Hefur fjöldi samsettra orða áhrif á máltökuna?
Í væntanlegri meistararitgerð höfundar, sem er unnin innan verkefnisins Samfall: Innsýn í mörk setningafræði og orðhlutafræði, er fjallað um samfall í íslenskri nafnorðabeygingu. Í þessum fyrirlestri verður örsnöggt farið yfir áhugaverðar niðurstöður úr rannsókninni sem snúast um mun á samsettum og ósamsettum orðum.
Í rannsókninni var nafnorðaforði Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls (BÍN) greindur til að finna öll samfallsmynstur sem koma þar fyrir. Einnig var samspil mismunandi beygingarendinga sterkra karlkynsnafnorða skoðað sérstaklega. Spurningar um máltöku barna voru hafðar til hliðsjónar, s.s. áhrif samfallsmynda á máltökuna og hvort kenningar á borð við þolmarkalögmálið (e. Tolerance Principle) gætu varpað einhverju ljósi á málið.
Fjöldi orða í BÍN er af allt annarri stærðargráðu en virkur orðaforði fólks eða orðaforðinn sem börn kynnast á máltökuskeiði. Því var ákveðið að prófa að sía samsett orð frá úrtakinu og skoða aðeins ósamsett orð, bæði innan BÍN-kjarnans, sem geymir algengari orð, og alls BÍN-orðaforðans. Við það minnkaði orðaforðinn verulega og dregið var úr áhrifum algengra grunnorða sem eru til í fjölmörgum samsetningum, jafnvel í þúsundatali. Þá kom í ljós að orðafjöldatölur falla betur að þolmarkalögmálinu ef samsett orð eru síuð frá.
Ef eitthvað er að marka þolmarkalögmálið gæti þetta verið vísbending um að fjöldi grunnorða skipti meira máli fyrir máltökuna og skipulag beyginga í heilanum á okkur en fjöldi samsettra orða.