Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Anna Lísa Pétursdóttir og Íris Dögg Rúnarsdóttir

Orðtíðnibók -Tíðni orða í sjálfsprottnu tali barna á aldrinum 2;5 til 8 ára

Orðtíðni hefur lítið verið rannsökuð út frá talmáli hér á landi. Gagnaöflun úr talmáli er flókin, tímafrek og kostnaðarsöm miðað við öflun ritmálstexta. Við rannsóknir á máltöku barna skiptir máli að skoða tíðni orða og þá hvaða orð og orðmyndir börnin læra.

Meginviðfangsefni rannsóknarinnar var að taka saman orð sem komu fyrir í sjálfsprottnu tali íslenskra barna á aldrinum 2;6 til 8;0 ára og útbúa orðtíðnibók. Unnið var út frá 450 málsýnum 354 barna sem voru flest tekin á árunum 2009 til 2014. Þessi málsýni sýna sjálfsprottið tal barnanna á íslensku í leik eða samtali við viðmælanda. Öll málsýnin voru tekin upp og síðan afrituð nákvæmlega þannig að tal barnsins og viðmælanda var skrifað niður frá orði til orðs samkvæmt handbók um málsýni (Jóhanna T. Einarsdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir, 2018). Sjá ennfemur http://malsyni.hi.is/.  Málfræðivillur voru merktar með gæsalöppum og framburður var ekki skráður sérstaklega heldur fylgt ritmáli. Farið var yfir allar afritanir í tvígang og afritun samræmd. Tvær meistaraprófsritgerðir í talmeinafræði lögðu grunn að verkefninu (Anna Lísa Pétursdóttir, 2017; Íris Dögg Rúnarsdóttir, 2018). Við úrvinnslu bókarinnar var stuðst við vinnulag líkt og er í  Íslenskri Orðtíðnibók. Flettimynd fallorða var höfð í karlkyni, eintölu, nefnifalli og flettimynd sagnorða var höfð í nafnhætti. Þannig er t.d. dagur flettimynd orðmyndarinnar daginn og gefa flettimynd orðsins gáfu o.s.frv. Alls voru greind  116.652 lesmálsorð sem reyndust vera 54.262 mismunandi orðmyndir eða 3925 flettiorð.  Algengustu orðflokkar voru nafnorð 2847 flettiorð (72%), sagnorð 486 flettiorð (12%), lýsingarorð 276 flettiorð  (7%) og atviksorð 139 flettiorð (4%).  Erlend orð voru mjög fátíð og komu helst fyrir sem nafnorð eins og Barbie eða Crazycraft eða sem frasar eins og „Who is your daddy“ eða „I see dead people“. Fjallað verður um niðurstöðurnar og gefin dæmi um algengi orða og orðflokka og einnig um skemmtileg nýyrði sem sem börnin bjuggu sjálf til.  Niðurstöður þessar gefa upplýsingar um hvernig málið þróast hjá börnum á þessum aldri og hafa þær því gildi fyrir alla vinnu tengda málþroska barna, hvort sem það er í þjálfun, við rannsóknir eða við að útbúa námsefni eða mælitæki. Orðtíðnibókin mun koma út í byrjun árs 2019 í rafrænuformi og verður aðgengileg í opnum aðgangi.

Heimildir

Jóhanna Thelma Einarsdóttir og Þóra Sæunn Úlfsdóttir (2018). Málsýnataka. Gagnabanki Jóhönnu T. Einarsdóttur um Málsýni (GJEUM). Handbók. http://malsyni.hi.is/.