Rósa Signý Gísladóttir

Samskiptabylting í almennum málvísindum?

Hugræna byltingin sem hófst á sjötta áratug síðustu aldar olli straumhvörfum í málvísindum og skyldum greinum með því að varpa nýju ljósi á starfsemi mannshugans og gerð tungumála. Málvísindamaðurinn Nick Enfield heldur því fram að nú sé hafin ný bylting í rannsóknum á tungumálagetu mannsins – bylting sem setur notkun málsins í samskiptum í forgrunn (Enfield, 2017). Líkt og hugræna byltingin hófust þessi nýju fræði í þverfræðilegum rannsóknum innan málvísinda og sálfræði, en drifkrafturinn er samtalsgreining (conversation analysis) sem á rætur að rekja til félagsfræði. Í erindi mínu mun ég fjalla um nokkur viðfangsefni samskiptarannsókna og framlag þeirra til almennra málvísinda.

Rannsóknir innan samtalsgreiningar – og síðar samskiptamálfræði – hafa sýnt að samtöl eru langt frá því að vera óreiðukennd og sundurlaus, eins og oft er talið, og sjá má kerfisbundna eiginleika meðal annars í lotuskiptum (hvenær næsti þátttakandi hefur máls), röðun segða í runur, notkun orðræðuagna („hikorða“) og þagna (sjá t.d. Sacks, Schegloff, & Jefferson, 1974). Þá hafa nýlegar megindlegar rannsóknir sýnt fram á mikla tímapressu í samskiptum (Kendrick & Torreira, 2015; Stivers o.fl., 2009), sem benda til þess að hlustendur verði að spá fyrir um talgjörð viðmælandans og hefja undirbúning svars áður en viðmælandinn lýkur máli sínu (Rósa Gísladóttir, Chwilla, & Levinson, 2015; Levinson, 2016; Levinson & Torreira, 2015). En hafa þessir eiginleikar samskipta og lotuskiptakerfisins eitthvað að gera með „tungumálið sjálft“ og tungumálagetu mannsins?

Málvísindamenn sem aðhyllast hina nýju samskiptastefnu benda á að samtöl eru náttúruleg heimkynni tungumálsins, vettvangur máltöku og málbreytinga (Enfield, 2017; Levinson, 2016; Roberts & Levinson, 2017). Því má ætla að tímapressan og aðrir eiginleikar lotuskiptakerfisins hafi ýmis áhrif á tungumálið. Vísbendingar um þetta má m.a sjá í setningafræði, t.d. orðaröð (Roberts & Levinson, 2017), og í orðaforða sem hefur samskiptalegu hlutverki að gegna (Enfield o.fl., 2013; San Roque, Kendrick, Norcliffe, & Majid, 2018). Einnig má sjá ýmis áhrif lotuskipta á hljóðfræði í samtölum (Walker, 2013). Niðurstöður samskiptarannsókna hafa jafnframt opnað nýjar gáttir í sálfræði tungumáls og kenningum um þróun þess. Bent er á að engin dýr ráði við svo hröð og skilvirk lotuskipti (Enfield, 2017). Notkun tungumálsins í samskiptum felur í sér flókna og einstaka mannlega getu sem gerir okkur kleift að skiptast á talgjörðum hratt og vel.

Oft er greint á milli tvenns konar sjónarhorna í málvísindum, hins sögulega (diachronic) og hins samtímalega (synchronic). Enfield hefur sett fram þriðja sjónarhornið, hið samskiptalega (enchronic), þar sem fengist er við tungumálið á tímaskala samskipta (frá millisekúndum til stærri samtalseininga) og sjónum beint að notkun þess í félagslegum athöfnum (Enfield, 2013). Lengi vel hefur verið tilhneiging til að líta svo á að fræði sem fást við málnotkun og samskipti séu að einhverju leyti á jaðrinum, eins og þau hafi lítinn sem engan snertipunkt við hefðbundnar grunngreinar málvísinda. Hugtak Enfields undirstrikar hins vegar að samskiptasjónarhornið varðar hugsanlega allar greinar málvísinda, líkt og hin sjónarhornin tvö. Framlag samskiptastefnunnar einskorðast því ekki við rannsóknir á samskiptum, það getur líka vakið nýjar spurningar á ýmsum sviðum og varpað öðru ljósi á klassísk viðfangsefni málvísinda.

Heimildir

  • Enfield, N. . J., Dingemanse, M., Baranova, J., Blythe, J., Brown, P., Dirksmeyer, T., … Torreira, F. (2013). Huh? What? – A first survey in 21 languages. Í M. Hayashi, G. Raymond, & J. Sidnell (Ritstj.), Conversational repair and human understanding (bls. 343–380). New York: Cambridge University Press.
  • Enfield, N. J. (2013). Relationship thinking: Agency, enchrony, and human sociality. New York: Oxford University Press.
  • Enfield, N. J. (2017). How we talk: The inner workings of conversation. New York: Basic Books.
  • Kendrick, K. H., & Torreira, F. (2015). The timing and construction of preference: A quantitative study. Discourse Processes, 52(4), 255–289.
  • Levinson, S. C. (2016). Turn-taking in human communication–origins and implications for language processing. Trends in cognitive sciences, 20(1), 6–14.
  • Levinson, S. C., & Torreira, F. (2015). Timing in turn-taking and its implications for processing models of language. Frontiers in Psychology, 6(731).
  • Roberts, S. G., & Levinson, S. C. (2017). Conversation, cognition and cultural evolution. Interaction Studies, 18(3), 402–442.
  • Rósa S. Gísladottir, Chwilla, D. J., & Levinson, S. C. (2015). Conversation electrified: ERP correlates of speech act recognition in underspecified utterances. PLOS ONE, 10(3), e0120068.
  • Sacks, H., Schegloff, E. A., & Jefferson, G. (1974). A simplest systematics for the organization of turn-taking for conversation. Language, 50(4), 696–735.
  • San Roque, L., Kendrick, K. H., Norcliffe, E., & Majid, A. (2018). Universal meaning extensions of perception verbs are grounded in interaction. Cognitive Linguistics, 29(3), 371–406.
  • Stivers, T., Enfield, N. J., Brown, P., Englert, C., Hayashi, M., Heinemann, T., … Levinson, S. C. (2009). Universals and cultural variation in turn-taking in conversation. Proceedings of the National Academy of Sciences, 106(26), 10587.
  • Walker, G. (2013). Phonetics and Prosody in Conversation. Í J. Sidnell & T. Stivers (Ritstj.), The handbook of conversation analysis (bls. 455–474). Wiley-Blackwell.