Haukur Þorgeirsson

Tómt og hálftómt rím

Í germönskum kveðskap stuðla saman öll orð sem hefjast á sérhljóði. Hefðbundið er að tala þá um að sérhljóðar séu stuðlar og höfuðstafir og þannig er komist að orði í Háttatali Snorra-Eddu: „En ef hljóðstafur er höfuðstafurinn, þá skulu stuðlar vera og hljóðstafir, og er þá fegra, að sinn hljóðstafur sé hver þeirra.“ Þótt hefðbundið sé að tala um „sérhljóðastuðlun“ er að ýmsu leyti hentugra að nota annað orðalag og tala um tóman stuðul. Það sem sameiginlegt er orðum sem hefjast á sérhljóða er að stuðull (e. „onset“) fyrsta atkvæðis þeirra er tómur. Hliðstætt fyrirbæri má finna í endarími, til dæmis í íslenskum rímum á 17. öld en þá eru í tísku ýmsir hættir sem gera ráð fyrir skothendu eða baksneiddu endarími. Í slíku rími standast á orð eins og tvenn og þann eða segg og dögg þar sem kálfurinn er sá sami en kjarninn annar. Jafnframt er fyllilega boðlegt í slíkum háttum að ríma saman öll orð sem enda á sérhljóði, til dæmis þá og frú. Enginn lítur á þetta sem furðulegt sértilvik sem kalli á sérstakar skýringar heldur er krafan einfaldlega sú í baksneiddu rími að kálfurinn sé sá sami. Bæði orðin þá og frú hafa tóman kálf og þess vegna ríma þau saman.

Það sem flækir myndina af tómri stuðlun og tómu rími er að í fornum kveðskap kemur oft fyrir að hálfsérhljóð blandi sér í málið. Þannig stuðla orð sem hefjast á j reglulega við orð sem hafa tóman stuðul. Í Eddukvæðum hefur einnig verið bent á nokkur dæmi um að orð sem hefjast á v virðist stuðla við orð sem hafa tóman stuðul. Í dróttkvæðu rími eru enn fremur allnokkur dæmi um að j og v rími við tómleika eða hvort við annað. Í erindinu verður leitað skýringa við þessu öllu, bæði frá sögulegu og samtímalegu sjónarhorni.