Eva Hrund Sigurjónsdóttir

Staða og þróun nýmæla í íslenskum framburði: Litið til höggmælis og tvinnhljóðaframburðar

Í fyrirlestrinum er sjónum beint að tíðni og útbreiðslu tveggja nýjunga í íslenskum framburði, (i) höggmælis og (ii) tvinnhljóðaframburðar. Það er nefnt höggmæli þegar lokhljóð á undan nefhljóði veiklast og eftir stendur raddbandalokhljóð, t.d. Bjarni [pjaʔnɪ]. Í tvinnhljóðaframburði er tannbergsmælt lokhljóð borið fram með tvinnhljóði þegar á eftir fer frammælt hljóð, t.d. tjald [tshjalt]. Fyrri rannsóknir (Bjarki Karlsson, 2007; Egill Magnússon, 2019; Höskuldur Þráinsson og Kristján Árnason, 1992; sjá einnig Evu Hrund Sigurjónsdóttur, 2024) gefa til kynna að þessi afbrigði séu enn ekki mjög útbreidd en hugsanlega í sókn þar sem þeirra gætir frekar hjá yngri málhöfum en eldri. Í fyrirlestrinum verður sagt frá fyrstu niðurstöðum um útbreiðslu og tíðni tilbrigðanna í rúmlega 700 manna úrtaki. Gögnin byggja á fyrstu greiningu upplestrarverkefna sem þátttakendur skiluðu í netkönnun á vegum rannsóknarverkefnisins Svæðisbundinn framburður, viðhorf og málbreytingar í rauntíma (SVIÐ) sem styrkt er af Rannís 2023–2025. Hluti þátttakenda úrtaksins höfðu einnig tekið þátt í Rannsókn á íslensku nútímamáli (RÍN) á níunda áratug síðustu aldar þar sem höggmæli var meðal annars til skoðunar og verður því einnig litið til þess hvernig þróun þess kemur fram hjá tilteknum einstaklingum á fjörutíu ára tímabili.