer á undan óbeygðum er einungis samsettur viðliður mögulegur, (3) en ef óbeygður forliður fer á undan beygðum er einungis samsettur forliður mögulegur, (1).

Undantekningar: Ýmis dæmi virðast á yfirborðinu vera gagndæmi við nálgun GRH (sjá t.d. GRH, KB 2017) en þegar nánar er að gáð kemur í ljós að um reglulegar undantekningar er að ræða. Dæmi um samsettan forlið þar sem beygður forliður fer á undan óbeygðum falla í tvo flokka (GRH). Annars vegar eru það samsetningar þar sem annar forliður er einkvæður, endar á /s/ og taka -s í eignarfalli eintölu, (6). BJ (1984:172) bendir á að þetta séu mögulega eignarfallssamsetningar í dulargervi þar sem framburðarmunur er hlutleystur í þessu umhverfi og tvímyndir finnast oft í stafsetningu. Hins vegar er um að ræða dæmi eins og (7) þar sem fyrir eru samsetningar sem eiga annan viðlið sameiginlegan. Hér koma ýmsir möguleikar til greina, t.a.m. samdráttur, þar sem tveir eins liðir liggja saman er öðrum þeirra eytt.


Dæmi um samsettan viðlið þar sem óbeygður forliður fer á undan beygðum eru einnig af tvennum toga. Annars vegar þar sem fyrsti forliður er óteljanlegur og táknar efnivið eða óbreytanlegan eiginleika, (8). Annar forliður virðist fá aukaáherslu í þessum tilvikum. Möguleg skýring á þessu munstri er að í þessu samhengi fá forliðirnir ∅-eignarfallsendingu. Hins vegar þar sem viðliðurinn er ýmist tímarit eða hnífapör, (9). Hugsanlega eru þetta bandstafasamsetningar frekar en eignarfallssamsetningar og því stofnsamsetning möguleg.


Útvíkkaðar hneigðir: Þessi nálgun á samsetningar býður upp á útvíkkun á hömlu BJ. Rétt eins og samsettir forliðir er mjög sterk hneigð fyrir því að afleidd orð myndi beygða forliði frekar en óbeygða, (10), og þegar við berum saman stofnsamsetningar og afleiðslur má sjá klárar samsvaranir í formgerðinni, (11).


Í báðum tilvikum er um að ræða aukna formgerð í stofnlagi og því fella samsetta forliði og afleidda stofna undir einn hatt, þ.e. að forliðir með aukna formgerð í stofnlagi séu heldur beygðir en óbeygðir.

Heimildir

  • Baldur Jónsson. 1984. Samsett orð með samsetta liði. Fáeinar athugasemdir. Í Bernt Fossestøl, Kjell Ivar Vannebø, Kjell Venås & Finn-Erik Vinje (ritstj.): Festskrift til Einar Lundeby, 3. oktober 1984, bls. 158–174. Novus Forlag, Oslo.
  • Baldur Jónsson. 1987. Íslensk orðmyndun. Andvari 112: 88–103.
  • BÍN=Beygingarlýsing íslensks nútímamáls. Ritstjóri Kristín Bjarnadóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. https://bin.arnastofnun.is [sótt 4.02.2019].
  • Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
  • Gísli Rúnar Harðarson. 2016. Peeling away the layers of the onion: on layers, inflection and domains in Icelandic compounds. Journal of Comparative Germanic Syntax 19: 1–47.
  • Gísli Rúnar Harðarson. 2017. Cycling Through Grammar: On Compounds, Noun Phrases and Domains. Doktorsritgerð við Connecticutháskóla í Storrs, CT.
  • Kristín Bjarnadóttir. 2017. Phrasal compounds in Modern Icelandic with reference to Icelandic word formation in general. Carola Trips & Jaklin Kornfilt (ritstj.): Further investigations into the nature of phrasal compounding, bls. 13–48. Language Science Press, Berlin.
  • ROH=Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://ritmalssafn.arnastofnun.is/ [sótt 11.02.2019 ].
  • Þorsteinn Indriðason. 1999. Um eignarfallssamsetningar og aðrar samsetningar í íslensku. Íslenskt mál og almenn málfræði 21: 107–150.