Þrjár gerðir orsakarsetninga í færeysku
Fjallað verður um merkingarleg og setningarleg einkenni orsakarsetninga tengdra með (av) tí (at) ‘af því að’ í færeysku. Gerð er grein fyrir þremur mismunandi merkingartúlkunum orsakarsetninga, þ.e. beinni orsakarmerkingu (e. eventuality related causal clause), svonefndri útskýringarmerkingu (e. evidential causal clause) og talgjörðarmerkingu (e. speech act causal clause), og því haldið fram að þessar túlkanir tengist því hvort viðkomandi orsakarsetningar eru miðlægar, jaðarlægar eða ósamþættar (sbr. Haegeman 2012 og Frey 2016).
- Jógvan kom aftur, (av) tí (at) hann elskaði Mariu.
- Jógvan elskaði Mariu, (av) tí (at) hann kom aftur.
- Hvat gert tú í kvøld, (*av) tí (at) tað er ein góður filmur í biografinum.
Í (1) er innihald orsakarsetningarinnar túlkað sem staðreynd sem leiðir til annarrar staðreyndar: það að Jógvan elskaði Mariu er ástæðan fyrir því að hann kom aftur (bein
orsakarmerking). Í (2) felur innihald orsakarsetningarinnar í sér ástæðu þess að mælandinn heldur að staðhæfingin í móðursetningunni sé sönn: það að Jógvan skyldi koma aftur bendir til að hann hafi elskað hana (útskýringarmerking). Í (3) „réttlætir“ innihald av-tí-at-setningarinnar talgjörðina í móðursetningunni sem er spurning í þessu tilviki: ég spyr vegna þess að við gætum horft saman á góða mynd (talgjörðarmerking).
Meginröksemdir fyrir setningafræðilegri þrískiptingu eru sóttar í ólíka bindieiginleika, hömlur á færslum og undirskipun, stöðu persónubeygðrar sagnar og möguleika á að skjóta inn ólíkum atvikslegum ákvæðisorðum. Eins og dæmi (3) bendir til skera orsakarsetningar með talgjörðarmerkingu sig einnig úr að því leyti að því leyti að það er ekki hægt að innleiða þær með av eins og hinar tvær tegundirnar þar sem av er valfrjálst. Tengiorðið at er einnig valfrjálst í öllum gerðum orsakarsetninga eins og í fleiri tegundum aukasetninga í færeysku.
Fyrirlesturinn byggist annars vegar á umfjöllun Ásgríms Angantýssonar og Caroline Heycock (væntanlegt) á atvikssetningum í færeysku og hins vegar á sambærilegri greiningu á af-því-að-setningum í íslensku (Ásgrímur Angantýsson og Lukasz Jedrzejowski 2023), með nýjum dæmum og dómum um atviksleg ákvæðisorð í þessum tegundum aukasetninga í færeysku og nánari samanburði við íslensku en áður hefur verið gerður.
Ritaskrá
Ásgrímur Angantýsson og Caroline Heycock. (Væntanlegt 2025). On the internal and external syntax of
adverbial clauses in Faroese: causal and temporal clauses. Í On the Syntax of Adverbial Clauses in
Scandinavian. A Comparative Perspective (Open Germanic Linguistics Series), ritstj. Łukasz Jędrzejowski
& Ásgrímur Angantýsson. Berlin: Language Science Press.
Ásgrímur Angantýsson og Łukasz Jędrzejowski. (2023). ‘Layers of subordinate clauses. A view from causal af-
því-að-clauses in Icelandic’. Í Micro- and Macro-variation of Causal Clauses: Synchronic and diachronic
insights (Studies in Language Companion Series), ritstj. Łukasz Jędrzejowski & Constanze
Fleczoreck bls. 184–220. Amsterdam: John Benjamins. https://benjamins.com/catalog/slcs.231.07ang
Frey, Werner. (2016). About some correlations between formal and interpretative properties of causal clauses. Í
Co- and Subordination in German and Other Languages [Linguistische Berichte Sonderheft 21]. Ritstj. Ingo
Reich & Augustin Speyer, bls. 153–179. Hamburg: Buske.
Haegeman, Liliane. (2012). Adverbial Clauses, Main Clause Phenomena, and the Composition of the Left
Periphery [The Cartography of Syntactic Structures 8]. Oxford: Oxford University Press.