32. Rask-ráðstefnan 2018

 32. Rask-ráðstefnan um íslenskt mál og almenna málfræði  

 Fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 27. janúar 2018

  

Ráðstefnan er helguð minningu Magnúsar Snædals

(17. apríl 1952 – 3. desember 2017)

 

Dagskrá

09:00              Ráðstefnan sett

09:00-09:20    Margrét Jónsdóttir: „Magnúsar Snædals minnst“

09:20-09:50    Ásgrímur Angantýsson, Finnur Friðriksson og Sigurður Konráðsson „Íslenskt mál og málfræði í grunn- og framhaldsskólum“

09:50-10:20    Elín Þórsdóttir: „Breytingar á háttanotkun í íslensku – innri breytileiki og áhrif ílags“

10:20-10:50    Ágústa Þorbergsdóttir: „Þvert á menningu og tungumál – samnorrænt íðorðaverkefni“

10:50-11:20    Hlé

11:20-11:50    Auður Hauksdóttir: „„Eckėrt er kverið þeim til leidarvísirs, er girnast ad læra dönsku edur eingelsku“ (Rasmus Rask 1815)“

11:50-12:20    Már Jónsson: „Dönsk áhrif á íslenskt mál í Grindavík á fyrstu árum 19. aldar“

12:20-13:30    Hádegishlé

13:30-14:00    Dagbjört Guðmundsdóttir, Iris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir: „Afturvirkni og tíðniáhrif í fallmörkun frumlaga“

14:00-14:30    Einar Freyr Sigurðsson og Eiríkur Rögnvaldsson: „Flókin færsla“

14:30-15:00    Jóhannes Gísli Jónsson: „Andlagsstökk í (vestur-)íslensku“

15:00-15:30    Þorbjörg Þorvaldsdóttir: „Samræmi með samtengdum nafnliðum“

15:30-16:00    Hlé

16:00-16:30    Guðrún Þórhallsdóttir: „Gleðimenn, gleðimeyjar og Gleðikvennafélag Vallahrepps“

16:30-17:00    Haukur Þorgeirsson: „Eðlissamræmi í íslensku að fornu og nýju“

17:00-17:30    Halldór Ármann Sigurðsson: „Um kyn í ensku og íslensku“

17:30              Ráðstefnu slitið

 

 Íslenskt mál og málfræði í grunn- og framhaldsskólum

Ásgrímur Angantýsson, Finnur Friðriksson og Sigurður Konráðsson

Í rannsóknarverkefninu Íslenska sem námsgrein og kennslutunga (ÍNOK) voru m.a. könnuð viðhorf nemenda og kennara til máls og málfræði. Í þeim nemendahópum sem teknir voru í viðtöl má samantekið segja að fjögur meginþemu og andstæður hafi komið í ljós. Í fyrsta lagi var áberandi að nemendurnir tengja umræðu um mál og mál­fræði skýrt við „rétt mál og rangt“, þ.e. að málfræðin sé ekki síst tæki til að ákveða hvað megi og hvað ekki þegar kemur að málnotkun. Í öðru lagi mátti greina hjá nemendum ákveðna togstreitu á milli gagnsemi og gagnsleysis málfræði því þó þeir telji hana öflugt tæki til að taka afstöðu til þess sem telst rétt og rangt mál voru ýmis málfræðihugtök oftast nefnd til sögunnar þegar þeir voru beðnir um að nefna þau viðfangsefni íslenskunnar sem gögnuðust þeim minnst. Í beinu framhaldi af þessu mátti í þriðja lagi greina ósamræmi á milli þess sem nemendur vildu læra og þess sem þeir læra í raun í skólanum, en nemendur vildu helst verða vel læsir og ritfærir og ná að tileinka sér „rétt“ mál, og töldu of miklum tíma varið í hefðbundna skólamálfræði til að það markmið næðist. Í fjórða og síðasta lagi mátti svo sjá ákveðna andstæðu á milli þess sem nemendur læra í skólanum og þess menningarlega lærdóms sem þeir fá annars staðar, en skólarnir virðast á köflum umbuna nemendum fyrir færni og þekkingu sem þeir afla sér utan skólastofunnar.

Svörum íslenskukennara má einnig skipta upp í nokkur meginþemu. Í fyrsta lagi var áberandi hve lítt mótaðar hugmyndir kennara um mál og málfræði virðast vera og þótt sumir þeirra hafi getað tengt málfræðikunnáttu við almenna málnotkun og þar með jafnvel aukna möguleika á velferð í gegnum lífið létu flestir sér nægja að segja að málfræðikunnátta sé mikilvæg, án frekari útfærslu nema hugsanlega í tengslum við einhver afmörkuð og tiltölulega smávægileg málfræðileg álitamál. Í öðru lagi var áberandi nokkurn veginn sama togstreita og greina mátti hjá nemendum á milli gagnsemi og gagnsleysis málfræðikennslu, einkum þeirrar greiningarvinnu sem hún virðist að mestu leyti byggjast á. Þannig sögðust kennararnir svo til allir telja mál­fræði mikilvæga en margir þeirra nefndu í næsta orði að hún væri sá þáttur íslenskunnar sem helst mætti draga úr. Í þriðja lagi virðast kennararnir sjá skýra snertifleti á milli málfræðikennslu og -kunnáttu og annarra þátta íslenskunnar og aðrir faggreinakennarar sem rætt var við sjá jafnframt skýra tengingu á milli kennslu íslenskrar málfræði og kennslu annarra tungumála enda verði málfræði erlendra tungumála ekki svo glatt útskýrð án vísana til íslenskrar málfræði. Þá telja aðrir faggreinakennarar málfræðina nýtast vel með óbeinum hætti í þeirra greinum, einkum við ritunarvinnu af ýmsum toga sem sinna þarf þar. Loks er vert að nefna að íslenskukennararnir virðast eiga það sammerkt að hafa fengið nokkuð strangt málfarslegt uppeldi, sem gjarnan var í höndum nánustu fjölskyldu og byggðist ekki síst á því að „góðum bókum“ var haldið að þeim.

 

Þvert á menningu og tungumál – samnorrænt íðorðaverkefni

Ágústa Þorbergsdóttir

Norrænar málnefndir og íðorðastofnanir hafa síðustu ár unnið að sameiginlegu íðorðaverkefni (Termbase til støtte for nordisk mobilitet) sem á að auðvelda aðlögun norrænna borgara sem ætla að starfa, leggja stund á nám eða búa í öðrum norrænum löndum.

Verkefnið á rætur að rekja í þeim hugmyndum sem fram koma í norræna tungumálasáttmálanum sem er samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi. Með tungumálasáttmálanum skuldbundu samningsríkin sig til að stuðla að því að ríkisborgari samningsríkis geti eftir þörfum notað eigin tungu í samskiptum við yfirvöld og aðrar opinberar stofnanir í öðru samningsríki. Auk samskipta við dómstóla á þetta sérstaklega við samskipti við opinbera aðila, svo sem heilbrigðis-, félagsmála- og skólayfirvöld. Slíkt getur þó verið vandkvæðum bundið í raun og íðorð í eigin tungumáli á þessum sviðum geta jafnvel verið óljós. Sameiginlegur norrænn íðorða­grunnur, þar sem íðorð annarra norrænna landa á þessum sviðum eru skilgreind eða útskýrð, getur því verið mikilvægt framlag til að efla skilning á granntungumálum og haft það markmið að auka hreyfanleika (mobilitet) og minnka hindranir á Norðurlöndum.

Enda þótt áður hafi verið gefnar út orðabækur milli norrænna tungumála, t.d. Skandinavisk ordbok frá 1994 og norræna veforðabókin ISLEX (http://islex.is), er þar þó fyrst og fremst að finna orð úr almennu máli. Það hefur því vantað að borgarar, sem óska eftir að búa eða stunda nám í öðru norrænu landi, gætu flett upp á einum stað sérhæfðum orðum sem notuð eru í samskiptum við yfirvöld.

Nordplus Nordens Sprog veitti styrk gerð íðorðagrunns (Termbase til støtte for nordisk mobilitet) og árið 2015 hófu málnefndirnar í Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð ásamt íðorðastofnunum DANTERMcentret (Danmörk), Terminologicentralen TSK (Finnland) og Terminologicentum TNC (Svíþjóð) vinnu við íðorðagrunninn. Språkrådet i Noregi fór með verkefnastjórn og DANTERMcentret í Danmörku sá um tæknimál í sambandi við gerð grunnsins. Ákveðið var um að taka fyrir fjögur efnissvið, þ.e. hugtök á sviði menntunar, vinnumarkaðar, dómsmála og heilbrigðismála, og byrjað var á hugtökum á tveimur fyrstnefndu sviðunum. Það markmið var sett að skilgreina 75 hugtök á dönsku, finnsku, íslensku, norsku (bókmál og nýnorsku), sænsku, finn­lands­sænsku og svíþjóðarfinnsku á báðum þessum efnissviðum. Alls var því um að ræða 1200 hugtök og lauk þessum áfanga í mars 2017.

Útbúinn var sameiginlegur gagnagrunnur til að skrá hugtökin og sérstök vefsíða þar sem þau eru birt. Á vefsíðunni er hægt að leita að hugtökum á einu norrænu tungumáli og fá jafngildi og skilgreiningar á öðru norrænu tungumáli. Í þeim tilvikum þar sem ekki er um að ræða jafngildi fær notandinn þýðingu á skilgreiningu hugtaksins.

Í erindinu verður einkum sagt frá helstu áskorunum sem fram komu í verkefninu, s.s. við val á hugtökum og mat á jafngildi hugtakanna enda er munur á menntakerfi og vinnumarkaði í norrænu löndunum.

 

„Eckėrt er kverið þeim til leidarvísirs, er girnast ad læra dönsku edur eingelsku.“ (Rasmus Rask 1815)

Auður Hauksdóttir

Á síðari hluta átjándu aldar fóru hugmyndir um þjóðerni að ryðja sér til rúms í Dan­mörku eins og víðar í álfunni og þar gegndi móðurmálið lykilhlutverki. Dönsk tunga þótti standa höllum fæti, ekki síst vegna mikilla áhrifa frá þýskri tungu og menningu. Mikill viðsnúningur átti sér stað þegar var farið að kenna á dönsku í stað latínu í Hafnarháskóla frá því um miðja átjándu öld, en í kjölfar þess fór kennsla í vaxandi mæli fram á dönsku í skólakerfinu, auk þess sem danskan varð sjálfstæð kennslugrein. Kennsluefni á dönsku í flestum greinum og aukin útgáfa bóka af ýmsum toga styrkti enn fremur stöðu dönskunnar.

Þróunin í Danmörku hafði einnig áhrif á Íslandi, sem m.a. má sjá stað í auknum og fjölbreyttari tengslum Íslendinga við danska tungu en áður hafði tíðkast. Vegna áhuga Dana á íslensku styrkti móðurmálsvæðingin í Danmörku þó líka íslensku, þ.e. hún gerði hvort tveggja í senn að styrkja og veikja bæði stöðu dönsku og íslensku hér á landi.

En í hverju fólust tengsl Íslendinga við dönsku um aldamótin átján hundruð? Hvaða Íslendingar lærðu dönsku og í hvaða tilgangi? Hvaða tækifæri höfðu þeir til að nota dönsku og hvernig háttaði til með dönskukunnátta þeirra? Skrif Rasks um Íslandsdvölina árin 1813-1815 eru mikilvæg heimild um tengsl íslensku við dönsku. Aðrar mikilvægar samtímaheimildir sem varpa ljósi á þetta efni eru Ferðabók Eggerts og Bjarna og Landsnefndarskjölin frá áttunda áratugi átjándu aldar.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar heimildir og hvaða mynd þær gefa af tengslum íslensku við dönsku á ofanverðri átjándu öld. Rætt verður um hvaða vísbendingar heimildirnar gefa um dönskunotkun Íslendinga og hvaða ályktanir má draga af þeim um dönskukunnáttu þeirra almennt á þessum tíma.

 

Dönsk áhrif á íslenskt mál í Grindavík á fyrstu árum 19. aldar

Már Jónsson

Fljótlega eftir að Rasmus Rask kom til Íslands, 25 ára gamall, dró hann þá ályktun að íslenskri tungu væri ekki viðbjargandi. Í bréfi sem hann skrifaði Bjarna Thorsteins­syni dagana 30. ágúst til 3. september 1813 fullyrti hann: „Annars þjer einlæglega að segja held jeg, að íslenzkan bráðum muni útaf deyja; reikna jeg, að varla muni nokkur skilja hana í Reykjavík að 100 árum liðnum, en varla nokkur í landinu að öðrum 200 árum þar upp frá … jafnvel hjá beztu mönnum er annaðhvort orð á dönsku; hjá almúganum mun hún haldast við lengst“ („Brjef frá Rask“, Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 9 (1888), bls. 56).

Í erindinu verður síðustu setningu Rasks fylgt eftir með könnun á því hvort málfar almennings á fyrsta fjórðungi 19. aldar hafi virkilega verið ósnortið af áhrifum frá danskri tungu. Byggt verður á tiltækum bréfum sem bændur og búalið í Grindavíkurhreppi skrifuðu sýslumanni um hversdagsleg málefni, einkum peningalega hagsmuni, og litið til orðanotkunar, orðalags og setningarskipunar. Tungutak þessa fólks verður borið saman við tungutak þeirra sýslumanna í Gullbringu- og Kjósarsýslu á sömu árum sem voru Íslendingar, en meðal þeirra var Halldór Thorgrimsen, annar góðvinur Rasmusar.

Frumathuganir benda til þess að helstu áhrifin úr dönsku séu þau að eftir því sem menn voru hærra settir og efnaðri, svo sem hreppstjórar, jukust líkur á því að þeir slettu dönsku, til dæmis nafnorðinu „begiæring“ eða sögnina „forblífa“. Djúpstæðari áhrifa gætir aðeins í ávarps- og kveðjuorðum, þar sem ætla má að stöðlun að ofan geri vart við sig; til dæmis í lok bréfs frá Þorvaldi Oddssyni 9. maí 1824, sem var 28 ára gamall og bjó á Stóra-Nýjabæ í Krísuvík: „hvörs vegna ég er yður innilega og auðmjúkliga í undirgefni umbiðjandi veleðla og réttvísa herra sýslumanninn að vilduð álíta og úrskurða mér til handa hið besta hér út í“ (Þjóðskjalasafn Íslands. Sýsluskjalasafn. Gullbringu- og Kjósarsýsla ED2/16. Dánarbú 1822–1826, örk 2, nr. 6).

 

Afturvirkni og tíðniáhrif í fallmörkun frumlaga

Dagbjört Guðmundsdóttir, Iris Edda Nowenstein og Sigríður Sigurjónsdóttir

Nokkuð viðurkennt er að gera ráð fyrir kenningum þar sem fall er að einhverju leyti fyrirsjáanlegt og bundið merkingarhlutverkum á reglubundinn hátt (Woolford 2006). Þrátt fyrir mikla grósku í rannsóknum á því hvernig börn tileinka sér merkingu sagna með setningafræðilegri mátun (e. syntactic bootstrapping) hafa fáar rannsóknir athugað hvaða hlutverki fallmörkun gegnir í því samhengi, mögulega því rannsóknirnar hafa ekki náð til tungumála með ríkuleg fallmörkunarkerfi (sjá þó Lidz, Gleitman og Gleit­man 2002). Því er tilvalið að nýta íslensku til þess að kanna þessi tengsl og um leið nauðsynlegt að túlka breytileika í fallmörkun frumlaga í ljósi kenninga um sagna­tileinkun og tengsla falls við merkingarhlutverk.

Þágufallshneigð er þekktasta dæmið um breytingar á frumlagsfalli í íslensku. Minna er fjallað um nefnifallshneigð með þemasögnum en í henni felst að aukafallsfrumlög áhrifslausra sagna sem tákna hreyfingu eða breytingu birtast í nefnifalli (Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson 2005:225):

 1. Bátinn (þf.) rak á land → Báturinn (nf.) rak á land
 2. Bátnum (þgf.) hvolfdi → Báturinn (nf.) hvolfdi

Nefnifallshneigð er, líkt og þágufallshneigð, dæmi um alhæfingu þar sem reglubundið fall er alhæft á kostnað falls sem er markaðra. Þrátt fyrir að aukafallsfrumlög þemasagna geti bæði verið í þolfalli og þágufalli hefur lengi verið talið að þágufall sé ekki alhæft með þemasögnum, þó slíkt eigi sér stað með skynjandasögnum sem sýna þá þágufallshneigð. Raunar hefur þágufallshneigð með þemasögnum verið talin ómöguleg (Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson 2005) og gert ráð fyrir að nefnifallsalhæfingar séu eini kosturinn (nýleg tilraun til útskýringar á þessu er Yang 2016). Niðurstöður úr könnunum okkar sýna hins vegar að frumlög þemasagna með upprunalegu þolfalli geta komið fyrir í þágufalli. Þannig virðast þágufallsfrumlög (sem eru þó ekki vera virk með nýjum sögnum) koma fyrir með sögnum sem sýna breytileika í fallmörkun – ekki aðeins skynjandasögnum heldur sögnum sem hafa almennt ekki gerendur sem frumlög. Þetta köllum við afturvirkni (e. retroproductivity) þágufalls­frum­laga.

Við kynnum niðurstöður tveggja kannana á nefnifallshneigð í íslensku. Í fyrri könnuninni (N = 4545) voru fjórar þemasagnir prófaðar, tvær þolfallssagnir og tvær þágufallssagnir. Eins og sjá má á myndinni kom þágufall oftar fram en upprunalegt þolfall hjá yngstu aldurshópunum með sögninni daga uppi:

 

Til þess að skýra þessi óvæntu mynstur frekar var önnur könnun hönnuð fyrir börn í 6. bekk grunnskóla (sbr. aldurshóp í rannsóknum Ástu Svavarsdóttur 1982 og Jóhannesar Gísla Jónssonar og Þórhalls Eyþórssonar 2003). 57 börn hafa þegar tekið þátt, en í könnuninni velja þau fall með 24 þema- og skynjandasögnum sem hafa upp­runalega frumlög í nefnifalli, þolfalli eða þágufalli. Tveir tíðnihópar voru notaðir fyrir hvert skilyrði: Eins algengar sagnir og kostur var á auk sagna með lága tíðni. Þátttakendur tóku einnig þátt í þekkingarprófi þar sem þau voru beðin um að merkja við þær sagnir úr fyrri liðnum sem þau þekktu fyrir, auk 22 annarra þemasagna með aukafallsfrumlagi. Með þessum hætti var athugað hvort 11-12 ára börn notist við setningafræðilega og merkingarlega mátun þegar kemur að sögnum með lága tíðni og velji þá fall út frá rökliðagerð sagnarinnar (+/- áhrifssögn) og merkingarlegum einkennum frumlagsins (+/- gerandi, +/- lifandi).

Heimildaskrá

 • Ásta Svavarsdóttir. 1982. Þágufallssýki. Breytingar á fallnotkun í frumlagssæti ópersónulegra setninga. Íslenskt mál og almenn málfræði 4:19-62.
 • Jóhannes Gísli Jónsson. 2003. Not so Quirky: On Subject Case in Icelandic. New perspectives on case and Case Theory, 127-163.
 • Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson. 2003. Breytingar á frumlagsfalli í íslensku. Íslenskt mál og almenn málfræði 25:7-40.
 • Jóhannes Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson. 2005. Variation in subject case marking in Insular Scandinavian. Nordic Journal of Linguistics 28 (2):223-245.
 • Lidz, Gleitman and Gleitman, 2003. Understanding how input matters: verb learning and the footprint of universal grammar. Cognition 87 (3):151-78.
 • Yang, C. 2016. The Price of Linguistic Productivity. How Children learn to break the Rules of Language. The MIT Press, Cambridge.
 • Woolford, E. 2006. Lexical Case, Inherent Case, and Argument Structure. Linguistic Inquiry 37 (1), 111-130.

 

Flókin færsla

Einar Freyr Sigurðsson og Eiríkur Rögnvaldsson

Setningar á borð við (1a) og (2a) virðast tækar í máli allra sem hafa íslensku að móðurmáli en aðeins sumir málhafar telja setningar eins (1b) og (2b) tækar (og þess vegna merkjum við þær með ‘%’).

(1) a.     Það er flókið að skilja geimvísindi.

%Geimvísindi eru flókin að skilja.

(2) a.     Það var erfitt að dæma þennan leik

%Þessi leikur var erfiður að dæma.

Setningagerðina í (1b) og (2b) köllum við hér flókna færslu og samsvarar hún að mörgu leyti „tough movement“ í ensku sem hefur verið mikið rannsökuð (sbr. The problem is tough to solve). Íslenska heitinu er ætlað að vera lýsandi tvenna vegu. Annars vegar er hægt að nota lýsingarorðið flókinn í setningagerðinni (á sama hátt og hægt er að nota lýsingarorðið tough í „tough movement“). Hins vegar hefur margt verið ritað um hvers konar færsla eigi sér stað í ensku setningagerðinni. Einkum hefur því verið haldið fram að um sé að ræða 1) lyftingu, 2) ósæmilega færslu (e. improper movement) eða 3) greiningu sem feli í sér virkja (e. operator) svipaðan og í tilvísunar­setningum (e. null operator analysis). Við færum fyrir því rök að ekki geti verið um lyftingu að ræða og því þurfi flóknari greiningu. Við teljum að greining 3) eigi best við um íslensku og þar með að um tiltölulega flókna færslu sé að ræða.

Í fyrsta lagi er orðasafnsfall (þágufall, eignarfall) ekki varðveitt í setningagerðinni. Að vissu leyti minna dæmin í (1b) og (2b) á þolmynd þar sem þolfall germyndar (Ég dæmdi leikinn) verður að nefnifalli í þolmynd (Leikurinn var dæmdur). Aftur á móti er orðasafnsfall varðveitt í þolmynd (Þessum staðreyndum var kyngt), ólíkt flókinni færslu, sjá (3):

(3) a.     Það er erfitt að kyngja þessum staðreyndum

%Þessar staðreyndir eru erfiðar að kyngja.

Þetta bendir til að ekki sé um lyftingu að ræða. Þetta virðist ekki heldur vera ósæmi­leg færsla en í slíkri færslu felst að nafnliður sé fyrst kjarnafærður og færist svo í rök­liðarsæti (e. A-to-A’-to-A movement) – slík færsla ætti að viðhalda þágufallinu. Í öðru lagi getur nafnliðurinn í frumlagssæti móðursetningarinnar samsvarað andlagi forsetn­ingar (4a); færsla úr forsetningarlið í frumlagssæti, svo sem í þolmynd (4b), er ótæk í íslensku. Þetta væri aftur á móti mögulegt með ósæmilegri færslu en þó ætti fall að varð­veitast.

(4) a.     %Sigurður er erfiður að tefla við __.

*Sigurður var tefldur við __.

Ýmis fleiri rök verða færð fyrir því að formgerð setningagerðarinnar (flókinnar færslu) sé líkust tilvísunarsetningum. Hér má nefna að fljótandi magnliðir og sagn­fyllingar í undirskipuðu setningunni standa í öðru falli en frumlag aðalsetningarinnar, sjá (5a); endurtekin fornöfn í undirskipuðu setningunni eru möguleg og þau standa í öðru falli en frumlagið, sjá (5b) (sbr. Höskuld Þráinsson 2007:431); og þá er ástæða til að ætla að í undirskipuðu setningunni sé ósagt frumlag en slíkt frumlag ætti að koma í veg fyrir lyftingu (en þó ekki ósæmilega færslu), sjá (5c).

(5) a.     %Sigurður er erfiður að tefla við ófullan.

 1.     %Hinrik var erfiður að búa með honum.
 2.      %Þessi bók er erfið að lesa þreyttur.

Í fyrirlestrinum verða einnig athuguð hvers konar lýsingarorð eru möguleg með flókinni færslu og því haldið fram að frumlagið fái merkingarhlutverk frá lýsingar­orðinu (það skýrir hvers vegna Jón er leiðinlegur að tala við er mun betri en Jón er leiðinlegur að tala um).

 

Andlagsstökk í (vestur-)íslensku

Jóhannes Gísli Jónsson

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um andlagsstökk í vestur-íslensku í samanburði við heimaíslensku og byggt á viðtölum við vestur-íslenska málhafa sem tekin voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Í þessum gögnum má finna ýmis dæmi sem benda til þess að andlagsstökk sé ekki skyldubundið með andlagsfornöfnum. Þetta er mjög algengt með ábendingarfornafninu þetta (Og ég var lítill strákur og ég skildi ekki þetta) en kemur líka fyrir með persónufornafni í hvorugkyni eintölu (sbr. En mér líkaði ekki það).

Þetta er áhugavert í ljósi þess að andlagsstökk í heimaíslensku er skyldubundið ef andlagið er áherslulaust fornafn (sbr. Mér líkaði ðað ekki; *Mér líka ekki ðað), eins og margoft verið bent á, en mögulegt ef fornafnið ber andstæðuáherslu (sbr. Mér líkaði ÞAÐ ekki, Mér líkaði ekki ÞAÐ). En þar sem andlagsfornafnið ber venjulega áherslu í vestur-íslensku dæmunum sem áður voru nefnd er hvorki hægt að bera þau saman við dæmi með áherslulausu fornafni í heimaíslensku né dæmi þar sem fornafnið ber andstæðuáherslu.

Af þessu leiðir að ekki fæst raunverulegur samanburður milli málanna nema setningastaða andlagsfornafna með venjulega áherslu í heimaíslensku sé skoðuð sérstaklega. Þetta hefur þó aldrei verið gert eftir því sem ég best veit enda eru andlagsfornöfn langoftast áherslulaus í heimaíslensku, burtséð frá öllum færslum (sbr. Ég hef aldrei séð ða frekar en Ég hef aldrei séð það).

Í þessum fyrirlestri verður reynt að varpa ljósi á þetta atriði svo hægt sé að meta í hverju munurinn á vestur-íslensku og heimaíslensku raunverulega felst. Í framhaldi af þessu verður hugað að þeirri staðreynd að ábendingarfornafnið þetta hefur mun sterkari tilhneigingu til að færast ekki en persónufornafnið það í vestur-íslensku og hún sett í samhengi við andlagsstökk í öðrum norrænum málum.

 

Samræmi með samtengdum nafnliðum

Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Samtengdir nafnliðir – t.d. friður og frelsi – valda íslenskum málhöfum gjarnan vandræðum í málnotkun, en samræmi með slíkum liðum er á töluverðu reiki. Í þessum fyrirlestri mun ég fjalla um þá samræmiskosti sem eru fyrir hendi með samtengdum nafnliðum í íslensku og dreifingu þeirra út frá merkingu, samræmismarki (e. agreement target) og málfræðilegu kyni.

Yfirleitt er gert ráð fyrir því að tungumál hafi yfir tveimur kostum að ráða í samræmi með samtengdum nafnliðum; útreikningssamræmi (e. resolution) og hlutasamræmi (e. partial agreement) (Corbett, 1991, 2006). Íslenska leyfir báða þessa kosti og valið á milli þeirra virðist stýrast af merkingarþáttunum hlutstæður/óhlutstæður og teljan­legur/óteljanlegur (Jón G. Friðjónsson, 1991). Hlutasamræmi í íslensku hefur verið lýst þannig að kyn- og tölusamræmi sé yfirleitt haft með þeim nafnlið sem stendur næst samræmismarkinu (Jón G. Friðjónsson, 1991). Í íslensku útreikningssamræmi, þ.e. þegar samræmi er haft með báðum nafnliðum, er viðtekið að samræmismarkið komi alltaf fyrir í fleirtölu og kyn þess endurspegli kyn samtengdu nafnliðanna ef þeir eru af sama málfræðilega kyni. Ef kyn nafnliðanna aftur á móti stangast á stýrir samtengdi nafnliðurinn hvorugkynssamræmi (Jón G. Friðjónsson, 1991, Wechsler, 2009, Corbett, 1991).

Rannsóknin sem hér verður kynnt byggir á könnun sem 405 málhafar fylltu út á netinu. Málhafar voru beðnir um að fylla inn samræmismörk samtengdra nafnliða úr fjórum mismunandi merkingarflokkum út frá afmörkunarstigveldinu (e. Individuation Hierarchy) mannfólk > dýr > teljanlegir hlutir > óhlutstæð óteljanleg hugtök. Sambærileg stigveldi hafa reynst vel í rannsóknum á dreifingu hluta- og útreikningssamræmis í fjölda tungumála (sjá t.d. Lorimor, 2007 og umfjöllun í Corbett, 1991, 2006). Gögnum var safnað fyrir tvenns konar samræmismörk; lýsingarorð í stöðu sagnfyllingar og persónufornöfn í frumlagssæti. Samtengdu nafnliðirnir í könnuninni innihéldu jafnframt allar mögulegar samsetningar málfræðilegs kyns.

Eins og við var að búast er útreikningssamræmi, þ.e. samræmi í fleirtölu, algengast með samtengdum nafnliðum sem eru ofarlega á afmörkunarstigveldinu. Athygli vekur þó að hvorugkyn fleirtölu er oft notað í aðstæðum þar sem búist væri við karlkyni eða kvenkyni. Þá eru mjög fá ótvíræð dæmi um samræmi með öðrum nafnliðnum, þ.e. um hlutasamræmi í kyni og tölu. Þess í stað er hvorugkyn nær alltaf notað þegar eintölusamræmi kemur fram, óháð kynjasamsetningu liðanna. Samræmi í eintölu er helst að finna með orðum neðarlega á afmörkunarstigveldinu og kemur oftar fyrir á persónufornöfnum en lýsingarorðum.

Ég mun kynna niðurstöður rannsóknarinnar og sýna hvernig gera má grein fyrir þessari víðtæku notkun hvorugkynsins út frá tvískiptingu Corbett og Fraser (2000) á sjálfgefnum gildum. Þá mun ég bera hvorugkynssamræmið í eintölunni saman við svokallað pönnukökusamræmi í skandinavísku málunum (e. pancake agreement, sjá Enger, 2004, 2013) og velta upp þeirri spurningu hvort hér geti verið um merkingarlegt samræmi að ræða.

Heimildir

 • Corbett, G. G. (1991). Gender. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Corbett, G. G. (2006). Agreement. Cambridge: Cambridge University Press.
 • Corbett, G. G., & Fraser, N. M. (2000). Default genders. Í B. Unterbeck og M. Rissanen (Ritstj.), Gender in Grammar and Cognition (bls. 55–97). Berlin: Mouton de Gruyter.
 • Enger, H.-O. (2004). Scandinavian pancake sentences as semantic agreement. Nordic Journal of Linguistics, 27(1), 5–34.
 • Enger, H.-O. (2013). Scandinavian pancake sentences revisited. Nordic Journal of Linguistics, 36(3), 275–301.
 • Jón G. Friðjónsson. (1991). Beygingarsamræmi með samsettu frumlagi. Íslenskt mál og almenn málfræði, (1), 79–103.
 • Lorimor, H. (2007). Conjunctions and grammatical agreement: When wholes differ from the sum of their parts (doktorsritgerð). University of Illinois.
 • Wechsler, S. (2009). “Elsewhere” in gender resolution. Í K. Hanson & S. Inkelas (Ritstj.), The nature of the word: studies in honor of Paul Kiparsky (bls. 567–586). MIT press.

 

Gleðimenn, gleðimeyjar og Gleðikvennafélag Vallahrepps

Guðrún Þórhallsdóttir

Á síðustu árum hafa orðin gleðimaður ‘fjörugur maður, samkvæmismaður’ og gleði­kona ‘vændiskona’ oft verið tekin sem dæmi um misræmi í merkingu orða um karla og konur. Dæminu er ætlað að sýna að orð, sem búast mætti við að hefðu sambærilega merkingu, hafi það ekki í raun og orðið um konuna hafi þá neikvæðari merkingu en orðið um karlinn. Þetta orðapar hefur bæði komið fyrir í fræðilegum skrifum, kennslu og fjölmiðlaumræðu; m.a. kom ekki á óvart að það væri notað sem sýnishorn í sjónvarpsþættinum Orðbragði.

Hins vegar hefur nokkuð vantað á að staðhæfingar um orðin gleðimaður og gleðikona séu byggðar á traustri þekkingu á sögu þessara orða. Ásta Svavarsdóttir dró þó fram gagnlegan fróðleik um sögu orðsins gleðikona í stuttum pistli sem birtur var í ritinu Konan kemur við sögu (2016:151–153). Þar var sá misskilningur leiðréttur að orðin gleðimaður og gleðikona hafi aldrei haft sambærilega merkingu og sagt frá tengslum orðsins gleðikona við hliðstæð orð í nágrannamálum. Enn er þó ástæða til að kafa dýpra.

Í þessum fyrirlestri verður í fyrsta lagi vakin athygli á fleiri íslenskum orðum um fólk sem eru mynduð með gleði- sem fyrri lið. Hér er um að ræða orð sem eru ekki auð­fundin í orðabókum og ekki áberandi í þjóðfélagsumræðu eða umfjöllun mál­fræð­inga. Nú verður orðum eins og gleðisveinn og gleðipinni, gleðidrós og gleðimær/ gleðimey bætt í safnið og fjallað með dæmum um sögu þessara gleði-orða í heild.

Í öðru lagi verður fjallað um eðli þeirra málbreytinga sem (sum) orðanna hafa orðið fyrir. Meðal annars verður reynt að greiða úr því á hvern hátt fyrirbæri á borð við tökuþýðingu, tökumerkingu og skrauthvörf koma við sögu.

Í þriðja lagi verður saga orðsins gleðikona sett í samhengi við baráttu fyrir málbreytingum af jafnréttisástæðum, þ.e. hvatningu til að endurheimta niðrandi orð (e. reclaiming pejorative expressions) sem birtist ekki síst sterkt í riti Mary Daly, Gyn/ecology (1978). Þess eru nefnilega dæmi að hvatt hafi verið til þess að fyrrnefnt misræmi í merkingu orðanna gleðimaður og gleðikona yrði leiðrétt; heiti félagsskaparins Gleðikvennafélag Vallahrepps er einmitt dæmi um slíka viðleitni. Hún leiðir óneitanlega hugann að málfarsbaráttu erlendis og umfjöllun málfræðinga um hana, en þar hafa verið tekin svipuð dæmi (e. He’s a professional ‘Hann er atvinnumaður’, She’s a professional ‘Hún er vændiskona’, Lakoff 2004:73–74).

Heimildir

 • Ásta Svavarsdóttir. 2014. Baráttan um tungumálið: Gleðikonur, gleðimenn og annað fólk. Í Svanhildur María Gunnarsdóttir og Þórður Ingi Guðjónsson (ritstj.): Konan kemur við sögu, bls. 151–153. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.
 • Daly, Mary. 1978. Gyn/ecology: The Metaethics of Radical Feminism. Boston: Beacon Press.
 • Lakoff, Robin Tolmach. 2004. Language and Woman’s Place: Text and Commentaries. Ed. by Mary Bucholtz. Oxford: Oxford University Press.

 

Eðlissamræmi í íslensku að fornu og nýju

Haukur Þorgeirsson

Í íslensku, eins og mörgum skyldum málum, er að finna togstreitu milli formlegs sam­ræmis og eðlissamræmis (lat. constructio ad sensum). Ein gerð togstreitu kemur upp þegar málfræðilegt kyn nafnorðs stangast á við raunverulegt kyn þeirrar manneskju sem vísað er til. Þá geta orðið til setningar eins og „Talaðu við kennarann og láttu hana vita“ ef ljóst er í samhenginu að kennarinn er kona. Sá misskilningur virðist stundum skjóta upp kollinum að setningar af þessu tagi séu nýmæli í íslensku. Hið rétta er þó að þessi fornafnanotkun hefur alltaf verið eðlileg í málinu og jafnvel eini eðlilegi kosturinn. Eftirfarandi er dæmi úr Guðmundar sögu biskups: „Síðan reið hann vatni á kryplinginn ok blezaði hana.“ Í fornum textum má finna allmörg dæmi af þessu tagi en skýr dæmi um hið gagnstæða eru vandfundin. Að sama skapi er persónufornafnið ‚það‘ ekki notað um fullorðnar vitibornar manneskjur – skáldið er ‚hann‘ en ekki ‚það‘. Hvorugkyns­vísun er notuð í háði.

Önnur gerð togstreitu kemur fram þegar eintöluorð er notað um hóp fólks og getur þá brugðið til beggja vona hvort fornafnanotkun og sagnbeyging í framhaldinu miðast við eintölu eða fleirtölu. Einnig hér er íslenska sjálfri sér lík hvort sem litið er á forna texta eða talmál nútímans. Dæmum eins og „Fólkið óttaðisk mjök ok vissu at hann mundi mikinn skaða gera“ (Ragnarssona saga) bregður víða fyrir.

Í erindinu verða sýnd dæmi um eðlissamræmi í gömlum og nýjum textum, meðal annars í biblíuþýðingum og í kveðskap. Í þýðingum Nýja testamentisins er athyglisvert að sjá hvernig íslenskir þýðendur hafa glímt við eðlissamræmi í hinum gríska frumtexta. Þýðingin frá 1908 er sérstaklega trú frummálinu og þar má finna dæmi um eðlissamræmi sem seinni þýðendur hafa veigrað sér við að leika eftir. Loks má í kveðskap, ekki síst rímnakveðskap, finna mörg orð sem ekki eru málfræðilega kvenkyns notuð um konur (t.d. ‚svanni‘ og ‚fljóð‘) og þar eru því ríkuleg tækifæri til togstreitu milli formlegs samræmis og eðlissamræmis.

Reynt er að draga upp mynd af eðlissamsvörun í íslensku með hliðsjón af samræmisstigveldi Corbetts og fyrri niðurstöðum Guðrúnar Þórhallsdóttur um mótun íslensks málstaðals á 19. öld.

 

Um kyn í ensku og íslensku

Halldór Ármann Sigurðsson

Þetta spjall byggist á þeirri hugmynd að vert sé að greina á milli óhlutstæðs kyns og málfræðilegs yfirborðskyns. Óhlutstætt kyn gegnir hlutverki samvísis (identity index, sbr. Baker 2003) og tileyrir algildamáfræðinni (Universal Grammar) en er einungis merkt í yfirborðsgerð kynjamála, eins og t.d. íslensku. Kynlaus mál (eins og t.d. finnska) hafa samvísa í túlkunargerð en merkja þá ekki (með kyni) í yfirborðsgerðinni.

Kyn hefur löngum verið talið vera orðasafnsþáttur í nafnorðum, en ýmsar nýlegar athuganir á rússnesku og fleiri  málum (Matushanksy 2013, Pesetsky 2013, Landau 2016 o.fl.) benda til að það sé of einföld eða beinlínis röng greining. Og þegar þetta er athugað í íslensku (sjá m.a. Guðrúnu Þórhallsdóttur 2015, Finn Friðriksson 2017, Einar Frey Sigurðsson 2017) verður ekki betur séð en kyn sé þar virkt bæði á n-plani og D-plani, þar sem n er á „lægsta“ plani í nanfliðnum (nP) en D á „efsta“ nafnliðar- eða ákveðniliðarpalninu (DP) [auk þess má færa rök að því að kyn sé líka virkt á setningar­planinu (CP), þótt það verði ekki gert hér]. Það virðist því sem kyn sé í rauninn formgerðarlegur þáttur og að greina verði á milli n-kyns og D-kyns. Þar að auki virðist sem málfræðileg kynmörkun sé einhvers konar „samstarfsverkefni“ setningafræðinnar og pragmatíkurinnar, lúti stundum lögmálum setningafræðinnar en ákvarðist stundum af pragmatík, þekkingu á umheiminum eða væntingum um hann.

Stuðningur við þessar hugmyndir kemur úr allóvæntri átt, nefnilega ensku og öðrum málum (s.s. afrikaans og defaka, sjá Audring 2008) sem hafa kynjuð fornöfn en ekkert nanforðakyn. Mál af þessu tagi sýna að D-kyn getur þrifist án n-kyns. Aftur á móti er ekki vitað um nein tungumál sem hafa n-kyn en ekkert D-kyn. Það er því svo að sjá að n-kyn í tungumálum eins og íslensku sé eins konar „aukageta“, sem fyrst og fremst hafi það hlutverk að styðja við samvísunar- og tengihlutverk D-kyns. – Því má svo skjóta inn hér að fornafnið hán hefur (eða mundi hafa) þá sérstöðu að tjá D-„kyn“ án nokkurra tengsla við n-kyn og svipar að því leyti til fornafna í ensku (en að sjálfsögðu ekki að því er varðar merkingu). Í sænsku á þetta hins vegar ekki bara við um nýja fornafnið hen heldur líka han og hon (öndvert den og det).

Til að varpa ljósi á þetta allt saman verða athuguð ýmis dæmi, þar á meðal eftirarandi dæmi úr ensku og íslensku:

(1)  Clintoni campaigned hard, but shei lost in the end.

(2)  Clintoni campaigned hard, and hei won in the end.

(3)  [The doctor]i was young, but shei/hei seemed competent.

(4)  Look at this! She/He is strong!

(5)  [DP Hans [nP  æruverðuga  hágöfgi]] var afar  vinsamlegur.

 1.            kvk.                                             kk.

(6)  Þá var gott [CP að vera svona sterk].

kvk.et.