Ágústa Þorbergsdóttir og Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir

Sorrí að ég sletti

Slettur eru erlend orð eða orðasambönd sem hafa komið inn í tungumálið en eru ekki viðurkennd sem hluti þess. Í íslensku er oftast um að ræða dönsku- og enskuslettur. Slettur hafa oft ekki aðlagast hljóð- eða beygingarkerfinu og jafnvel þó að slettan aðlagist þá tekur það oft langan tíma fyrir slettur að öðlast viðurkenningu. Margir amast við því að fólk „sletti“ og algengt er að fólk afsaki sig með orðum á borð við „afsakið slettuna“ eða „svo ég sletti“ þegar það notar erlend orð í daglegu tali og í fjölmiðlum. Margir leggja sig fram við að finna íslensk orð eða búa til nýyrði af innlendum stofni í stað slettunnar. En er alltaf hægt að skipta slettunni út fyrir íslenskt orð? Hverjar eru sletturnar að mati þeirra sem sletta (og benda sjálfir á það um leið)?

Í erindinu verður sagt frá athugun á orðum sem fólk biðst afsökunar á að nota. Leitað var í Risamálheildinni (2022) að orðasamböndunum að ég sletti, afsakið slettuna, ef ég má sletta, leyfi mér að sletta, maður sletti nú og svo ég sletti og athugað hvaða slettur fólk var að afsaka. Samtals voru skoðuð 408 dæmi úr alþingisræðum, fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Dæmin voru flokkuð eftir því hvort þau eru stök orð eða orðasambönd, hvort orðin eru aðlöguð að íslenskri beygingu og/eða stafsetningu, upprunamáli og athugað hversu lengi orðið hefur verið notað og hversu algengt það er. Þá er athugað hvort orðið sé notað um sérstaka nýjung eða gamalt fyrirbæri og hvort hægt sé að finna samsvarandi orð af íslenskum stofni og þá hvort hægt er að koma auga á ástæðu þess að erlenda orðið er notað og afsakað.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að þær slettur sem fólk biðst afsökunar á séu ólíkar eftir textategund. Sem dæmi má nefna að í alþingisræðum er orðalagið meika sens ekki mjög algengt og á því er beðist afsökunar. Hins vegar er mun algengara í öðrum textategundum að ekki sé beðist afsökunar, þrátt fyrir að dæmi um það séu til. Í Risamálheildinni (2022) má finna mun fleiri dæmi um notkun meika sens en um afsökunarbeiðnir tengdar því. Nokkuð er um að beðist sé afsökunar á tiltölulega vel aðlöguðum og þekktum tökuorðum, t.d. nafnorðunum plan og fókus. Flestar sletturnar eru enskuslettur en dönskuslettur eru einnig afsakaðar. Þó virðast þær oftast vera notaðar sem eins konar stílbragð frekar en að gripið sé til þeirra vegna þess að íslenskt orð finnist ekki.

Kannað var hvort samsvarandi íslenskt orð væri til og þá var merking orða í orðapörum borin saman. Oft kom í ljós blæbrigðamunur á merkingu, jafnvel þótt þau virtust við fyrstu sýn vera jafnheiti. Í sumum tilvikum var enginn merkingarmunur greinanlegur nema að því leyti að málsnið var ólíkt. Í öðrum tilvikum var merking slettunnar ekki alveg sú sama og merking samsvarandi íslensks orðs en sá munur tengdist gjarna umræðuefni, merkingarsviðum eða samhengi.