Ása Bergný Tómasdóttir og Jóhannes Gísli Jónsson

Fallmynstur og frávik í tveggja andlaga sögnum

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá nýlegri rannsókn á breytileika í fallmörkun með tveggja andlaga sögnum í íslensku (sjá Ásu Bergnýju Tómasdóttur 2021). Í þessari rannsókn var stuðst við leitir í Risamálheildinni að 13 tveggja andlaga sögnum sem tilheyra ólíkum fallmynstrum (sjá töfluna hér fyrir neðan). Auk þess var dómapróf lagt fyrir á netinu með rúmlega 700 þátttakendum á ýmsum aldri en þar voru þátttakendur beðnir um að meta dæmi með 10 af þeim 13 sögnum sem leitað var að í Risamálheildinni, þ.e. tveimur sögnum í hverjum flokki.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á breytileika í fallmörkun frumlaga og beinna andlaga í íslensku en tveggja andlaga sagnir hafa hingað til lítið sem ekkert verið kannaðar. Þessar rannsóknir sýna að breytileikinn kemur einkum fram þegar annað fallið er gamalt í málinu en hitt er talsvert yngra og eldra fallið er að einhverju leyti óreglulegt í samanburði við yngra fallið. Þar sem reglulegasta (og líka algengasta) fallmynstur tveggja andlaga sagna er þágufall-þolfall, má helst búast við þeim frávikum í tveggja andlaga sögnum sem sýnd eru í eftirfarandi töflu:

 

Hefðbundið

fallmynstur

Dæmi Líkleg frávik frá viðurkenndu fallmynstri
Óbeint andlag Beint andlag Bæði andlög
ÞGF-ÞF borga, lána
ÞGF-ÞGF lofa, skila, úthluta ÞGF-ÞF
ÞGF-EF afla, óska, synja, unna ÞGF-ÞF
ÞF-ÞGF leyna, svipta ÞGF-ÞGF ÞF-ÞF ÞGF-ÞF
ÞF-EF krefja, spyrja ÞGF-EF ÞF-ÞF ÞGF-ÞF

Leitin í Risamálheildinni sýnir að frávik frá viðurkenndu fallmynstri eru fremur fátíð en þau algengustu eru einmitt af þeirri gerð sem búist var við, þ.e. reglulegt fall sett í stað falls sem er á einhvern hátt óreglulegt. Til dæmis kom fallmynstrið ÞGF-ÞF fyrir í 16,3% dæma með úthluta og 15,3% dæma með skila; ÞGF-ÞF kom fram í 18,1% dæma með óska og ÞGF-ÞGF kom fram í 19,2% dæma með leyna, sbr. eftirfarandi dæmi:

(1a)      …hvort sveitarfélög eigi að úthluta trúfélögum lóðir endurgjaldslaust

(1b)     …gæti skilað ríkissjóði marga milljarða árlega

(1c)      …að hafa ekki óskað honum gott kvöld

(1d)     …að Ásmundur Einar hafi einfaldlega leynt ríkisstjórninni upplýsingum leyna

Niðurstöður dómaprófsins voru mjög á sömu lund en þau frávik sem flestir samþykktu voru eftirfarandi: úthluta (ÞGF-ÞF) = 36,1%, leyna (ÞGF-ÞGF) = 31,8%, svipta (ÞGF-ÞGF) = 17,7%, óska (ÞGF-ÞF) = 9,7% og spyrja (ÞF-ÞF) = 9,0%. Af þessu má líka sjá að tveggja andlaga sagnir sem tilheyra sama flokki geta verið ólíkar, sbr. það að leyna er greinilega algengari með óbeinu þágufallsandlagi en svipta. Þetta kemur þó ekki á óvart miðað við fyrri rannsóknir á breytileika í fallmörkun í íslensku.

Heimildir

Ása Bergný Tómasdóttir. (2021). Hann leyndi henni sannleikanum: Tilbrigði í fallmörkun tveggja andlaga sagna [BA-ritgerð]. Skemman. http://hdl.handle.net/1946/38226