Þórhallur Eyþórsson

Afturbeyging í forníslensku – aftur

Afturbeyging í forníslensku virðist í aðalatriðum vera eins og í nútímamáli (Eiríkur Rögnvaldsson 2005, 2007). Í umfjöllun um undanfara afturbeygðra fornafna hafa þó verið sett fram ólík sjónarmið sem má annars vegar kenna við „norska skólann“ í fornnorrænni setningafræði og hins vegar „íslenska skólann“.

Helstu fulltrúar „norska skólans“ eru Faarlund og Kristoffersen. Faarlund (1980) staðhæfir að undanfari afturbeygðs fornafns í fornmáli sé að jafnaði nefnifallsfrumlag en þó geti „aðrir liðir“ líka gegnt því hlutverki (sjá líka Faarlund 2004). Kristoffersen (1991, 1994) setur fram nákvæmari greiningu um að munur sé á ósamsetta afturbeygða fornafninu (sig) og afturbeygða eignarfornafninu (sinn). Þannig sé undanfari afturbeygða fornafnsins aðeins frumlag í nefnifalli en undanfari afturbeygðra eignarfornafna geti ýmist verið frumlag eða andlag. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að „norski skólinn“ telur að frumlög í norrænu máli að fornu séu aðeins í nefnifalli. „Íslenski skólinn“ telur aftur á móti að í fornmáli hafi frumlag ýmist verið í nefnifalli eða aukafalli, rétt eins í nútímamáli (Eiríkur Rögnvaldsson 1991, 1996, Jóhanna Barðdal og Þórhallur Eyþórsson 2003 o.fl.). Í grein um afturbeygingu í forníslensku sýnir Eiríkur Rögnvaldsson (2007) fram á að undanfari afturbeygða fornafnsins getur verið þágufallsnafnliður, t.d. með sögnunum þykja, sýnast og virðast.

(1) …honum_i þótti maður koma að sér_i ógurlegur

(Sneglu-Halla þáttur, p. 2215, Eiríkur Rögnvaldsson 2007, (6c)) Almennt er viðurkennt að sagnir eins og þykja taki aukafallsfrumlag í nútímaíslensku (sjá yfirlit hjá Höskuldi Þráinssyni 2005, 2007). Ef gert er ráð fyrir að þannig sé það líka í forníslensku blasir við að afturbeygða fornafnið í (1) vísar til frumlags en ekki andlags.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Setningin í (1) er samsett og felur í sér móðursetningu og nafnháttarsetningu (með andlægri frumlagslyftingu, sjá m.a. Hrefnu Svavarsdóttur 2023). Samsettar setningar af þessum toga eru ólíkar einföldum (ósamsettum) setningum en líkari samsettum setningum með móðursetningu og persónubeygðri sögn í aukasetningu. Einkum og sér í lagi leyfa þær langdræga afturbeygingu þar sem afturbeygt fornafn í aukasetningu vísar í undanfara í móðursetningu.

Að þessu gefnu kemur nokkuð óvænt á daginn að greining Kristoffersens (1991, 1994) er rétt, að því tilskildu að hún eigi aðeins við einfaldar setningar með persónubeygðri sögn. Bæði að fornu og nýju vísar ósamsett afturbeygt fornafn í einföldum setningum aðeins til nefnifallsfrumlags (2a) en ekki aukafallsliðar (2b). Hins vegar getur afturbeygt eignarfornafn ýmist vísað til nefnifalls- eða aukafallsliðar (2c,d).

(2) a. Gunna_i sá sig_i í speglinum.
b. *Gunnu_i langar í sig_i.
c. Halli_i sá mömmu sína_i.
d. Halla_i langar í mömmu sína_i.

Þýðingu þessarar staðreyndar hefur hingað til verið lítill gaumur gefin en hér er lagt til að hún opni á nýjan skilning á eðli og þróun afturbeygingar í sögu og forsögu íslenskunnar.

Niðurstaðan er þessi: Tilgáta „íslenska skólans“ (Eiríks Rögnvaldssonar 1981 o.fl.) um að aukafallsliðir með sögnum eins og þykja séu frumlög í fornmáli er mun sennilegri en tilgáta „norska skólans“ um að aðeins nefnifallsliðir séu frumlög. Hins vegar ber að halda því til haga að í íslensku að fornu og nýju getur aðeins nefnifallsfrumlag verið undanfari afturbeygða fornafnsins í einföldum setningum.