Flokkun S1-setninga sem tákna fullyrðingar
Þótt sögn í öðru sæti (S2) sé meginregla í íslenskum setningum eru ýmis dæmi um persónubeygða sögn í fyrsta sæti (hér eftir S1). Þetta má t.d. sjá í já/nei-spurningum (Er einhver heima?) og boðháttarsetningum (Vertu til friðs!). Í fullyrðingasetningum kemur S1-röð m.a. fram í svonefndri frásagnarumröðun (Komu þeir þá að stórum helli) sem finna má í frásagnar-textum frá öllum öldum. Frásagnarumröðun kemur aðeins fyrir í aðalsetningum, þar á meðal aðalsetningum sem eru tengdar með aðaltengingunni og. Hins vegar er frásagnarumröðun nánast óþekkt í aðalsetningum sem eru tengdar með gagnstæðistengingunni en enda táknar frásagnarumröðun einhvers konar framhald af því sem á undan kemur (Halldór Ármann Sigurðsson 1983/1994). Þetta birtist t.d. í þeirri staðreynd að frásögn getur ekki hafist á setningu með frásagnarumröðun.
Fullyrðingasetningum með S1-röð sem ekki geta talist dæmi um frásagnarumröðun hefur hins vegar lítill gaumur verið gefinn. Í þessum fyrirlestri er ætlunin að bæta úr þessu með því að fjalla um tvo undirflokka S1-setninga sem tákna fullyrðingar en verða ekki felldar undir frásagnarumröðun. Hér má fyrst nefna styttar S1-setningar sem notaðar eru til að leggja áherslu á jákvætt svar við já/nei-spurningu (verum focus) og koma fyrir í fornu máli:
(1a) Jöður segir: „Hvað bauðst þú honum hér gisting?“
Hann svarar: „Bauð eg.“ (Fóstbræðra saga, 3. kafli)
(1b) Njáll svaraði: „Varst þú á Þingskálaþingi um haustið?“
„Var eg víst,“ segir Mörður.
„Heyrðir þú,“ segir Njáll, „að Gunnar bauð honum alsætti?“
„Heyrði eg víst,“ segir Mörður. (Njála, 66. kafli)
Í öðru lagi verður fjallað um V1-raðir sem koma aðeins fyrir í ljóðum og mætti því kalla skáldskaparumröðun. Hér má nefna dæmi eins og (2a-d):
(2a) Deyr fé / Deyja frændur / Deyr sjálfur hið sama (Hávamál, Gestaþáttur)
(2b) Brosa blómvarir, / blika sólstjörnur / roðnar heitur hlýr (Ferðalok, Jónas Hallgrímsson)
(2c) Vinna vélbyssur að vélritun / á sögu mannsins / skríða drekar eða sýklar / inní morgunsárið… (Geislavirk tungl, Jónas Svavár)
(2d) Sofa vængbláar hálfnætur / í þakskeggi mánans, / koma mannstjörnur, / koma stjarn-menn, / koma syfjuð vötn. (Tíminn og vatnið, ljóð nr. 7)
Halldór Ármann Sigurðsson (1990) skilgreinir frásagnarumröðun þannig að persónubeygða sögnin komi strax á undan frumlagi sem er umræðuefni eða kjarni (topical subject). Það á greinilega ekki við um dæmin í (2) þar sem frumlagið er óákveðinn nafnliður. Svo virðist sem skáldskaparumröðun sé notuð til að tákna eitthvað sem er endurtekið eða reglubundið í tilverunni enda er persónubeygða sögnin alltaf áhrifslaus sögn í nútíð. Hins vegar er rétt að benda á að öll dæmi sem ég hef fundið um skáldskaparumröðun eru aðalsetningar. Þetta minnir á frásagnarumröðun og er vísbending um að persónubeygða sögnin færist í sæti sem er fyrir ofan hið hefðbundna frumlagssæti og ekki laust í aukasetningum.