Jordan Chark

Samspil kyns, stéttar og menntunar í útbreiðslu lokins horfs með búinn í íslenskum sendibréfum frá 19. öld

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um útbreiðslu nýs horfs í íslensku, þ.e. lokins horfs með búinn og hvernig hún tengist mótun íslensks ritmálsstaðals á 19. öld. Stöðlunarferlið má að miklu leyti rekja til áhrifa málviðmiðunaraðila (e. norm authorities: Ammon, 2003) á formlega menntun (Heimir Freyr van der Feest Viðarsson, 2019). Í nútímaíslensku er notkun lokins horfs með búinn (samanborið við lokið horf með hafa + lh.þt.) frekar tengd við óformlegt málsnið (óútgefin rannsókn höfundar). Hingað til hefur þó ekki verið rannsakað hvernig þetta félagslega gildi varð til. Samtímaheimildir benda þó til þess að lokið horf með búinn hafi verið talin tökuþýðing úr dönsku (blive færdig med) (Jón Þorkelsson, 1894).

Viðfangsefnið tengist kenningum um stefnu málbreytinga (e. changes from above and below), þar sem ætla mætti að karlar úr efri stéttum hefðu leitt breytingu af þessu tagi (Labov, 2001). Í erindinu verður sagt frá athugun á safni sendibréfa frá 19. öld (brefasafn.arnastofnun.is) sem býður upp á nákvæmri mynd af framvindu breytingarinnar frá félagslegu sjónarhorni. Þannig voru t.d. kannaðar félagslegu breyturnar kyn, stétt og aldur sem og samspilið þeirra á milli. Tilbrigðasviðið (e. envelope of variation) í þessu tilfelli eru því víxlin (e. alternation) milli lokins horfs með búinn annars vegar og með hafa hins vegar.

Aðhvarfsgreining leiðir í ljós að þessi víxl hafi haft félagslegu vídd: sjá má marktækan mun milli kynja en samvirkni kyns og stéttar var einnig marktæk. Munur milli kynja er mestur meðal höfunda í efstu stéttum (þar sem konur leiða breytinguna) en hann fer minnkandi meðal þeirra sem tilheyra lægri stéttum. Þessar niðurstöður eru þvert á væntingar og kalla á endurtúlkun sögu fyrirbærisins. Hin félagslega vídd í þessum niðurstöðum bendir til þess að formleg menntun hafi mótað útbreiðsluna enda voru meintar tökuþýðingar að öllum líkindum taldar óæskilegar í nýja ritmálsstaðlinum (sbr. Ottósson, 1990). Þessi tilgáta er einnig studd af þeirri staðreynd að tíðni búinn í útgefnum ritum frá sama tímabili er miklu lægri en í sendibréfunum. Auk þess eru gögnin nógu rík til að kanna mynstur lífsleiðarbreytinga (sbr. Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason, 2022). Notkun á loknu horfi með búinn minnkar lítillega en þó marktækt eftir því sem höfundar eldast, í gagnstæðri átt við mynstur breytingarinnar í samfélaginu í heild (e. retrograde lifespan change: Sankoff, 2019). Þetta mætti túlka sem svo að notkun búinn-formgerðarinnar sé skilyrt af stöðu einstaklingsins á málmarkaðnum (e. linguistic marketplace).

Í víðara samhengi gefa þessar niðurstöður tilefni til að endurskoða hefðbundin fræðileg viðhorf til þróunar íslenska málstaðalsins á 19. öld en lengi hefur verið talið að sveitarfólk af lægri stéttum hafi verið fyrirmynd ‘hreinnar’ málnotkunar (sbr. Heimir Freyr van der Feest Viðarsson, 2019).

Heimildir

Ammon, Ulrich (2003). On the social forces that determine what is standard in a language and on conditions of successful implementation. Sociolinguistica (17).

Heimir Freyr van der Feest Viðarsson (2019). Socio-Syntactic Variation and Change in Nineteenth-Century Icelandic. Doctoral dissertation, University of Iceland.

Jón Þorkelsson (1894). Supplement til islandske ordbøger, vol. 3.1. Reykjavík: Foreningstrykkeriet.

Kjartan G. Ottósson. (1990). Íslensk málhreinsun: sögulegt yfirlit. Íslensk málnefnd.

Labov, William. (2001). Principles of linguistic change, V ol. 2: Social factors. Oxford: Blackwell.

Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason (2022). Einstaklingsbundin lífsleiðarbreyting: Þróun stílfærslu í þingræðum Steingríms J. Sigfússonar. Íslenskt mál og almenn málfræði (44).

Sankoff, G. (2019). Language change across the lifespan: Three trajectory types. Language 95(2), 197-229.