Iks eða ickum. Fleirtölumyndun nýlegra aðkomuorða
Rannsóknin Iks eða ickum skoðaði fleirtölumyndun nýlegra aðkomuorða í nafnorðaflokki. Sú rannsókn var gerð til að kanna hvort munur væri á fleirtölumyndun unglinga og fullorðinna. Einnig var athugað hvort kyn og stafsetning orðanna hefði áhrif á fleirtölumyndun þeirra í nefnifalli og þágufalli.
Rannsókninn var byggð upp frá grunni þar sem rannsakandi fann ekki aðrar eins rannsóknir sem hægt væri að byggja á. Gerð var skrifleg könnun og hún lögð fyrir 26 unglinga á aldrinum 13-15 ára og 27 fullorðna á aldrinum 24-64 ára. Í könnuninni voru þátttakendur beðnir um að fylla inn í eyður setninga með aðkomuorðum í nefnifalli eða þágufalli fleirtölu. Niðurstöður könnunarinnar sýndu mun á aðlögun aðkomuorða milli aldurshópa og falla. Í nefnifalli notuðu 15% fullorðinna íslenska fleirtölu en aðeins 2% unglinga og í þágufalli var íslensk fleirtala notuð í 42% tilfella hjá fullorðnum og í 13% tilfella hjá unglingum. Fullorðnir voru einnig líklegri til þess að aðlaga orðin að íslenskri stafsetningu, eða 19 sinnum, en unglingar aðlöguðu orðin að íslenskri stafsetningu aðeins fimm sinnum. Algengasta íslenska nefnifallsendingin, -ar, kom oftast fram og var notuð í rúmlega 72% af svörum sem höfðu íslenska nefnifallendingu. Þau aðkomuorð í þágufalli sem lík eru íslenskum orðum og karlkyns nefnifallsorð eru líklegust til þess að fá íslenska fleirtölu. Meirihlutinn af báðum hópunum hafði heyrt og/eða séð aðkomuorðin áður en tæpur helmingur hafði notað þau.
Með því að kanna aðlögun aðkomuorða í mismunandi föllum er hægt að sjá frekar hvað það er sem hefur áhrif á aðlögunina. Aðlögun aðkomuorða í þágufalli fleirtölu getur sýnt hvort framandleiki orðanna hafi áhrif á fleirtölumyndun þar sem öll orðin enda á -um og því tiltölulega einföld. Aðlögun í nefnifalli fleirtölu getur sýnt hvort munur sé á milli kynja orða og hvort flókin íslensk fleirtölumyndun hafi áhrif. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að framandleiki orðanna, flókin fleirtala og þekking þátttakenda á orðunum virtust allt hafa áhrif á hvaða orð fengu íslenska fleirtölu.