Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Persónulegar frásagnir ein- og fjöltyngdra 10 ára barna  

Persónulegar frásagnir eru umfangsmikill þáttur í daglegum samskiptum og auk þess mikilvægur þáttur í því að skilja eigin tilfinningar og hugsanir (Bruner, 1990; Peterson og McCabe, 2013).  

Niðurstöður rannsókna sýna að börn með annað heimamál en íslensku eigi í verulegum erfiðleikum með að tileinka sér íslenska tungu og á það við bæði börn á leikskólaaldri og einnig í grunnskóla (Elín Þöll Þórðardóttir, 2017; 2021; Elín Þöll Þórðardóttir og Anna Guðrún Júlíusdóttir, 2013; Hjördís Hafsteinsdóttir o.fl., 2022; Sigríður Ólafsdóttir o.fl., 2016). Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að fjöltyngd börn sem búa í enskumælandi umhverfi hafa náð sambærilegum tökum á enskri tungu og eintyngdir jafnaldrar eftir að hafa verið í landinu og gengið þar í skóla í um 5-7 ár (Demie, 2013; Paradis og Jia, 2017). 

Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í daglega málnotkun ein- og fjöltyngdra barna á Íslandi með því að skoða persónulegar frásagnir og setja niðurstöðurnar í alþjóðlegt samhengi. Alþjóðlegur rannsóknarhópur hefur þróað aðferð til að laða fram persónulegar frásagnir hjá börnum sem nefnist Global TALES (Westerveld, o.fl., 2023). Aðferðin hefur verið notuð í 26 mismunandi löndum og af um 50 rannsakendum.  Í rannsókninni voru tekin viðtöl við 42 börn á aldrinum 9;3 til 10;9 ára, 27 eintyngd og 15 fjöltyngd með Global TALES-aðferðinni. Öll fjöltyngdu börnin höfðu hafið grunnskólanám á Íslandi og þau voru öll fædd á Íslandi fyrir utan eitt. Foreldrar barnanna töluðu annað tungumál en íslensku heima fyrir. Heimamál barnanna var pólska, bisayska (tungumál talað á Filippseyjum), lettneska, litháíska, rússneska, albanska, arabíska, króatíska, víetnamska og eitt barnið heyrði jöfnum höndum íslensku, ensku og cebuano (tungumál talað á Filipseyjum) heima. Mörg fjöltyngdu börnin töluðu auk heimamálsins íslensku og ensku heima hjá sér. Öll börnin töluðu eingöngu íslensku í skólanum að mati foreldra og  öll börnin töluðu íslensku við vini sína en fimm börn töluðu auk íslenskunnar ensku, pólsku eða litháísku. Félagslegur bakgrunnur barnanna (menntun og tekjur foreldra) í báðum hópum var nokkuð svipaður  

Niðurstöður sýndu að fjöltyngdu börnin tjáðu sig í marktækt færri segðum þau notuðu marktækt færri orð og orðanotkun þeirra var ekki eins fjölbreytileg og hjá eintyngdu börnunum. Enn fremur gerðu þau hlutfallslega mun fleiri málfræðivillur. Mörg fjöltyngdu barnanna áttu í erfiðleikum með að skilja kveikjuorðin að sögunum og þurftu að fá útskýringar á þeim þó að flest höfðu dvalið á Íslandi í um 9-11 ár.  

Niðurstöður gefa til kynna að fjöltyngd börn sem hafa alist upp á Íslandi eigi í verulegum erfiðleikum með að segja frá persónulegum atburðum úr daglegu lífi á íslensku. Jafnframt sýna niðurstöður að hægt er að bera saman málfærni ein- og fjöltyngdra barna við að segja persónulegar sögur með því að nota Global TALES aðferðina.  

Heimildir  

Bruner, J. (1990). Acts of meaning. Harvard University Press. 

Demie, F. (2013). English as an additional language pupils: How long does it take to acquire English fluency? Language and Education, 27(1), 59–69. https://doi.org/10.1080/09500782.2012.682580  

Elín Þöll Þórðardóttir. (2017). Are background variables good predictors of need for L2 assistance in school? Effects of age, L1 amount, and timing of exposure on Icelandic language and nonword repetition scores. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 23(4), 400–422. https://doi.org/10.1080/13670050.2017.1358695  

Elín Þöll Þórðardóttir. (2021). Adolescent language outcomes in a complex trilingual context: When typical does not mean unproblematic. Journal of Communication Disorders, 89, 106060. https://doi.org/10.1016/j.jcomdis.2020.106060 

Elín Þöll Þórðardóttir og Anna G. Júlíusdóttir. (2012). Icelandic as a second language: A longitudinal study of language knowledge and processing by school-age children. International Journal of Bilingual Education and Bilingualism, 16(4), 411–435. https://doi.org/10.1080/13670050.2012.693062  

Hjördís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Thelma Einarsdóttir og Íris Edda Nowenstein. (2022). Íslenskukunnátta tvítyngdra barna: Tengsl staðlaðra málþroskaprófa og málsýna. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntunhttps://doi.org/10.24270/netla.2022.8 

Paradis, J. og Jia, R. (2017). Bilingual children’s long-term outcomes in English as a second language: Language environment factors shape individual differences in catching up with monolinguals. Developmental Science, 20(1). https://doi.org/10.1111/desc.12433  

Peterson, C. og McCabe, A. (2013). Developmental psycholinguistics: Three ways of looking at a child’s narrative. Springer Science & Business Media 

Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Íslenskur orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Sérrit Netlu 2016 – Um læsihttp://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/03_16_laesi.pdf 

Westerveld, M. F., Lyons, R., Nelson, N. W., Chen, K. M., Claessen, M., Ferman, S., o.fl. (2023). Correction: Global TALES feasibility study: Personal narratives in 10-year-old children around the world. PLoS ONE, 18(10), e0293705. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0293705