Sigríður Sigurjónsdóttir, Ása Bergný Tómasdóttir, Filippa Lindahl og Maia Andréasson

Mismunandi þróun andlagsstökks í máltöku íslenskra og sænskra/norskra barna

Eitt af mörgum setningafræðilegum fyrirbærum sem einkenna Norðurlandamálin er andlagsstökk (e. object shift). Hugtakið vísar til færslu andlags fram fyrir setningaratviksorð, en slík færsla er ýmist skyldubundin (1a) eða valfrjáls (1b) í íslensku: 

(1)  a.  Ég sá {‘ann} ekki {*‘ann} 

b. Ég sá {bílinn} ekki {bílinn}

Andlagsstökk hefur verið rannsakað töluvert í máli fullorðinna Íslendinga (sjá t.d. Collins og Höskuld Þráinsson 1996, Höskuld Þráinsson 2007) en fyrir utan athugun Filippu Lindahl og Sigríðar Sigurjónsdóttur (2021) á þróun andlagsstökks í langsniðsgögnum tveggja stúlkna hefur andlagsstökk í máli íslenskra barna ekki verið rannsakað kerfisbundið hérlendis. Niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á þróun andlagsstökks í máli sænskra og norskra barna sýna að þau eru lengi að ná valdi á andlagsstökki og það kemur afar sjaldan fyrir í máli þeirra (Josefsson 1996, Anderssen o.fl. 2010, Anderssen o.fl. 2012). Bæði niðurstöður athugana á langsniðsgögnum og niðurstöður þversniðsathugana, þar sem börn voru fengin til að mynda setningar þar sem andlagsstökk er skyldubundið í sænsku og norsku, benda til að 57 ára sænsk og norsk börn hafi enn ekki öll náð fullu valdi á andlagsstökki. 

Í þessu erindi verður rannsóknarverkefnið: Þróun andlagsstökks í máltöku norðurgermanskra barna (sæ. Utvecklingen av objektsskifte i nordgermanskt barnspråk) 20242026 kynnt, en markmið þess er að kanna og bera saman þróun andlagsstökks í máli íslenskra og sænskra/(norskra) barna. Verkefnisstjóri er Filippa Lindahl, lektor við Högskolan Väst í Trollhättan í Vestur-Svíþjóð, en verkefnið er styrkt af Sænsku vísindaakademíunni. Eins og áður var nefnt hafa Filippa og Sigríður Sigurjónsdóttir, sem leiðir íslenska hluta verkefnisins, áður (2021) fjallað um niðurstöður athugunar á þróun andlagsstökks í langsniðsgögnum Evu (1;12;4 ára) og Fíu (0;104;3 ára). Samkvæmt þeim niðurstöðum er þróun andlagsstökks í máli íslenskra barna ólík þróun þess í máli norskra og sænskra barna, en báðar íslensku stúlkurnar beita andlagsstökki í fyrsta skipti skömmu eftir tveggja ára afmælisdag sinn og um þriggja ára aldur virðist Fía hafa náð valdi á þeim reglum sem gilda um andlagsstökk (a.m.k. skyldubundna andlagsfærslu fornafna). Þetta er miklu fyrr en norsk og sænsk börn ná valdi á andlagsstökki en þau eru á aldrinum 57 ára þegar þau nálgast málhæfni fullorðinna. Líklegt er að þessi munur á þróun andlagsstökks í máltöku íslenskra og sænskra/norskra barna stafi af því hversu einfaldar reglurnar um andlagsstökk eru í íslensku samanborið við hin málin. 

Í íslenskum hluta rannsóknarverkefnisins verða langsniðsgögn frá fleiri íslenskum börnum skoðuð og verða fyrstu niðurstöður þeirrar könnunar kynnt í erindinu. Auk þess er hafinn undirbúningur þversniðsathugunar innan verkefnisins, þar sem íslensk og sænsk börn verða fengin til að mynda setningar þar sem andlagsstökk er skyldubundið/valfrjálst. Þessi tilraunahluti verkefnisins fer fram á vormánuðum 2025 bæði á Íslandi og í Svíþjóð þar sem safnað verður nýjum gögnum um andlagsstökk í máli íslenskra og sænskra barna á leik- og grunnskólaaldri. Aðferðafræðin sem notuð verður í þversniðsathuguninni byggir á norskri fyrirmynd (Anderssen o.fl. 2010, Anderssen o.fl. 2012). Í erindinu verða niðurstöður forprófunar þessarar þversniðsathugunar á nokkrum íslenskum og sænskum börnum kynntar og þær bornar saman við niðurstöður norsku rannsóknanna. 

 

Heimildir:  

Anderssen, M., Bentzen, K. og Rodina, Y. (2012). Topicality and Complexity in the Acquisition of Norwegian Object Shift. Language Acquisition, 19(1), 39–72. https://doi.10.1080/10489223.2012.633844  

Anderssen, M., Bentzen, K., Rodina, Y. og Westergaard, M. (2010). The acquisition of apparent optionality: The word order of subject- and object shift constructions in Norwegian. Í Anderssen, M., Bentzen, K. og Westergaard, M. (ritstjórar), Optionality in the input: Proceedings from the Workshop at GLOW XXX, 2007 (bls. 241–470). Springer Publishing.   

Collins, C. og Höskuldur Þráinsson. (1996). VP-internal structure and object shift in Icelandic. Linguistic Inquiry, 27(3), 391–444.  

Höskuldur Þráinsson. (2007). The Syntax of Icelandic. Cambridge University Press.   

Josefsson, G. (1996). The Acquisition of Object Shift in Swedish Child Language. Í Johnson, C. E. og Gilbert, J. H. V. (ritstjórar), Children‘s Language, Volume 9 (bls. 153–165). Erlbaum. 

Lindahl, F. og Sigríður Sigurjónsdóttir. (2021). The Development of Object Shift in Icelandic Child Language. Í Dionne, D. og Vidal Covas, L. (ritstjórar), Proceedings of the 45th Annual Boston University Conference on Language Development, Volume 2 (bls. 499–512). Cascadilla Press.