Iris Edda Nowenstein

Hvað er svona merkilegt við fall?

Íslenska fallmörkunarkerfið hefur um áratugaskeið reynst mikilvægur prófsteinn á formlegar kenningar um fall, m.a. vegna þess að íslenska hefur þann sjaldgæfa eiginleika að merkja hlutverk rökliða bæði með nokkuð fastri orðaröð og ríkulegri fallbeygingu (Kiparsky 1997, Fedzechkina o.fl. 2017). Þar að auki telst íslenska þágufallið bæði óvenju algengt og virkt miðað við það sem þekkist í skyldum málum og birtist þessi virkni bæði í frumlags- og andlagsfalli (sjá t.d. Maling 2002). Viðurkennt er að virkni þágufallsins fer að einhverju leyti eftir merkingarlegum þáttum þar sem þágufall birtist oftar með skynjendum, þiggjendum og þemum hreyfisagna (sjá t.d. Jóhannes Gísla Jónsson 2003 og Jóhönnu Barðdal 2008) en á sama tíma er umdeilt að hversu miklu leyti fall felur í sér merkingu. Bent er á að þrátt fyrir ýmis mynstur í dreifingu falls og merkingarhlutverka (t.a.m. eru gerendur alltaf í nefnifalli, þolendur iðulega í þolfalli og óbein andlög (viðtakendur) í þágufalli) sé samband falls og merkingar ekki áreiðanlegt og ýmsar undantekningar á mynstrunum til staðar (sjá t.d. Maling 2002, Höskuld Þráinsson 2007, Halldór Ármann Sigurðsson 2012 og Wood 2015). Þannig togast í raun á andstæð sjónarmið í fræðunum: Gert er ráð fyrir því að virkni falls fari eftir merkingarlegum þáttum en um leið er tengslum falls og merkingar hafnað á grundvelli óáreiðanleika og undantekninga. En þurfa mynstur (málfræðireglur) að vera algild til að teljast raunveruleg?

Í erindinu eru færð rök fyrir því að út frá sjónarhóli máltökunnar, sem hefur skort í umræðu um íslenskt fall, þurfi reglur ekki að vera algildar til þess að verða til í málkerfi barna og þ.a.l. fullorðinna. Ef börn uppgötva mynstur í dreifingu falls og merkingar í málumhverfi sínu tileinka þau sér þau mynstur svo lengi sem undantekningar fara ekki yfir ákveðin þolmörk eða virkniþröskuld (Yang 2016). Byggt er annars vegar á tilraunagögnum frá 148 börnum á aldrinum tveggja til þrettán ára, sem safnað var að mestu innan öndvegisverkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ (verkefnisstjórar: Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson), og hins vegar greiningum á algengustu sögnum í barnamálsgögnum sem að mestu var safnað af Jóhönnu T. Einarsdóttur og Sigríði Sigurjónsdóttur. Niðurstöður sýna á heildina litið að börn tengja þágufall frekar við skynjendur, þiggjendur og hreyfiþemu en við önnur merkingarhlutverk þrátt fyrir undantekningar. Tenging þágufalls við skynjendur og þiggjendur kemur auk þess fram fyrr en tengingin við hreyfiþemu. Niðurstöður greininga á barnamálsgögnunum sýna síðan að börn geta áttað sig á þessum tengslum forms og merkingar út frá vísbendingum í málumhverfinu. Þetta er rætt í samhengi við áðurnefnda fræðilega umræðu um merkingu falls og færð rök fyrir því að í formlegum kenningum um fall þurfi frekar að taka mið af því hvernig fallmörkunarkerfið byggist upp í máltöku en að einblína á stöku undantekningar við þekktum mynstrum.

Heimildir
Fedzechkina, M., Newport, E.L., og Jaeger, T.F. 2017. Balancing Effort and Information Transmission During Language Acquisition: Evidence From Word Order and Case Marking. Cognitive Science, 41(2), 416–446. doi:10.1111/cogs.12346

Halldór Ármann Sigurðsson. 2012. Case variation: Viruses and star wars. Nordic Journal of Linguistics, 35(3), 313–342. doi:10.1017/S033258651300005X

Höskuldur Þráinsson. 2007. The Syntax of Icelandic. Cambridge University Press. doi:10.1017/CBO9780511619441

Jóhanna Barðdal. 2008. Productivity: Evidence from Case and Argument Structure in Icelandic. Constructional Approaches to Language, 8. John Benjamins. doi:10.1075/cal.8

Jóhannes Gísli Jónsson. 2003. Not so quirky: On subject case in Icelandic. Í E. Brandner & H. Zinsmeister (ritstj.), New perspectives on Case Theory, bls. 127–163. CSLI.

Kiparsky, P. 1997. The rise of positional licensing. Í A. van Kemenade & N. Vincent (ritstj.), Parameters of Morphosyntactic Change, bls. 460–494. Cambridge University Press.

Maling, J. 2002. Það rignir þágufalli á Íslandi: Verbs with dative objects in Icelandic. Íslenskt mál og almenn málfræði, 24, 31–106. doi:10.1016/S0024-3841(00)00039-5

Wood, J. 2015. Icelandic Morphosyntax and Argument Structure. Springer. doi:10.1007/978-3-319-09138-9

Yang, C. 2016. The Price of Productivity. The MIT Press.