24. Rask-ráðstefnan 2010

Rask-ráðstefna Íslenska málfræðifélagsins og Málvísindastofnunar HÍ
Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands 30. janúar 2010

 

Dagskrá og útdrættir

 

09:15-09:45: Kristín Bjarnadóttir: Algilt -i eða hverfult? Um þágufall eintölu í sterkum hvorugkynsnafnorðum

Í málfræðibókum er því jafnan haldið fram að þágufallsendingin -i sé algild í sterkri beygingu hvorugkynsnafnorða. Einu undantekningarnar frá þessari reglu í Islandsk grammatik (Valtýr Guðmundsson 1922) eru orðin tréhnéhlé og fé en að öðru leyti á þágufallið að vera algerlega fyrirsegjanlegt í hvorugkyni.

Við vinnu við Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) hefur komið í ljós að raunin er önnur. Reglan gildir um einkvæð hvorugkynsorð en í tvíkvæðum orðum þarf að athuga stofngerð orðanna og jafnvel merkingarsvið. Í tvíkvæðum tökuorðum virðist þágufalls-i vera hverfult; það er stundum notað og stundum ekki. Kryddað er með engifer en tæplega með ?engiferi og með saffran eða saffrani frá Íran en ekki *Írani. Í fyrirlestrinum er gerð grein fyrir skiptingu tvíkvæðra sterkra hvorugkynsnafnorða í BÍN í beygingarflokka.

 09:45-10:15: Sigríður Dagný Þorvaldsdóttir og María Anna Garðarsdóttir: Stigveldi máltileinkunar

Manfred Pienemann (1998) tilheyrir þeim hópi fræðimanna sem lítur á máltileinkun sem stigvaxandi ferli þar sem sjá megi algild tileinkunarstig, óháð móðurmáli málnema. Í úrvinnslukenningu Pienemanns er gert ráð fyrir stigvaxandi ferli sálfræðilegrar úrvinnslu sem stjórnar úrvinnslu málfræðinnar á þann hátt að málfræðilegt upplýsingaflæði takmarkast af þeim sálfræðilegu aðgerðum sem málneminn ræður við hverju sinni. Úrvinnslukenningin er byggð á rannsóknum á þýsku millimáli en síðar hafa rannsóknir á fleiri málum stutt og útvíkkað kenninguna. Í þessum fyrirlestri verða tiltekin málfræðiatriði í íslensku mátuð við úrvinnslustigin í kenningunni.

  • Pienemann, M. 1998. Language Processing and Second Language Development: Processability Theory. John Benjamins, Amsterdam.

10:15-10:45: Hrafnhildur Ragnarsdóttir: Virkjaður orðaforði í textum 11, 14, 17 ára og fullorðinna. Samanburður á tal- og ritmáli

Rannsóknin fjallar um greiningu og samanburð á þeim orðaforða sem höfundar úr fjórum aldursflokkum (11, 14, 17 ára og fullorðnir) virkjuðu við gerð tvenns konar texta (frásagna og álitsgerða) og í tveimur miðlum (ritmáli og talmáli). Megindlegum aðferðum var beitt til að kanna áhrif þriggja frumbreytna aldurskyns og miðils á nokkrar vísbendingar um auðlegð orðaforðans (fjölbreytileika o.fl.) og merkingarþéttleika textanna (m.a. hlutfall inntaksorða af öllum orðum). Niðurstöður staðfesta tölfræðilega marktæk áhrif aldurs og miðils á orðaforða og textaþéttleika. Fyrri greiningar á sömu textum leiddu í ljós miklar framfarir í textagerð á þessu aldursbili (sjá Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2007) og þessi rannsókn staðfestir að allar mælingar á orðaforðanum sem virkjaður er hækka marktækt með aldri höfunda af báðum kynjum. Þá virkjuðu höfundar á öllum aldri blæbrigðaríkari og fjölbreytilegri orðaforða í ritmáli en í talmáli, og ritaðir textar þeirra voru merkingarlega þéttari en í mæltu máli. Munurinn á auðlegð orðaforða í ritmáli og talmáli fór vaxandi með aldri.

  • Hrafnhildur Ragnarsdóttir. 2007. Þróun frásagna og álitsgerða frá miðbernsku til fullorðinsára: Lengd texta og tengingar setninga. Uppeldi og menntun 16(2):139-159.

11:00-11:30: Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir: Markað og merkingargreint. Stöðlun og breytileiki orðasambanda í Íslensku orðaneti

Merkingarbær orðasambönd hafa löngum haft veika og óskýra stöðu sem orðabókareiningar í samanburði við stök orð. Form þeirra og framsetning er gjarna á reiki og ekki er hægt að ganga að þeim á vísum stað í orðabókartextanum. Í Íslensku orðaneti er farið með slík sambönd sem fullgildar einingar (flettur) sem kallast á innbyrðis og við stök orð í margvíslegum venslum, jafnt formlega sem merkingarlega. Framsetning orðasambandanna er með föstu sniði og flettustrengirnir eru jafnframt markaðir málfræðilega. Þannig má flokka samböndin eftir málfræðilegum einkennum, á sambærilegan hátt og stök orð eru flokkuð eftir orðflokkum (raunar mun nánar). Með þessu móti verða einkum sagnir og sagnasambönd gildari og fyrirferðarmeiri en venja er til. Auk þess að hafa sjálfstætt gildi greiðir mörkun flettustrengjanna mjög fyrir merkingarflokkun orðasambanda í orðanetinu.

 

11:30-12:00: Jóhannes Gísli Jónsson: Afturbeygðar sagnir í íslensku

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um sagnir í íslensku sem taka með sér einfalt afturbeygt fornafn sem andlag, hvort sem afturbeygða fornafnið er skyldubundið (sbr. barma sérspreyta sig) eða ekki (sbr. raka sig/e-nfórna sér/e-u). Athyglinni verður einkum beint að tveimur atriðum, þ.e. (i) hvernig þessar sagnir skiptast í merkingarflokka, og (ii) hvað ræður fallmörkun andlagsins. Fyrra atriðið verður sett í samhengi við merkingarflokka afturbeygðra sagna í öðrum málum og það síðara í samhengi við almenna fallmörkun andlaga í íslensku.

 

12:00-12:30: Einar Freyr Sigurðsson, Hlíf Árnadóttir og Þórhallur Eyþórsson: „Það var fengið sér (annan) öllara.“ Undirförull undanfari

Í íslensku koma afturbeygð fornöfn fyrir í setningagerð sem hefur beygingar- og setningafræðileg einkenni þolmyndar. Það hefur ekki verið talið eiga við um önnur germönsk mál þótt raunar örli á þessu fyrirbæri í þeim líka þegar grannt er skoðað. Þessi setningagerð er fræðilega áhugaverð vegna þess að afturbeygða fornafnið virðist ekki hafa neinn setningarlegan undanfara sem það vísar til. Í þessum fyrirlestri hyggjumst við lýsa helstu einkennum setninga af þessu tagi í íslensku á grundvelli gagna sem m.a. var aflað við vinnu í öndvegisverkefninu Tilbrigði í setningagerð 2005-07. Við munum einkum fjalla um setningar með tveggja andlaga sögnum á borð við Það var fengið sér öllara. Í þessari setningagerð er óbeina andlagið afturbeygt fornafn en beina andlagið er í þolfalli og því minnir hún á nýju þolmyndina svokölluðu.

 

13:15-13:45: Baldur Sigurðsson: Háttatal íslenskra sagna

Á fyrri hluta 20. aldar þróuðust íslensk málfræðihugtök og festust í sessi samfara aukinni útgáfu skólabóka. Hugtakið háttur (modus) virðist hafa tekið alveg sérstaka og séríslenska stefnu, fyrst með hugtakinu lýsingarháttur (participium, 1918), og síðan með  hugtakinu fallháttur (1939). Um svipað leyti hverfur sagnbót (supinum) úr beygingarlýsingum sagna. Hvergi verður fundið í erlendum heimildum að hugtakið modus (háttur) sé tengt við
participium (lýsingarhátt) eða supinum (sagnbót).

Í íslenskum málfræðibókum síðari ára, þar sem reynt er að gefa heildarmynd af beygingu sagna, lenda höfundar iðulega í vandræðum þegar kemur að því að útskýra fyrirbærið hátt, og skortur á sérstöku hugtaki fyrir sagnbótina leiðir til að skýringar á beygingu og beygingarleysi lýsingarháttar verða flóknar og vandræðalegar. Í erindinu verður rökstutt að háttarhugtakið í íslenskum mállýsingum verði endurskoðað og að sagnbót verði aftur tekin upp sem sérstakt hugtak í almennri lýsingu á beygingu sagna.

 

13:45-14:15: Jón Axel Harðarson: Um atkvæðaskipun í forníslenzku og breytingar á henni

Fræðimenn hafa löngum talið að atkvæðaskipun hafi verið með öðru móti í forníslenzku en öðrum germönskum málum. Hafa þeir einkum byggt þá ætlun sína á innrími í fornum kveðskap. Í nýlegri forníslenzkri málfræði er gert ráð fyrir að þetta sé hin almenna skoðun. Í fyrirlestrinum verður leitazt við að sýna fram á að þessi skoðun sé á misskilningi byggð. Þá verður vikið að ákveðnum breytingum sem hafa orðið á atkvæðaskipun í íslenzku og þær útskýrðar.

 

14:15-14:45: Haukur Þorgeirsson: Hvenær lauk hljóðdvalarbreytingunni?

Hljóðdvalarbreytingin er umfangsmesta breyting sem orðið hefur á íslensku hljóðkerfi. Venjulega er henni lýst þannig að lengd sérhljóða hafi breyst úr því að vera eðlisbundin í að vera stöðubundin. Meginheimild okkar um hljóðdvalarbreytinguna í íslensku er kveðskapur en bragreglur gerðu greinarmun á fornum stuttum og löngum sérhljóðum. Í þessum fyrirlestri verður reynt að komast að því hversu lengi eimt hafi eftir af gamalli hljóðdvöl í rímnakveðskap. Einkum verður reynt að varpa ljósi á hugsanleg millistig milli fornra og nýrra reglna um sérhljóðalengd.

 

14:45-15:15: Ragnar Ingi Aðalsteinsson: Sníkjuhljóð breytir bragnum

Þegar skoðaður er íslenskur kveðskapur sem ortur er fyrir 1400, hvort sem er dróttkvæði eða eddukvæði, má sjá mörg dæmi um s-stuðlun (þ.e. þegar slsn og sm (sjá hér á eftir um sm sérstaklega) stuðla við sjsv og s+sérhljóð). Eftir 1400 hverfur þessi stuðlunarvenja með öllu. S-stuðlun var tekin upp aftur á 17. öld og hana má sjá í kveðskap nokkurra skálda allt fram í byrjun 20. aldar en þá virðist hún hverfa með öllu.

Framstöðuklasinn sm hefur hér nokkra sérstöðu. Þegar nánar er að gáð virðist sm aldrei hafa stuðlað við sl, sn, sj, sv og s+sérhljóð heldur er útlit fyrir að sm hafi verið gnýstuðull líkt og klasarnir sksp og st, sem eins og vitað er hafa alla tíð stuðlað aðeins innbyrðis.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem hér liggur til grundvallar (RIA 2010) virðist sníkjuhljóðið [t] sem skaust inn á milli s og l annars vegar og s og n hins vegar hafa komið inn á 14. öld, eða seint á 13. öld. Sníkjuhljóðið [p] sem birtist milli s og mí framstöðu virðist hafa komið fram allnokkru fyrr, þótt erfitt sé að tímasetja hljóðbreytingar nákvæmlega eftir kveðskap. Einnig er hægt að hugsa sér aðra skýringu á því að sm stuðlar ekki við slsnsjsv og s+sérhljóða. Að því verður vikið í kynningunni ef tími vinnst til.

 

15:30-16:00: Margrét Jónsdóttir: Kökkur – kekkur

Í Íslenskri orðabók eru orðin kökkur og kekkur. Aðalmerking orðsins kökkur er ‘moli, köggull, kekkur’. Eignarfallið er kakkar, fleirtalan kekkir. Dæmi sýnir að þágufall fleirtölu er kökkum.

Aðalmerking orðsins kekkur er ‘kökkur, hnaus, klumpur’. Eignarfallið er kekkjar eða kekks, fleirtalan kekkir. Á önnur föll er ekki minnst. Í BÍN er orðið kökkur í þágufalli eintölu kekki eða kökk og þágufall fleirtölu er kökkum. Á hinn bóginn er kekkur í þágufalli eintölu, kekk. Þágufall fleirtölu er kekkjum.

Um kekkur segir Ásgeir Blöndal Magnússon (1989: 453) að það sé víxlmynd frá 17. öld við orðið kökkur. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að tilurð yngri myndarinnar og samspili hennar við þá eldri. Báðar myndirnar verða skoðaðar í samtímalegu ljósi og tilraun gerð til að spá fyrir um væntanlega þróun. Jafnframt verður bent á hliðstæður.
16:00-16:30: Katrín Axelsdóttir: Þættir af einkennilegum orðmyndum

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að nokkrum orðmyndum, bæði fornum og nýjum, í beygingu þriggja óákveðinna fornafna, fornafnanna hvorgi (hvorugur), hvergi og engi(nn). Allar geta þessar myndir talist einkennilegar með einum eða öðrum hætti. Sumar eru einkennilegar ef miðað er við aðrar myndir í beygingunni eða ef litið er til beygingar lýsingarorða — þær eru öðruvísi en búast hefði mátt við. Aðrar hafa orðið einkennilega langlífar og útbreiðsla einna eða tveggja orðmynda virðist hafa verið einkennilega hröð. Þá er landfræðileg dreifing sumra myndanna einkennileg.

 

16:30-17:00: Jón G. Friðjónsson: Fleiryrtar forsetningar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um tengsl staðaratviksorða (t.d. upp–uppi–ofan) við forsetningar og aðra setningarliði. Erindið verður með sögulegu ívafi og verður leitast við að sýna að þau mynda ýmist eina heild með forsetningum eða kveða á um aðra liði. Þessi munur er merkingargreinandi og á sér stoð í ólíkri setningagerð.