Agnarögn um alþýðuskýringar(fordóma)
Í handbókum um sögulega málfræði má oft sjá greiningu á ýmsum tegundum áhrifsbreytinga. Þeim er iðulega skipt í tvo meginflokka, hlutfallsbundnar áhrifsbreytingar (þ.e. breytingar sem má setja upp í hlutfallsjöfnu, s.s. gestr : gestir :: dalr : dalir) og óhlutfallsbundnar, stundum kallaðar sporadískar. Svolítið misjafnt er hvaða undirflokkar eru settir undir síðari meginflokkinn en yfirleitt er þar að finna hugtökin blöndun (e. blending, contamination) og alþýðuskýringu (e. folk etymology). Stundum er eins og litið sé á óhlutfallsbundnu breytingarnar sem eins konar ruslakistu; fyrirbærin þeim megin geti verið erfitt að skilgreina og þau eigi litla athygli skilda. Þetta viðhorf á sér langa sögu. Hermann Paul (1846–1921), sem hafði mjög ákveðnar hugmyndir um áhrifsbreytingar, taldi að breytingar á orðmyndum væru annaðhvort hljóðbreytingar eða áhrifsbreytingar. Að hans mati voru blöndun og alþýðuskýring eiginlega hvorugt þannig að hann ýtti fyrirbærunum svolítið til hliðar. Á þessari öld hafa viðhorfin þó tekið að breytast. Bandaríski málfræðingurinn David Fertig hefur t.d. viljað koma þessum gömlu jaðarfyrirbærum á kortið. Í þeim kunni ýmislegt fróðlegt að sjást en hann telur að mekanismarnir að baki alþýðuskýringu gætu jafnvel verið meginafl þegar kemur að málbreytingum.
Í erindinu verður gerð stuttlega grein fyrir hugmyndum Fertigs og jafnframt litið á viðhorf nokkurra íslenskra málfræðinga til alþýðuskýringa(r). Þá verður rætt um af hverju tortryggni gagnvart fyrirbærinu geti stafað.