22. Rask-ráðstefnan 2008

22. Rask-ráðstefna Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ
Hringstofu Háskólatorgs 26. janúar 2008

 

Dagskrá og útdrættir

09:15-09:45: Bjarki Karlsson, Kristján Árnason og Þórhallur Eyþórsson: Lífsmörk eddukvæða

Í fyrirlestrinum er greint frá rannsóknarverkefni sem við höfum fitjað upp á og felst í bragfræðilegri og setningafræðilegri greiningu texta Konungsbókar eddukvæða. Við höfum fengið véltæka texta frá Stofnun Árna Magnússonar sem markaðir hafa verið í XML eftir Menota-staðli og vinnum áfram með þá og bætum inn bragfræðilegum og setningafræðilegum upplýsingum.

Við byrjum á tveimur kvæðum, Atlakviðu og Þrymskviðu og höfum þróað aðferðir við að greina textann. Þessi greining er að hluta til vélræn, t.d. hvað varðar atkvæðaskipun og flokkun atkvæða eftir þunga, en að hluta til er hún handvirk. Bjarki hefur hannað greiningarviðmót, t.d. til að marka ris og stuðla, sem eru þægileg í vinnu og gera mörkun mun fljótlegri en ef skrifað væri beint í XML. Við munum einnig gera grein fyrir aðferðum sem við erum að þróa við setningagreiningu textans. Við ætlum að kynna markmið og afurðir þessarar greiningar, meðal annars ýmiss konar staðtölulegar upplýsingar (svo sem hvað varðar notkun stuðla, hvaða orð bera stuðla, fjölda þungra og léttra atkvæða, notkun fylliorða (of/um), meðalfjölda atkvæða í línu o.s.frv.

Þessar upplýsingar bjóða upp á afar fróðlegan samanburð milli einstakra kvæða. Ljóst er að stíll og „lífsmörk“ (vital signs) Atlakviðu og Þrymskviðu eru býsna ólík, t.d. hvað varðar atkvæðafjölda í hverri línu og notkun fylliorða.

 

09:45-10:15: Eiríkur Rögnvaldsson: Málfræðileg mörkun forníslensku

Í þessu erindi segir frá tilraunum með að beita málfræðilegum markara á forníslenska texta, en markari er forrit sem greinir texta málfræðilega, markar hann – greinir orðflokk, kyn, tölu, fall, persónu, tíð, hátt o.s.frv. Hér er um að ræða TnT-markarann sem Sigrún Helgadóttir hefur þjálfað fyrir nútímaíslensku. Í tilraunum með nútímatexta hefur markarinn náð allt að 91,5% nákvæmni.

Markarinn hefur nú verið keyrður á allan texta Íslendinga sagna, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámu – alls um 1.650 þúsund orð með nútímastafsetningu. Nú hefur verið farið yfir mörkun um 100 þúsund orða og hún leiðrétt handvirkt. Eins og eðlilegt er reynist nákvæmnin vera talsvert lægri þegar markaranum er beitt á forntexta – frá 86,5–89% eftir textum. Síðan er ætlunin að þjálfa markarann á þessum leiðrétta texta og þá ætti nákvæmnin að aukast eitthvað.

Í erindinu verða einnig tekin nokkur dæmi um það gagn sem málfræðingar geta haft af mörkuninni. Hana er t.d. hægt að nota til að reikna hlutfallslega tíðni málfræðilegra formdeilda og bera saman við tölur úr nútímamáli í Íslenskri orðtíðnibók.

Einnig er hægt að nota mörkunina til að auðvelda leit að ýmsum setningafræðilegum atriðum. Með hjálp hennar má t.d. finna allnokkur dæmi um svonefnda andlagsfærslu (object shift) en efast hefur verið um tilvist hennar í fornmáli þótt hún sé algeng í nútímamáli Að lokum verður fjallað um áformaða birtingu mörkunarinnar á vefnum í Xaira-forritinu.

 

10:15-10:45: Guðrún Kvaran: „…orðasöfnunin er andleg grasatínsla…“ – um orðasöfnun í mæltu máli

Í fyrirlestrinum verður einkum fjallað um orðasöfnun úr mæltu máli á síðari hluta 19. aldar og á fyrri hluta 20. aldar, einkum þeirra Björns M. Ólsens og Þórbergs Þórðarsonar. Einnig verða nefnd dæmi um eldri söfn sem vitað er um. Rætt verður um mikilvægi allra þessara safna fyrir rannsóknir á sögu orðaforðans.

Björn M. Ólsen fékk styrk frá Carlsbergsjóðnum danska til söfnunar orða úr mæltu máli og er afraksturinn varðveittur í 40 vasabókum. Með löngum hléum virðist hann hafa unnið að söfnun sinni frá árunum 1872 og að minnsta kosti fram til 1892. Þórbergur hóf skipulagða söfnun upp úr 1915 og vann að henni fram til 1924 að styrkur, sem hann hafði haft nokkur ár, var felldur niður. Mikilvæg gögn frá söfnunarvinnu Þórbergs eru varðveitt hjá Handritadeild Landsbókasafns-Háskólabókasafns.

Þessi gögn hafa lítið sem ekkert verið skoðuð og ekki hefur verið unnið úr þeim markvisst. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir því sem Þórbergi barst frá aðstoðarmönnum víða um land, einkum í bréfum og sýnt verður fram á mikilvægi þessara gagna fyrir íslenska málsögu og sögu íslensks orðaforða.

 

11:15-11:45: Gunnlaugur Ingólfsson: Rask og Fjölnir

Í handritinu Lbs. 447, 4to eru tvær ritgerðir eftir Sveinbjörn Egilsson, og fjalla báðar um stafsetningu að gefnu tilefni. Hin fyrri nefnist Rask og Fjölnir, en hin síðari Nokkrar athugasemdir, vidvíkjandi íslenzkri stafasetníngu, med tilliti til stafsetníngar-þáttarins í Fjölnir 1836. Ritgerðirnar eru að líkindum samdar árið 1836.

Sveinbjörn Egilsson var algjörlega andvígur stafsetningarnýjungum Fjölnismanna, og eru ritgerðir hans harkaleg gagnrýni á hugmyndir og tillögur þeirra. Sjálfur hallaðist hann að stafsetningu Rasks og er fyrri ritgerðin, Rask og Fjölnir, beinlínis málsvörn fyrir skoðanir Rasks og tillögur í tilteknum stafsetningarefnum.

Í erindinu verður greint frá nokkrum stafsetningartillögum Fjölnismanna og gagnrýni Sveinbjarnar á þær.

 

11:45-12:15: Jón G. Friðjónsson: Tengsl Stjórnar og Guðbrandsbiblíu

Með samanburði á þeim hlutum Biblíunnar sem er að finna í Stjórn og samsvarandi hlutum í Guðbrandsbiblíu má ganga úr skugga um að þær aðferðir sem notaðar eru við þýðingarnar eru í grundvallaratriðum ólíkar enda er framsetning, stíll og orðfæri afar mismunandi í verkunum tveim. Stjórnartextinn mun vera þýddur eftir hinni almennu latnesku þýðingu kaþólskra manna (Híeronymusar-þýðingunni) og samsvarandi texti í Guðbrandsbiblíu eftir sama forlagi auk þýðingar Lúthers (1524).

Þótt verkin tvö séu gjörólík má finna allmörg atriði sem eru þeim sameiginleg. Efni fyrirlestrarins er annars vegar að velta fyrir sér hugtakinu íslensk biblíumálshefð og hins vegar að vega og meta þau atriði sem Stjórn og Guðbrandsbiblíu eru sameiginleg.

 

13:00-13:30: Jóhannes Gísli Jónsson: Þróun fallmörkunar í íslensku og færeysku

Í þessum fyrirlestri verða ræddar helstu niðurstöður úr rannsókn sem styrkt var af Rannsóknaráði Íslands árin 2004–2006. Markmið rannsóknarinnar var að afla ýtarlegra gagna um breytingar sem hafa orðið í fallstjórn sagna í íslensku og færeysku og bera þessi gögn að ákveðnum kenningum um eðli falla og málbreytingar almennt, einkum þó hlutverk barnamáls í málbreytingum.

Í fyrirlestrinum verður rætt um þróun „óreglulegra“ falla í grannmálunum tveimur eins og sjá má af þolfallsfrumlögum og eignarfallsandlögum í íslensku og þágufallsandlögum í færeysku. Færð verða rök fyrir því að merking sagna gegni lykilhlutverki þegar óreguleg föll hverfa úr málinu, m.a. vegna þess að það er auðveldara fyrir börn á máltökuskeiði að læra óreglulega fallstjórn ef hægt er að tengja hana við merkingarlega samstæðan flokk sagna.

 

13:30-14:00: Jón Axel Harðarson: Forsaga og þróun fíentívra n-sagna í gotnesku og norrænu

Fíentívar sagnir eru sagnir sem tákna ástandsbreytingu, sbr. ísl. roðna ‘verða rauður’. Sagnir sem tilheyra þessum merkingarflokki og eru myndaðar með n-viðskeyti voru partur af frumgermönsku sagnkerfi. Þetta á þó aðeins við rótleiddar sagnir, þ.e. sagnir sem leiddar eru af sagnrótum. Dæmi um slíkar sagnir eru ísl. vakna, gotn. ga-waknan, fe. wæcnan. Öðru máli gegnir um n-sagnir sem leiddar eru af lýsingarháttum og lýsingarorðum. Þær eru aðeins til í gotnesku og norrænu, sbr. gotn. and-bundnan ‘losna’ : and-bundans ‘leystur’ (af and-bindan ‘leysa’), fra-lusnan ‘týnast, glatast’ : fra-lusans ‘týndur, glataður’ (af fra-liusan ‘týna, glata’), fullnan ‘verða fullur’ : fulls ‘fullur’, gahailnan ‘verða heill’ : hails ‘heill’; ísl. brotna : brotinn (af brjóta), slitna : slitinn (af slíta), grána : grárharðna harður.

Samanburður við önnur indóevrópsk mál sýnir að hið fíentíva merkingarhlutverk n-viðskeytisins í umræddum sögnum er ekki indóevrópskur arfur. Hér er því um germanska nýjung að ræða. Í fyrirlestrinum verður leitast við að skýra, hvernig hið fíentíva merkingarhlutverk n-viðskeytisins þróaðist, enn fremur, hvernig myndun nafnleiddra fíentívra n-sagna kom til í gotnesku og norrænu.

 

14:00-14:30: Guðrún Þórhallsdóttir: andvaka og einmana í sálarkreppu

Það er eitt einkenna beygingarkerfis germönsku málafjölskyldunnar að hvert lýsingarorð hefur bæði sterka og veika beygingu, en þó eru þekkt frávik frá því. Handbækur um íslenska málfræði að fornu og nýju nefna sérstaklega hóp lýsingarorða sem eru kölluð „óbeygjanleg“ og enda á -a (t.d. andvaka) eða -i (t.d. hugsi). Stundum er upplýst að þarna hafi verið um veika beygingu að ræða, en orð af þessu tagi hafi glatað beygingu sinni, séu orðin óbeygjanleg.

Í þessum fyrirlestri verður reynt að grafast fyrir um uppruna þessa flokks lýsingarorða og ræða sérstaklega hvernig á því getur staðið að tungumál sem vildi beygja alla skapaða hluti — þar sem lýsingarorð höfðu fjögur föll, tvær tölur, þrjú kyn, sterka og veika beygingu og stigbreytingu — skyldi koma sér upp flokki óbeygðra lýsingarorða. Þarna eru nefnilega ekki aðeins einstök forn orð á ferðinni sem hafa lifað fram til nútímamáls í stirðnaðri mynd (eins og segja mætti t.d. um orðin einmanaforviðaörvasa), heldur allstór flokkur sem lifir góðu lífi.

 

15:00-15:30: Katrín Axelsdóttir: Eftir eigin höfði

Lýsingarorðið eigin(n) hefur einstaka beygingu í nútímamáli, allar myndir eru samhljóða, eiginn eða eigin, nema nf./þf.hk.et. sem er eigið. Að fornu beygðist þetta orð hins vegar eins og lýsingarorð og lýsingarhættir sem enda á -inn, s.s. feginn og heiðinn. Þetta er nokkuð óvænt breyting, ekkert annað lýsingarorð hefur orðið fyrir slíkri einföldun á beygingu og í nágrannamálunum er beyging samsvarandi orða fjölskrúðugri.

Í fyrirlestrinum verður fyrst fjallað um notkun og merkingu orðsins; samsvarandi orð í nágrannamálunum verða hér svolítið skoðuð til samanburðar, en þar greina menn orðin stundum sem fornöfn en ekki lýsingarorð. Síðan verður rakið hvenær hin forna beyging tekur að riðlast og hve langan tíma breytingin tók. Í framhaldi af því verður getum leitt að ástæðum breytingarinnar. Þá verður sagt frá tilmælum um endurvakningu hinnar fornu beygingar á 19. öld og áhrifum þeirra. Loks verða sýnd ýmiss konar frávik frá hinni venjulegu beygingu í nútímamáli.

 

15:30-16:00: Margrét Jónsdóttir: Sterkar sagnir standa enn undir nafni eða „Hvernig niðurhel ég?“

Í íslensku telst hópur sterkra sagna fáliðaður. Þeim hefur líka fækkað frá því sem var í elsta máli enda hópurinn ekki frjósamur í málfræðilegum skilningi. Ekkert af þessu á við um veikar sagnar: Þær eru fjölmargar og fer fjölgandi enda verða nýjar sagnir, jafnt nýmyndaðar eins og hanna eða aðlagaðar tökusagnir eins og t.d. bögga og fíla, alltaf veikar (og mynda allar þátíð með –aði). Það sama á raunar líka við um fyrstu stig í máltöku barna. Því telst það nokkuð sérstakt að fram skuli koma mörg dæmi þess að sögnin niðurhala, sem byggð er á grunni gamallar veikrar sagnar, geti beygst sterkt þegar hún fær tökumerkingu. Nokkur óyggjandi dæmi um sterku beyginguna má sjá hér:

  • Ég veit ekki um einn aðila sem niðurhelur ekki ólöglega.
  • Ég niðurhól líka disknum Bloodsport með SP sem ég hef aldrei átt í heild sinni.
  • Má senda inn link á disk svo að hann sé niðurhalinn?
  • Þú getur ekki niðurhalið frá óvirkum ef þú ert óvirkur sjálfur.

Enda þótt niðurhala sé að öllum líkindum eina nýja sterka sögnin er forvitnilegt að skoða hana nánar, einkum þó í samhengi við sterku sagnirnar. Það er tilgangurinn með fyrirlestrinum.

 

16:00-16:30: Sigrún Ammendrup: Flámæli á 19. öld – rannsókn á stafsetningu einkabréfa

Hver er aldur flámælis og hver er útbreiðsla þess í elstu tiltækum heimildum? Markmið þessarar rannsóknar (til BA-prófs) var að varpa örlitlu ljósi á upphaf flámælis eins og hægt er út frá takmörkuðum ritheimildum. Sjónum var beint að sendibréfum frá 19. öld, einkum sendibréfum alþýðufólks en í leit að uppruna flámælis þarf að styðjast við ritaðar heimildir þar sem ekki eru til önnur gögn um mál á 19. öld. Gerðar voru ákveðnar kröfur þegar kom að bréfriturum eins og t.d. að fá bréfritara frá öllu landinu og að bréfritarar væru venjulegt alþýðufólk fremur en menntamenn. Skoðuð voru bréf málhafa frá ýmsum landshornum og þannig voru uppfylltar þær kröfur um að skoða bréf fólks frá öllu landinu.