Aðalsteinn Hákonarson

Ritháttur erlendra eiginnafna í íslensku

Samkvæmt lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, skal mannanafnanefnd leggja mat á hvort eiginnöfn eða millinöfn, sem ekki eru á mannanafnaskrá, uppfylli skilyrði laganna. Mál sem nefndin fær til afgreiðslu fjalla flest um eiginnöfn. Ákvæði laganna, sem oftast reynir á í slíkum málum og oftast hefur leitt til synjunar umsókna, fjallar um rithátt: „[eiginnafn] skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess“ (5. gr. 1. mgr. 3. málsl.) Við framkvæmd ákvæða laganna, þar sem vísað er til hefðar, styðst nefndin við vinnureglur um hefð sem eiga sér stoð í lögunum.

Í þessu erindi verður fjallað um ákvæði laganna um rithátt, sér í lagi með tilliti til erlendra nafna eða tökunafna. Reynt verður að varpa ljósi á forsögu ákvæðisins og tilgang þess. Einnig verður fjallað um tilurð og þróun vinnulagsreglna um hefð. Þær komu til sögunnar á tíma fyrri laga um mannanöfn, nr. 37/1991, og var ætlað að styðja við mat á því hvort eiginnafn gæti talist íslenskt. Með núgildandi lögum var fallið frá því skilyrði að eiginnafn skyldi vera íslenskt, en í þeim voru þó enn þá ákvæði sem vísuðu til hefðar og ákvað löggjafinn því að áfram skyldi notast við sams konar vinnulagsreglur um hefð. En hann taldi jafnframt ljóst að með nýjum lögum myndi heyra til undantekninga að á reglurnar reyndi (sjá greinargerð með lagafrumvarpi). Þessi spá gekk ekki eftir.

Í erindinu verður einnig kynnt tölulegt yfirlit um framkvæmd ákvæðisins á þeim tíma sem ég sat í mannanafnanefnd (2018–2022) og rætt um meginástæður þess að nefndin samþykkti árið 2021 nýjar vinnulagsreglur um hefð. Helstu nýmæli þeirra voru nýr liður sem hefur þau áhrif í reynd að virknisvið ákvæðisins um rithátt nafna þrengist til mikilla muna:

4.liður: Ritun tökunafns með þeim hætti sem gjaldgengur er í veitimálinu telst hefðbundinn. Frávik eru heimil ef um er að ræða aðlögun að almennum íslenskum ritreglum. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.