Íslenskt mál

Tímaritið Íslenskt mál og almenn málfræði er gefið út af Íslenska málfræðifélaginu í samvinnu við Málvísindastofnun. Í því eru birtar rannsóknagreinar og yfirlitsgreinar um öll svið íslenskrar og almennrar málfræði, auk umræðugreina og smágreina, ritdóma og ritfregna. Félagar í Íslenska málfræðifélaginu eru áskrifendur að tímaritinu. Allir sem áhuga hafa á málfræði geta skráð sig.

Tímaritið kemur að jafnaði út einu sinni á ári. Tekið er við handritum allt árið en auk þess lokaskilafrestur í hvert hefti er auglýstur á vefsíðu Íslenska málfræðifélagsins (http://malfraedi.hi.is) og í tölvupósti til félagsmanna. Handrit skulu send á póstfangið islensktmal@hi.is.

Ritstjórar eru Ásta Svavarsdóttir, Einar Freyr Sigurðsson og Þórhallur Eyþórsson.

Félagar í Íslenska málfræðifélaginu eru áskrifendur að tímaritinu. Allir sem áhuga hafa á málfræði geta skráð sig.

Íslenskt mál er aðgengilegt á tímarit.is, nema fjórir síðustu árgangar.

 

Greinakall – óskað eftir greinarhandritum fyrir Íslenskt mál 40 (2018)

Frá og með 40. árgangi verða ritstjórnarskipti á Íslensku máli. Haraldur Bernharðsson og Höskuldur Þráinsson, sem stýrt hafa tímaritinu um árabil, óskuðu eftir að hætta og í kjölfarið voru nýir ritstjórar kosnir á aðalfundi málfræðifélagsins 2018: Ásta Svavarsdóttir, Einar Freyr Sigurðsson og Þórhallur Eyþórsson. Ritstjórnarskipti urðu á haustmánuðum þegar 39. árgangur kom út.

Nýir ritstjórar vinna nú við að undirbúa næsta hefti (40/2018) og hafa hug á að koma því út fyrri hluta árs 2019. Frestur til að skila greinarhandritum í 40. hefti Íslensks máls er til 5. febrúar 2019.

Stefnt er að því að hraða einnig útkomu næsta heftis þar á eftir og áætlað er að það komi út í árslok. Gert er ráð fyrir að skilafrestur handrita fyrir 41. hefti verði í byrjun júní en nákvæm dagsetning verður auglýst síðar.

Efni tímaritsins verður að miklu leyti með sama sniði og undanfarin ár, þó með nokkrum breytingum. Meginefnisflokkar frá og með 40. árgangi verða tveir, „Greinar“ og „Flugur“. Í fyrri flokknum verða, eftir sem áður áður, birtar ritrýndar rannsóknagreinar og yfirlitsgreinar. Efnisflokkurinn „Flugur“ rúmar aftur á móti margs konar smágreinar um mál og málfræði, svo sem ábendingar, stuttar umræður um tiltekið efni, hugdettur og annað efni sem fólki flýgur í hug. Það efni verður óritrýnt. Efni sem áður hefði birst í flokkunum „Málsefni“ og „Umræðugreinar, athugasemdir og flugur“  mun nú annaðhvort birtast sem stuttar ritrýndar greinar eða sem flugur, eftir eðli og lengd. Með þessu má segja að sé horfið til eldra og einfaldara fyrirkomulags tímaritsins.

Þá verða ritfregnir og umsagnir um bækur áfram birtar í tímaritinu og er fólk hvatt til að senda tímaritinu efni um áhugaverð ný rit. Einnig verður sú breyting gerð að hægt verður að senda ítarlega ritdóma í tímaritið sem verða þá ritrýndir og birtir sem greinar („ítardómar“, á ensku „review articles“).

Næsti skilafrestur er 5. febrúar eins og áður segir. Ný ritstjórn hvetur fólk til að senda tímaritinu handrit til birtingar í 40. hefti Íslensks máls, ekki síst flugur.