Áhliða óvinamegin: Um orðaforða Knattspyrnulaga frá 1907
Árið 1907 var ekki einungis merkilegt fyrir þær sakir að sú nýjung var innleidd í knattspyrnureglurnar að leikmaður gæti ekki verið rangstæður á eigin vallarhelmingi heldur einnig vegna þess að Íþróttafjelag Reykjavíkur gaf út þýðingu ensks rits, Laws of the game, sem hlaut íslenska titilinn Knattspyrnulög, en í því eru þágildandi reglur knattspyrnu útlistaðar af nákvæmni.
Orðaforði knattspyrnunnar, rétt eins og íslenskrar tungu í heild sinni, hefur tekið ýmsum breytingum í takt við nýmæli síðan árið 1907: Orð hafa úrelst með fyrirbærunum sem þau hafa lýst og ný hafa skotið upp kollinum samhliða fyrirbærum og hugmyndum. Tilvist þeirra í málinu er þó ekki einungis háð tilurð fyrirbæranna sem þau lýsa og stundum virðist tilviljunin ein ráða því hvaða orð standast tímans tönn.
Í þessari flugu verður orðaforða Knattspyrnulaga lýst stuttlega og hann borinn saman við orðaforða nútímans með skírskotunum í máldæmi af vefmiðlunum 433.is og fótbolti.net. Nokkur vel valin orð, svo sem vítisvöllur, árásarflokkur, markás og áhliða, verða skoðuð sérstaklega og örlög þeirra verða borin saman við örlög enskra hliðstæðna þeirra. Auk þess verður orðum og orðhlutum sem staðið hafa af sér storminn sérstakur gaumur gefinn og ef til vill fæst svarið við spurningunni sem við höfum öll reynt að svara: Hvers vegna lifir orðið spyrna góðu lífi í nútímamáli fótboltans?