25. Rask-ráðstefnan 2011

25. Rask-ráðstefna Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar Háskóla Íslands í fyrirlestrasal Þjóminjasafnsins laugardaginn 29. janúar 2011

 

Dagskrá

10:15 Setning ráðstefnunnar
10:30-11:00 Haukur Þorgeirsson Þróun miðmyndarendingar í íslensku – vitnisburður kveðskapar
11:00-11:30 Þorsteinn G. Indriðason Margt býr í fúgunni. Um tengihljóð í vesturnorrænum samsetningum
11:30-12:00 Katrín Axelsdóttir Einshvers staðar einnhvern tíma aftur
12:00-13:00 Matarhlé
13:00-13:30 Jóhannes Gísli Jónsson Neikvæðisorð í íslensku
13:30-14:00 Anton Karl Ingason Liðum frestað hjá málhöfum sem eru svo þungir að fólk á erfitt með að skilja hvað er í gangi
14:00-14:30 Þórhallur Eyþórsson og Ásta Svavarsdóttir  

Hvenær og hvers vegna urðu Íslendingar þágufallssjúkir?

14:30-15:00 Kaffihlé
15:00-15:30 Martha Dís Brandt Kynning á þróun íslensks-ensks vélræns grófþýðingarkerfis
15:30-16:00 Guðrún Theodórsdóttir Leiðréttingar í venjulegum samskiptum á íslensku sem öðru máli utan kennslustofunnar
Ráðstefnuslit

 

Útdrættir:

 

Haukur Þorgeirsson: Þróun miðmyndarendingar í íslensku – vitnisburður kveðskapar

Málfræðingar hafa ekki verið á eitt sáttir um þróun íslensku miðmyndarendingarinnar. Í elstu handritum er hún venjulega rituð <sk> og eftir siðaskipti er hún venjulega rituð <st>. Á tímabilinu 1250-1550 tíðkast ýmsir rithættir, sérstaklega <z> og <zt>. Sumir hafa talið að á bak við þessa rithætti búi alltaf framburðurinn /st/ en aðrir hafa gert því skóna að /ts/ og /s/ hafi á tímabili einnig verið til sem miðmyndarendingar. Í þessu erindi verða skoðuð gömul rímbundin dæmi um miðmyndarendingar og heimildagildi þeirra rætt, sérstaklega með tilliti til utanstöðu lokasamhljóðs í rími.

 

Þorsteinn G. Indriðason: Margt býr í fúgunni. Um tengihljóð í vesturnorrænum samsetningum

Í vesturnorrænum fúgum (n. fuge), þ.e. á mótum fyrri og seinni liðar í samsetningum, finnum við ýmiskonar hljóð. Í færeysku og íslensku er venjan að tala um eignarfallsendingar og þá um leið eignarfallssamsetningar (sjá t.d. Höskuld Þráinsson o.fl. 2004 og Þorstein G. Indriðason 1999). Í norsku hins vegar horfir þetta öðruvísi við því þar er talað um tengihljóð og tengihljóðssamsetningar (n. fugesammensetninger), sbr. t.d. Faarlund o.fl. (1997). Þetta helgast af sögulegri þróun. Í norsku umbreyttust eignarfallsendingarnar tiltölulega snemma í tengihljóð en sú umbreyting varð ekki í sama mæli í færeysku og íslensku. Í erindinu er ætlunin að velta vöngum yfir hugsanlegum skýringum á þessu. Enn fremur verður vöngum velt yfir því hversu beygingarlegar eignarfallsendingarnar eru í fyrri liðum í samsettum orðum í færeysku og íslensku og þær vangaveltur tengdar hugmyndum um ’innri’ (e. inherent) og ’ytri’ (e. contextual) beygingu (sjá t.d. Booij 1996). Í framhaldi af því verður skoðað hvort eitthvað bendi til þess að færeyska og íslenska séu að þróast í sömu átt og norska hvað varðar umbreytingu yfir í tengihljóð í samsetningum.

Heimildir

  • Booij, Geert E. 1996. Inherent versus contextual inflection and the split morphology hypothesis. Í: G.E.Booij & J. van Marle (ritstj.) Yearbook of Morphology 1995:1-16. Dordrecht: Kluwer.
  • Faarlund, Jan Terje, Svein Lie og Kjell Ivar Vannebo. 1997. Norsk referansegrammatikk. Oslo: Universitetsforlaget.
  • Höskuldur Þráinsson, Hjálmar P. Petersen, Jógvan í Lon Jacobsen og Zakaris Svabo Hansen. 2004. Faroese. An overview and reference grammar. Tórshavn: Føroya Fróðskaparfelag.
  • Þorsteinn G. Indriðason. 1999. Um eignarfallssamsetningar og aðrar samsetningar í íslensku. Íslenskt mál og almenn málfræði 21:107-150.

 

Katrín Axelsdóttir: Einshvers staðar einnhvern tíma aftur

Óákveðna fornafnið einhver hefur tekið allmiklum breytingum síðan í fornu máli. Þessar breytingar snerta tíðni, beygingu og merkingu. Orðið virðist hafa verið tiltölulega sjaldgæft í fornu máli en í nútímamáli er það með algengari orðum. Að fornu beygðust yfirleitt báðir liðir orðsins, nú yfirleitt aðeins sá síðari. Loks hafði orðið í fornu máli fjölbreyttari merkingu en nú; aðalmerkingarnar voru tvær („sérhver“ og „einhver“) en nú er önnur þeirra horfin. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir þessum breytingum og giskað á ástæður þeirra. Einnig verður rætt um hugsanleg tengsl aðalmerkinganna tveggja.

 

Jóhannes Gísli Jónsson: Neikvæðisorð í íslensku

Svonefnd neikvæðisorð (e. negative polarity items) hafa lítið verið til umræðu í skrifum um íslenska málfræði (en sjá þó bls. 446-448 í Íslenskri tungu III). Í þessum fyrirlestri verður fjallað um ýmis setningafræðileg atriði sem tengjast neikvæðisorðum í íslensku, einkum þó samband neikvæðisorða eins og neinn og þess neitandi liðar sem neikvæðisorðið gerir kröfu um (sbr. Ég segi engum neitt vs. *Ég segi neinum ekkert). Rætt verður að hve miklu leyti þetta er sambærilegt við samband undanfara og afturbeygðs fornafns (sbr. Ég sýndi honum sjálfan sig í speglinum vs. *Ég sýndi sjálfum sér hann í speglinum).

 

Anton Karl Ingason: Liðum frestað hjá málhöfum sem eru svo þungir að fólk á erfitt með að skilja hvað er í gangi

Frestun þungra setningaliða hraðar úrvinnslu heilans á setningum með þeim tilkostnaði að líkur á misskilningi aukast. Til dæmis er algengt að tilvísunarsetningu sé frestað þannig að eitthvað komi á milli hennar og liðarins sem hún á við. Ólíkt frestun þungs nafnliðar er frestun tilvísunarsetningar alltaf valkvæð og því eru tilvísunarsetningar hentugar til að rannsaka eðli þyngdarbreytunnar. Er þyngd setningafræðileg eða hljóðkerfisleg? Er hún afdráttarlaus tvígildur eiginleiki eða mælanleg á kvarða? Í fyrirlestrinum verður kynnt megindleg rannsókn á frestun tilvísunarsetninga í íslenska trjábankanum og sambandi frestunar við þyngd og aðrar breytur sem skipta máli, t.d. ákveðni og setningafræðilegt hlutverk höfuðorðsins.

 

Þórhallur Eyþórsson og Ásta Svavarsdóttir: Hvenær og hvers vegna urðu Íslendingar þágufallssjúkir?

Þágufallshneigð eða „þágufallssýki“ skapar tilbrigði í frumlagsfalli með skynjunarsögnum í nútímamáli milli setninga á borð við þessar: a) Mig langar í kaffi ; b) Mér langar í kaffi. Í erindinu munum við velta upp spurningum sem varða aldur og ástæður breytingarinnar þf. ->þgf. með umræddum sögnum í ljósi niðurstaðna úr fjölmörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið undanfarna áratugi á sögu og útbreiðslu þágufallshneigðar.

 

Martha Dís Brandt: Kynning á þróun íslensks-ensks vélræns grófþýðingarkerfis 

Hugbúnaður frumgerðar umræddrar grófþýðingarkerfis er opinn og byggist á Apertium rammanum ásamt tiltækum opnum málvinnslutólum úr IceNLP málvinnslupakkanum sem voru samþættuð í þessa frumgerð þýðingarkerfisins. Tilgangur samþættingarinnar var að nýta íslensk málvinnslutól sem þegar eru til í þeirri von að það myndi skila betri gæðum á þýðingunum.

Hins vegar leiddi mat á hlutfalli villuorða (e. WER) og hlutfalli óháðra villna (e. PER) í ljós að villuorðahlutfallið er 50.60 % og óháðra-villuhlutfallið er 40.78 %, sem er hærra en önnur íslensk-ensk þýðingarkerfi er frumgerðin var borin saman við.

Niðurstöður verkefnisins sýna að frekari vinnu er þörf til þess að gera þesskonar samþættingu að vænlegum kosti við gerð vélræns grófþýðingarkerfis byggðu á Apertium rammanum fyrir íslensku-ensku.

 

Guðrún Theodórsdóttir: Leiðréttingar í venjulegum samskiptum á íslensku sem öðru máli utan kennslustofunnar

Erindið fjallar um nokkrar tegundir leiðréttinga á máli þeirra sem tala íslensku sem annað mál. Rannsóknaraðferðin er Samtalsgreining (Conversation Analysis). Þau atriði sem verða skoðuð eru:

  • Hverjir leiðrétta? Er það sá sem talar íslensku sem annað mál sem leiðréttir sjálfan sig eða er það viðmælandinn?.
  • Hvað er leiðrétt? Hér verður sjónum beint að þeim atriðum í tungumálinu sem eru leiðrétt: Beygingar, framburður, orðaforði.
  • Hvers vegna er leiðrétt? Einnig verður skoðað hvaða þættir leiða til leiðréttingar: Erfiðleikar í skilningi, íslenskunám og -kennsla utan kennslustofunnar.
  • Hvað verður um leiðréttingarnar? Þá verður fjallað um hvort og þá hvernig sá sem talar íslensku sem annað mál bregst við leiðréttingum annarra.
  • Hvernig er leiðrétt? Loks verða skoðaðar þær aðferðir sem eru notaðar við leiðréttingar.