Norður og niður – og þó! Um 70 ára þróun harðmælis og raddaðs framburðar
Þegar Björn Guðfinnsson rannsakaði íslenskan framburð á 5. áratug 20. aldar höfðu rúmlega 90% ungmenna á Norðausturlandi (Akureyri, Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum) hreint harðmæli, þ.e. notuðu harðmælisframburð án undantekninga þegar framburður þeirra var prófaður í rannsókninni. Hreinn raddaður framburður var mun sjaldgæfari, en ný greining á gögnum Björns hefur leitt í ljós að munur á tíðni þessara afbrigða var tiltölulega lítill nema á Akureyri. Tíðni beggja afbrigða var rannsökuð aftur í RÍN-rannsókninni, á 9. áratugnum, og í þriðja sinn í RAUN-rannsókninni, sem hófst árið 2010. Þær rannsóknir leiða í ljós ýmis tíðindi. Þróunin hefur verið á ólíka vegu milli afbrigða og milli tímabila.
Í erindinu verður fjallað um þessa þróun. Sagt verður frá stöðu harðmælis og raddaðs framburðar í máli ungmenna í rannsóknunum þremur og heldur neikvæðar horfur sem þar koma fram, en einnig athyglisverðan mun á ævibreytingum, þ.e. breytingum sem verða yfir æviskeiðið. Þar má greina nokkuð óvænta viðspyrnu harðmælis og verða færð rök fyrir því að hana megi rekja til viðhorfa.
Til glöggvunar á ólíkri þróun verða afbrigðin borin saman í máli hóps einstaklinga sem ýmist tóku þátt í öllum rannsóknunum þremur eða tveimur þeim síðari, en einnig verður rýnt í niðurstöður RÍN-rannsóknarinnar sem benda til að undanhald landshlutabundnu afbrigðanna hafi haldist nokkuð í hendur við byggðaþróun og atvinnulíf.