Margrét Jónsdóttir

Strompinn blés 

Setningin Strompinn blés af húsinu er merkileg fyrir tvennt. Frá málfræðilegu sjónarmiði er setningin merkileg fyrir fall frumlagsins með sögninni blása. En setningin á sér líka merkilega sögu. Hana gæti fyrst verið að finna í Orðabók íslenzkrar tungu að fornu og nýju (1915) eftir Jón Ólafsson. Af framsetningunni er ljóst að höfundurinn tengir setninguna við Stormrinn blés strompinn af húsinu enda segir hann merkinguna vera þá sömu. Hið sama kemur fram hjá Sigfúsi Blöndal (1920-1924). Í fyrirlestrinum verður saga setningarinnar í ritum rakin og þá bæði vísað til Íslenskrar orðabókar og íslenskra fræðigreina en ekki síður til erlendra skrifa um íslenska málfræði. Þar er hún oft höfð sem dæmi um ópersónulegar setningar í íslensku. Skýringarnar sem fylgja eru mismiklar, oftast þó litlar.