Jóhannes Gísli Jónsson

Umröðun andlaga

Fræðileg umfjöllun um tveggja andlaga sagnir í íslensku hefur einkum beinst að orðaröð, fallmörkun og málfræðihlutverkum (sjá Zaenen, Maling & Thráinsson 1985, Kjartan Ottósson 1991, Collins & Thráinsson 1996 og Jóhannes Gísla Jónsson 2000, Dehé 2004 og Ussery 2017a,b). Um orðaröð í germynd gildir sú meginregla að óbeina andlagið kemur á undan beina andlaginu, sbr. (1a) en umröðun andlaganna er þó ekki útilokuð, sbr. (1b):

(1a)     Ég gaf Sigríði bókina

(1b)     ?Ég gaf bókina Sigríði

Í þolmynd er algengast að óbeina andlagið færist með nafnliðarfærslu í frumlagssætið og komi þar með á undan beina andlaginu, sbr. (2a), en beina andlagið getur þó líka færst með nafnliðarfærslu eins og í (2b):

(2a)     Sigríði var gefin bókin

(2b)     Bókin var gefin Sigríði

Umröðun andlaga er talin vera bundin við gefa-sagnir, þ.e. sagnir sem taka óbeint andlag í þágufalli og beint andlag í þolfalli. Auk þess lýtur umröðun margvíslegum öðrum hömlum í germynd (Kjartan Ottósson 1991) og er þar að auki sjaldgæf (Dehé 2004). Það sem fræðimenn hafa sagt um umröðun andlaga í íslensku er þó byggt á mjög takmörkuðum gögnum enda hefur þetta fyrirbæri aldrei verið ýtarlega rannsakað.

Í þessum fyrirlestri verður sagt frá nýlegri könnun á umröðun andlaga í germynd í nýju risamálheildinni (sjá http://malheildir.arnastofnun.is) en hún leiðir í ljós að umröðun kemur helst fyrir þegar beina andlagið er hljóðkerfislega léttara en óbeina andlagið, einkum þó ef beina andlagið er áherslulaust fornafn (sbr. Hann gaf það Akureyrarbæ). Dæmi með tveimur jafnþungum andlögum, eins og (1b) hér að ofan, eru  hins vegar mjög sjaldgæf. Í fyrirlestrinum verður einnig rætt um hugsanleg áhrif annarra málfræðilegra þátta á umröðun andlaga í íslensku, t.d. fallmörkunar, merkingar og upplýsingastöðu (information structure) andlaganna. Einnig verður vikið að nýlegum hugmyndum Ussery (2017b) um þá formgerð sem tengist umröðun andlaga í íslensku og byggist á því að beina andlagið sé grunnmyndað á undan óbeina andlaginu.

Heimildir

  • Collins, Chris & Höskuldur Thráinsson. 1996. VP-Internal structure and object shift in Icelandic. Linguistic Inquiry 27:391–444.
  • Dehé, Nicole. 2004. On the order of objects in Icelandic double object constructions. UCL Working Papers in Linguistics 16:85–108.
  • Jóhannes Gísli Jónsson. 2000. Case and double objects in Icelandic. Leeds Working Papers in Linguistics 8:71–94.
  • Kjartan Ottósson. 1991. Icelandic double objects as small clauses. Working Papers in Scandinavian Syntax 48:77–97.
  • Ussery, Cherlon. 2017a. Double objects again. . . but in Icelandic. A schrift to fest Kyle Johnson, ritstj.: Nicholas LaCara, Keir Moulton & Anne-Michelle Tessier, bls. 375-388. Linguistics Open Access Publications.
  • Ussery, Cherlon. 2017b. Inversion as Rightward-Dative Shift in Icelandic ditransitives. Fyrirlestur á 48th Annual Meeting of the NorthEast Linguistic Society, Háskóla Íslands, 27.-29. október.
  • Zaenen, Annie, Joan Maling & Höskuldur Thráinsson. 1985. Case and grammatical functions: the Icelandic passive. Natural Language & Linguistic Theory 3:441–483.