Þorgeir Sigurðsson

Sagnaforliðurinn ‘of’ í kirkjulegum kveðskap og möguleikahorf sagna 

Í fornum textum, fram til um 1225, var að finna torskilið smáorð, of, framan við sagnir. Árið 1929 hélt Hans Kuhn því fram að þetta smáorð breytti sögninni þannig að í stað þess að hún lýsti verknaði sagnar lýsti hún möguleika á verknaðinum. Hann benti á sams konar smáorð í fornri grísku. Aðrir hafa ekki tekið undir þetta með Kuhn, fyrr en dr. Þorgeir Sigurðsson gerði það í grein sem birtist á síðasta ári í septemberhefti Beiträge zur Geschichte der deutschen Sprache und Literatur 

Segja má að of hafi lýst horfi sagna sem í nútímamáli er lýst með hjálparsögninni geta en í fornu máli með sögninni mega. Í fyrirlestrinum er rökum fyrir þessu lýst en til viðbótar er rætt um sagna-of í kveðskap. Kuhn hélt því fram að kenningin ætti við í prósa og í kirkjulegum kveðskap fyrir 1225. Í grein Þorgeirs var aðeins tekist á við sagna-of í prósa en kirkjulegum kveðskap var sleppt. Í fyrirlestrinum er útskýrt hvers vegna, en því er engu að síður haldið fram að kenningin eigi við um afmarkaðan hluta þess kveðskapar sem er samtíma prósanum. Ennfremur er kannað hvort kenningin eigi við sama afmarkaða hluta forns kveðskapar; nánar tiltekið ef of er notað með nafnhætti eða framsöguhætti nútíðar. Þessu er einfaldast að lýsa með dæmum: 

Í Málsháttakvæðinu frá um 1200 eru birt ýmis heilræði. Þar eru nokkur sagna-of, öll framan við nafnhátt eða framsöguhátt nútíðar. Möguleikahorfið er nokkuð greinilegt. Fyrsta dæmið er þannig: 

Engi of dæmir sjálfan sig 

Þetta er málsháttur sem finna má í orðabók SB (undir sök): „Enginn er dómari í sjálfs sín sök“; sem einnig má orða: Enginn getur dæmt sjálfan sig. „Getur dæmt“ og „of dæmir“ hafa sama horf sagnar. Í fornu máli hefði horfið verið myndað þannig: „má dæma“. 

Kuhn taldi að í Málsháttakvæðinu táknaði sagna-of möguleikahorf og hann flokkaði það með kirkjulegum kvæðum. Kvæðið er hinsvegar ekki um trúarlegt efni og ekki er auðvelt að sjá af hverju það ætti að teljast vera kirkjulegt. 

Málsháttakvæðið er ort undir sama hætti og vísubrot sem er í Fyrstu málfræðiritgerðinni, sem hefur of framan við sögn í framsöguhætti nútíðar: 

Svo er mörg við ver sinn vær, (hún er vær, henni er vært)
at varla of sér hún af honum, nær. 

Sögnin sjá á forminu „of sér“ hefur sama horf og „getur séð“ eða „má sjá“. Þetta er eins konar málsháttur: Mörg kona unir svo vel með manni sínum að hún má ekki sjá af honum. (þ.e. láta hann frá sér). Þennan texta hafa menn ekki skilið áður. Hér er verið að sýna merkingargreinandi mun á ver og vær í máfræðiritgerð og erfitt er að telja vísubrotið til kirkjulegs kveðskapar. 

Í fornum kveðskap og því sem Kuhn taldi vera veraldlegan í yngri kveðskap eru langflest sagna- of framan við þátíðarmyndir sagna og virðast vera merkingarlaus. Undantekningar með of í nafnhætti og framsöguhætti nútíðar eru ræddar í fyrirlestrinum.