Sigríður Sæunn Sigurðardóttir

Hvað eru málspár og hvernig gagnast þær sögulegum málvísindum?

Því hefur verið haldið fram að ógerningur sé að spá fyrir um uppkomu og útbreiðslu málbreytinga. Sagt hefur verið að málbreytingar gerist of skyndilega og að þær séu í eðli sínu ófyrirsegjanlegar (Keller 1994:72; Bauer 1994:25; Labov 1994:10; Croft 2000:3). Í þessu erindi verður slíkum hugmyndum andmælt. Rætt verður um ýmsa möguleika og tækifæri sem felast í gerð málspáa. Farið verður stuttlega yfir spáferlið í heild sinni, fjallað um skilgreiningu spáverkefna, lengd spáa, hvaða gögn henta fyrir málspár og hvaða aðferðir er hægt er að nota. Ennfremur verður sýnt hvernig nýta megi reglulegar tímaraðir og tímaraðagreiningu (e.g., Box, Jenkins, Reinsel & Ljung 2016; Hyndman and Athanasopoulos 2021) til að spá fyrir um útbreiðslu málbrigða.

Til að sýna hvernig málspár ganga fyrir sig verður fjallað um aukafallshneigð með sögninni hlakka til. Eins og kunnugt er tekur sögnin upprunalega með sér nefnifallsfrumlag, sbr. (1), en tilhneiging er til að hún fá aukafall (t.d., Ásta Svavarsdóttir 1982; Jóhannes Gísli Jónsson & Þórhallur Eyþórsson 2003), þ.e. ýmist þolfall (frá 1892 og áfram) eða þágufall (frá 1942 og áfram) eins og í (2).

(1) Ég hlakka til sumarsins.

(2) Mig/Mér hlakkar til sumarsins.

Alls var 9.262 dæmum um hlakka til með frumlagi í fyrstu persónu safnað úr Íslensku risamálheildinni (RMH, Steinþór Steingrímsson og fl. 2018). Dæmin náðu yfir tímabilið 2003–2021 og voru greind eftir því hvort frumlagið var nefnifall eða aukafall. Þá voru gögnin voru sett upp í reglulega tímaröð sem sýndi hlutfall aukafalls á hverju ári. Nokkrar gerðir af spálíkönum voru prófaðar á hluta tímaraðarinna, þ.e. frá 2003–2019. Niðurstöður voru metnar eftir því hversu vel tókst að spá fyrir um það sem eftir var af tímaröðinni, þ.e. árin 2020–2021. Tímaröðin í heild var síðan notuð til að útbúa spá til ársins 2041, en sú spá gefur til kynna að hlutfall aukafalls með fyrstu persónu frumlögum fari minnkandi.

Þó svo að ekki sé hægt að leggja lokamat á málspár fyrr en spátími er liðinn gefur spáferlið mikilvæga innsýn í málbreytingar og hvernig hægt er að rannsaka þær. Markviss gerð málspáa og kerfisbundnar spáaðferðir gera kröfu um tiltekna tegund af gögnum (oft yfir langt tímabil), en slíkt leiðir óhjákvæmilega til mun ítarlegri upplýsingasöfnunar en áður um stöðu og útbreiðslu málbreytinga á hverjum tíma. Þá vekja málspár upp ýmsar nýjar spurningar, s.s. hvers konar gögn gefa besta innsýn í framtíðarþróun tungumála og hvar draga skuli mörkin á milli breytileika í málnotkun og málbreytinga. Í tilviki fallabreytinga með hlakka til má segja að gögn yfir 18 ára tímabil geta gefið vísbendingar um útbreiðslu aukafalls með þessari sögn í framtíðinni. Þetta bendir til að tímaraðagreining sé ákjósanleg leið til að byrja að fást við málspár.