Kristín M. Jóhannsdóttir

Þolmynd í vesturíslensku

Rannsóknir hafa sýnt að setningafræði erfðamála helst tiltölulega vel varðveitt en að fallstjórn sé hins vegar viðkvæm sem leiði oft til aukinnar notkunar hins ómarka falls (Benmamoun o.fl. 2013). Þetta á einnig við um vesturíslensku þar sem sérstakrar tilhneigingar gætir til þess að skipta aukafallsfrumlögum út fyrir nefnifallsfrumlög (m.a. Birna Arnbjörnsdóttir, 2006; Salbjörg Óskarsdóttir og Höskuldur Þráinsson, 2017; Sigríður Mjöll Björnsdóttir, 2018). En hvað með formgerðir sem gera bæði ráð fyrir setningarlegum færslum og breytingum á fallstjórn, eins og þolmynd? Í íslensku samsvarar frumlag þolmyndarsetningar andlagi germyndarsetningar og oftast er talað um að þolmyndarfrumlagið sé grunnmyndað í andlagssæti en síðan flutt í frumlagssæti með nafnliðarfærslu. Ef germyndarandlagið stendur í þolfalli breytist það í nefnifallsfrumlag en ef það stendur í orðasafnsfalli helst fallið óbreytt (Höskuldur Þráinsson, 2005). Þolmyndin krefst því ekki aðeins nafnliðarfærslu heldur þarf málhafinn einnig að vita hvort fallið eigi að breytast eða haldast. Engar slíkar fallabreytingar verða í ensku og frumlag þolmyndarsetninga er alltaf í nefnifalli. Fyrir Vestur-Íslending sem lifir í ensku málumhverfi og hefur jafnvel fá tækifæri til að tala íslensku gæti þolmyndin því valdið nokkrum vandræðum og það kæmi ekki á óvart að sjá frumlög í nefnifalli sem í raun ættu að vera í aukafalli.

Í þessum fyrirlestri er sjónum beint að stöðu þolmyndar í vesturíslensku; annars vegar því hversu virk nafnliðarfærslan er og hins vegar hvort orðasafnsfallið helst við slíka færslu. Byggt er á viðtölum við 40 Vestur-Íslendinga í Manitoba og Norður Dakota sem tekin voru haustið 2024. Þeir voru beðnir um að meta mismunandi þolmyndarsetningar en einnig að mynda sjálfir þolmynd. Niðurstöðurnar eru svo bornar saman við niðurstöður þolmyndargagna sem safnað var 2014.

Niðurstöður sýna að hlutfall þeirra sem velja hefðbundna þolmynd hefur lækkað mjög á þeim níu árum sem liðin eru frá fyrri gagnasöfnun. 2014 var þolmynd með nafnliðarfærslu valin í 76% tilfella (Kristín M. Jóhannsdóttir, 2024) en hefur nú lækkað í 54%. Það er hins vegar athyglisvert að þegar málhafar voru beðnir um að mynda sjálfir þolmynd notuðu þeir alltaf nafnliðafærslu sem bendir til þess að hún sé enn sterk í máli þeirra þótt þeir hafi ekki alltaf valið hana þegar það-formgerð var í boði. Rétt eins og 2014 eru nú lítil merki um nýja þolmynd og í raun er mun algengara að málhafar velji andlag í nefnifalli þegar þeir velja það-setningu fram yfir setningu með nafnliðarfærslu, sem er í samræmi við styrkta stöðu nefnifallsins í málinu. Auk þess virðast aukafallsfrumlög enn eiga undir högg að sækja. Í gögnunum frá 2014 var þágufallsfrumlag réttilega valið í 68% þeirra tilfella þegar formgerð með nafnliðarfærslu var valin en nú er hlutfallið komið niður í 21% og málhafar kjósa fremur nefnifallið.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við ofangreindar rannsóknir því þótt færri málhafar velji nú þolmynd með nafnliðarfærslu en 2014 stendur setningagerðin mun sterkari fótum en beygingakerfið þar sem aukafallsfrumlög standa sérstaklega höllum fæti. En þótt málfræði þessara erfðamálhafa sé ekki nákvæmlega eins og málfræði íslensku hér heima er íslenskan vestra samt fullkomlega málfræðilegt kerfi þótt hún sýni nokkur merki um breytingar.

 

Heimildaskrá

Benmamoun, Elabbas, Silvina Montrul og Maria Polinsky. (2013). Heritage languages and their speakers: Opportunities and challenges for linguistics. Theoretical Linguistics 39(3–4):129–181.

Höskuldur Þráinsson. (2005). Setningar. Handbók um setningafræði. Íslensk tunga, III. bindi. Almenna bókafélagið.

Kristín M. Jóhannsdóttir. (2024). The passive in Heritage Icelandic. Í M. Ryan Bochnak, Eva Csipak, Lisa Matthewson, Marcin Morzycki, og Daniel K. E. Reisinger (ritstj.), The title of this volume is shorter than its contributions are allowed to be: Papers in honour of Hotze Rullmann (bls. 217–228). UBC Working Papers in Linguistics.

Salbjörg Óskarsdóttir og Höskuldur Þráinsson. (2017). Hann þótti gott í staupinu. Um breytingar á aukafallsfrumlögum í vesturíslensku. Í Höskuldur Þráinsson, Ásgrímur Angantýsson og Einar Freyr Sigurðsson (ritstj.), Tilbrigði í íslenskri setningagerð. III Sérathuganir (bls. 101–124). Málvísindastofnun Háskóla Íslands.

Sigríður Mjöll Björnsdóttir. (2018). „Hún er svo montin af að vera íslenskt.“ Málbreytingar í sendibréfum Vestur-Íslendings. Í Birna Arnbjörnsdóttir, Höskuldur Þráinsson og Úlfar Bragason (ritstj.), Sigurtunga. Vesturíslenskt mál og menning (bls. 341–360). Háskólaútgáfan.