Jóhannes Gísli Jónsson

Hömlur á umröðun andlaga

Í íslensku eru ýmsar sagnir sem taka með sér tvö andlög. Röð andlaganna er oftast sú að óbeina andlagið kemur á undan því beina, sbr. (1a). Umröðun andlaga er þó möguleg, þ.e. að beina andlagið komi á undan því óbeina, eins og í (1b). Umröðun er þó enn eðlilegri í þolmynd en germynd, sbr. dæmin í (2a-b):

(1a)     Ég gaf Hjálmari bókina
(1b)     ?Ég gaf bókina Hjálmari (umröðun)

(2a)     Hjálmari var gefin bókin
(2b)     Bókin var gefin Hjálmari (umröðun)

Zaenen, Maling & Thráinsson (1985) segja að umröðun komi aðeins fyrir með gefa-sögnum, sögnum þar sem óbeina andlagið er í þágufalli og beina andlagið er í þolfalli en þetta er langstærsti flokkur tveggja andlaga sagna í íslensku (sjá Jóhannes Gísla Jónsson 2000). Auk þess eru miklar hömlur á umröðun í germynd ef beina andlagið er óákveðið (sjá Kjartan Ottósson 1991).

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um nýlega könnun á umröðun andlaga í íslensku eins og hún birtist í Risamálheildinni (sjá einnig Bolla Magnússon 2019). Í þessari könnun var leitað að umröðunardæmum um tæplega 90 gefa-sagnir í allri Risamálheildinni. Niðurstöðurnar sýna að a.m.k. þrír þættir hafa áhrif á tíðni umröðunar, þ.e. sagnmynd, sögnin sjálf og hljóðkerfisleg þyngd andlaganna:

(3a)     Umröðun er sjaldgæf í germynd en mun algengari í þolmynd.
(3b)     Umröðun er misalgeng eftir sögnum, bæði í germynd og þolmynd.
(3c)     Í umröðun í germynd er beina andlagið léttara en óbeina andlagið í yfir 90% tilvika.

Af því sem segir í (3c) leiðir að umröðunardæmi í germynd eru oft þannig að beina andlagið er (áherslulaust) fornafn en óbeina andlagið er fullur nafnliður (sbr. að gera bátinn kláran til að afhenda hann indverska flotanum). Dæmi eins og (1b), þar sem bæði andlögin eru jafnþung, eru því mjög sjaldgæf.

Þau þyngdaráhrif sem hér var lýst eru óháð sögnum. Hins vegar er mikill munur á tíðni umröðunar eftir sögnum. Hlutfall umröðunar af heildarfjölda dæma með tveimur andlögum í germynd er t.d. 22,5% með tilkynna, 12,9% með framselja og 9,4% með afhenda en innan við 1% með færa og gefa. Í þolmynd er hlutfallið 63,9% með afhenda, 54,9% með tilkynna og 12,2% með gefa svo dæmi sé tekið. Í fyrirlestrinum verður ræddar hugsanlegar ástæður þess að umröðun er misalgeng eftir sögnum og í því sambandi verður einkum horft til óbeina andlagsins og ólíks hlutverks þess með einstökum sögnum.

Heimildir

  • Bolli Magnússon. 2019. Ég gaf ambáttina konunginum. Umröðun tveggja andlaga í íslensku. BA-ritgerð í almennum málvísindum, Háskóla Íslands.
  • Jóhannes Gísli Jónsson. 2000. Case and double objects in Icelandic. Leeds Working Papers in Linguistics 8:71–94.
  • Kjartan Ottósson. 1991. Icelandic double objects as small clauses. Working Papers in Scandinavian Syntax 48:77–97.
  • Zaenen, Annie, Joan Maling & Höskuldur Thráinsson. 1985. Case and grammatical functions: the Icelandic passive. Natural Language & Linguistic Theory 3:441–483.