Mýkt en ekki harka — Sagnfærsla og tilgátan um ríkulega sagnbeygingu í sögulegu ljósi
Í erindinu verður fjallað um tilgátuna um ríkulega sagnbeygingu (e. Rich Agreement Hypothesis) og hvernig hægt er að samrýma hana tilbrigðum í stöðu persónubeygðrar sagnar í sögu íslenskunnar. Um er að ræða dæmi eins og sýnd eru í (1) og (2) þar sem sögnin birtist í þriðja frekar en öðru sæti setningar:
- heldur þú að þú ekki getir hjálpað, henni og fengið til láns það sem vantar (GdrJon-1880-07-29.xml)
- … og jeg held helst að S. sje hreint ekkert hrigg, og gott ef hún ekki er farin að hugsa um að klófesta eitthvern … (GdrJon-1884-08-26.xml)
Sérstaklega verður tekið til skoðunar hvort viðhengisgreining á stöðu neitunar og setningaratviksorða dugir til þess að gera grein fyrir breytileika sem þessum í íslensku. Kannaðar verða meðal annars ólíkar gerðir atvikssetninga og skýringarsetninga, og sýnt að algengistu gerðir tilgátunnar um ríkulega sagnbeygingu ná ekki utan um tilbrigðin. Niðurstaðan er að tilgátuna um ríkulega sagnbeygingu er ekki hægt að setja fram sem undantekningarlaus algildi (e. absolute universal) skv. skala Greenbergs, hvorki þegar tilgátan er sett fram „veikt“ (weak/unidirectional) né „sterkt“ (strong/bidirectional). Bent verður á að minna rætt „mjúkt“ afbrigði tilgátunnar ræður við tilbrigði í íslensku, en sú tilgáta felur í sér skilyrt líkindi (e. statistical implicational universal). Ólíkt veiku og sterku framsetningunni hefur mjúka ríkidæmistilgátan enga forspá um (a) tungumál með forskeyttu frekar en viðskeyttu sagnarsamræmi (nær aðeins utan um hið síðarnefnda), (b) sögulega þróun í tungumálum með veika sagnbeygingu (einföldun á beygingakerfi mála endurspeglast ekki í setningafræðinni).