Oddur Snorrason

„Í ilming ok í berging ok í allri hneigingu líkams míns“

Úr beygingarsögu kvenkynsnafnorða sem enda á -ing

Kvenkynsnafnorð sem enda á -ing, eins og kenning, hafa í nútímamáli endinguna -u í þolfalli og þágufalli eintölu en -ar í eignarfalli. Í elstu heimildum um forníslensku voru orðin hins vegar endingarlaus í þolfalli. Enn fremur var þágufall þeirra ýmist með eða án endingarinnar -u, samanber eftirfarandi máldæmi úr Íslensku hómilíubókinni (1).

(1) ek hefi mér fyr gjört í öllum vitum líkams, í sjón ok í heyrn, í ilming ok í berging ok í allri hneigingu líkams míns (Holm perg. 15 4to 68r3-5 um 1200)

Kvenkynsnafnorð með viðskeytið -ing tilheyra sögulega ō-stofnum en beyging þeirra var nokkuð breytileg í elstu forníslensku. Þá höfðu langflest einkvæð ō-stofna orð, eins og nál og sǫk, lagt af fornu þágufallsendinguna -u og voru því endingarlaus í bæði þolfalli og þágufalli. Eingöngu lítill hópur orða varðveitti þágufallsendinguna að einhverju marki, sbr. sólu, laugu, jǫrðu af sól, laug og jörð. Orð með viðskeytinu -ing varðveittu yfirleitt endinguna -u í þágufalli og voru að því leyti fornlegri en ō-stofna nafnorð almennt. Þess hefði helst verið að vænta að -ing-orð fetuðu sömu slóð og flest önnur ō-stofna orð og legðu af þágufallsendinguna -u. Um hríð virtust orðin stefna í þá átt en töluvert bar á endingarleysi á 13.–15. aldar en það hörfaði eftir því sem leið á 16. öld. Um svipað leyti breiddist endingin -u út í þolfall orðanna.

Þessar málbreytingar tengjast nánum böndum. Beyging kvenkynsnafnorða með viðskeytið -ing hefur nefnilega haft tvær tilhneigingar í sögu málsins. Annars vegar hefur hún stefnt að beygingu orða eins sök sem eru endingarlaus í þolfalli og þágufalli. Ef það mynstur hefði orðið ofan á hefðu -ing-orð eignarfallsendinguna -ar en væru endingarlaus í öllum öðrum föllum. Það væri til samræmis við ríkjandi beygingarmynstur í ō-stofnum almennt (t.d sǫk), kvenkyns i-stofnum (eins og bǿn) og kvenkyns samhljóðsstofnum (s.s. bók). Hins vegar hafa orð með viðskeytið -ing haldið fast í endinguna -u í þágufalli sem hefur enn fremur breiðst út í þolfall. Sú beyging sést einungis í -ing-orðum og kvenmannsnöfnum eins og Ingibjörgu.

Hvernig ber að túlka þessar ólíku tilhneigingar -ing-orða? Hvers vegna fóru þau sínar eigin leiðir í stað þess að falla að reglulegri beygingu og beygjast eins og sǫk, bǿn eða bók? Hvenær fékk þolfall -ing-orða endinguna -u? En þágufall þeirra?

Í þessum fyrirlestri verður reynt að svara þessum spurningum með hliðsjón af stóru dæmasafni úr ritheimildum frá ólíkum málstigum íslensku, þar á meðal íslenskum biblíuþýðingum, elstu íslensku handritunum og völdum ritum frá 12.–21. aldar. Forsaga -ing-orða verður rakin ásamt fyrri skrifum fræðimanna um viðfangsefnið og því næst fjallað um breytingar á þágufalli og þolfalli í eintölu -ing-orða í ljósi kenninga um áhrifsbreytingar og máltöku barna. Velt verður vöngum yfir því hvað olli umræddum beygingarbreytingum,  hvort breytingarnar séu að einhverju leyti „rökréttar“ með tilliti til þróunar íslensks beygingakerfis og hvort þróunin fram að þessu hafi einhvers konar forspárgildi fyrir aðrar breytingar á beygingu -ing-orða.