Þorsteinn G. Indriðason

Af hverju er viðskeytið -legur svona virkt í íslensku? Söguleg úttekt

Rannsóknir á sögulegri virkni (e. diachronic productivity) orðmyndunarferla geta veitt mikilvægar upplýsingar um það hvaða atriði stýra þróun og vexti orðaforðans í tilteknu tungumáli (sjá t.d. Katamba 1993, Bauer 2001 og Haspelmath 2002). Í íslensku hafa þessar rannsóknir aðallega snúist um samtímalega virkni (e. synchronic productivity), sbr. Mulford (1983), Sigurð Jónsson (1984), Eirík Rögnvaldsson (1987, 1988) og Þorstein G. Indriðason (2008).

Í erindinu verður sagt frá athugun á sögulegri virkni viðskeytisins -legur í íslensku með hjálp dæma úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Í safninu er að finna orð úr um 1850 orðteknum ritum frá því um miðja 16. öld og fram á 20. öld (sjá Ástu Svavarsdóttur o.fl. 1993). Í athuguninni var nýjum orðum með viðskeytinu safnað á tímabilinu 1600 – 1900 og þau flokkuð eftir tegundum grunnorða. Í virknifræðunum er skilið á milli grunnorðatíðni (e. type frequency) og dæmatíðni (e. token frequency), sjá t.d. Bauer (2001). Til þess að mæla sögulega virkni er aðallega stuðst við grunnorðatíðni, þ.e. hversu mörgum ólíkum grunnorðum viðskeyti getur tengst á ákveðnu tímabili (sbr. t.d. Haspelmath 2002). Tegundir grunnorða með viðskeytinu -legur sem eru áberandi í athuguninni eru eftirfarandi:

 1. rætur (rök-, haust-, las-)
 2. einfaldar eignarfallsmyndir (heiftar-, fólsku-, bófa-, garms-)
 3. flóknari eignarfallsmyndir (háðungar-, lærdóms-, þykkildis-)
 4. viðskeytt orð (mæðusam-, liðug-, þjóðræn-)
 5. tengihljóð af ýmsum toga (gleyman-, gisti-, lögu-)

Á umræddu tímabili fundust fjölmörg orð með viðskeytinu og viðskeytið virðist geta tengst grunnorðum af nær öllum orðflokkum ef undan eru skildar sagnir. Í erindinu verður söguleg virkni -legur metin og hún borin saman við virkni annarra viðskeyta á sama tímabili og tilfærðar ýmsar ástæður fyrir því að viðskeytið er svo virkt sem raun ber vitni.

Heimildir

 • Ásta Svavarsdóttir o.fl. 1993. Sýnihefti sagnorðabókar. Rannsóknar- og fræðslurit 3. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
 • Bauer, Laurie. 2001. Morphological Productivity. Cambridge University Press, Cambridge.
 • Eiríkur Rögnvaldsson. 1987. Nokkur viðskeyti og tíðni þeirra. Morgunblaðið 15. maí, B-hluti: 8-10.
 • Eiríkur Rögnvaldsson. 1988. Einsleitur grunnur íslenskra viðskeyta. Óprentað handrit. Háskóli Íslands, Reykjavík.
 • Haspelmath, Martin. 2002. Understanding Morphology. Arnold, London.
 • Katamba, Francis. 1993. Morphology. MacMillan Press, London.
 • Mulford, Randa. On the Acquisition of Derivational Morphology in Icelandic: Learning about -ari. Íslenskt mál 5: 107-127.
 • Sigurður Jónsson. 1984. Af hassistum og kontóristum. Íslenskt mál 6: 155-167.
 • Þorsteinn G. Indriðason. 2008. Um virkar og frjósamar orðmyndunarreglur í íslensku. Íslenskt mál 30: 93-120.