Anton Karl Ingason

 Tíðar-, staðar- og stefnuatviksorð fremst í setningu 

Kjarnafærsla hefur þó nokkuð verið rannsökuð í íslensku og er m.a. þekkt að færslur orða og liða fremst í setningu er misgóð eftir því hvort um er að ræða aðalsetningu eða aukasetningu og einnig hvers konar aukasetningu er um að ræða (Ásgrímur Angantýsson 2011; Callegari & Ásgrímur Angantýsson 2023). Í þessu samhengi er áhugavert að skoða tíðar-, staðar- og stefnuatviksorð því að slíkum orðum er gjarna eðlilegt að koma fremst í setningu af ástæðum sem tengjast samhengi innan textans (Virtanen 1992) og þau koma oftar fyrir fremst í setningu en önnur atviksorð í bæði íslensku og þýsku (Light 2012). Ef við berum saman orðaraðirnar frumlag-persónubeygð sögn-atviksorð (1a) og atviksorð-persónubeygð sögn-frumlag (1b) í IcePaHC málheildinni (Wallenberg o.fl. 2011) í aðalsetningum í íslensku (7919 dæmi) þá má sjá að hlutfall tíðar-, staðar- og stefnuatviksorða fremst í setningu er mjög hátt eða á bilinu 60-80% (eins og Callegari og Ásgrímur Angantýsson komu inn á). Hlutfallið sveiflast nokkuð gegnum aldirnar en er þó á þessu bili. 

(1) a. Þessi tíðindi fóru víða.
      b. Þá sér hann engil Guðs til hægri handar. (Hómilíubók) 

Ef við skoðum sömu tegundir atviksorða í aukasetningum (2) (atvikssetningum, -fallsetningum og tilvísunarsetningum; 1888 dæmi) þá sjáum við að hlutfall þessara orða fremst í setningu er mun lægra en í aðalsetningum eins og við er að búast enda þekkt að meiri takmarkanir eru á kjarnafærslu í aukasetningum eins og Ásgrímur Angantýsson (2011) hefur fjallað um. Setningar með kjarnafærðu atviksorði eru þó það algengar að þær eru örugglega vel tækar í a.m.k. sumum aukasetningum.  

(2) a. Því skulum vér trúa, [að Guð, Drottinn vor, var borinn hingað í heim bæði Guð og maður].
     b. En slík laun tók hún að móti [sem nú mun eg segja]. (Hómilíubók) 

Hér er áhugavert að velta því fyrir sér að Ásgrímur bendir á að kjarnafærsla í aukasetningum þykir síðri meðal yngri málhafa og hann bendir á þá möguleika að eldri málhafar séu líklegri til að samþykkja setningar sem tilheyri formlegu málsniði eða þá að þetta sé til marks um málbreytingu þannig að kjarnafærsla í aukasetningum sé á undanhaldi. Rætt verður hvort gögnin varpi ljósi á sögulega þróun (sjá t.d. 35% kjarnafærsla á 12. öld en 16% á 21. öld).  

Í erindinu verða þessi gögn brotin frekar niður eftir tegundum atviksorða og aukasetninga sem og textategund. Reynt verður að varpa ljósi á hvað gerist þegar við erum með atviksorð sem er eðlilegt að vera fremst í setningu (einkum tíðar og staðaratviksorð) í umhverfi þar sem auknar hömlur eru á að annar setningarliður en frumlag sé í fremstu stöðu, þ.e. í aukasetningum. Tekið er undir sumt sem Callegari og Ásgrímur Angantýsson bentu á en rætt hvort fleiri skýringar komi einnig til greina.  

Heimildir: 

Ásgrímur Angantýsson. 2011. The Syntax of Embedded Clauses in Icelandic and Related Languages. Doktorsritgerð, Háskóli Íslands. 

Callegari, E., & Ásgrímur Angantýsson. 2023. Non-subject initial clauses and the left periphery in Icelandic: A distributional approach. WPSS, 41. 

Light, Caitlin. 2012. The syntax and pragmatics of fronting in Germanic. Doktorsritgerð, University of Pennsylvania. 

Virtanen, Tuija. 1992. Discourse Functions of Adverbial Placement in English. Clause-Initial Adverbials of Time and Place in Narratives and Procedural Place Descriptions. 

Joel Wallenberg, Anton Karl Ingason, Einar Freyr Sigurðsson, and Eiríkur Rögnvaldsson. 2011. Icelandic Parsed Historical Corpus (IcePaHC). Version 0.9.