Ásgrímur Angantýsson og Finnur Friðriksson
„Saveaðu storyið þitt og sendu mér það“ – Form og staða íslensk-enskra málvíxla og blöndunar í máli framhaldsskólanema á samfélagsmiðlum
Undanfarin misseri hefur verið áberandi umræða um vaxandi enskunotkun íslenskra ungmenna. Einn angi þessarar notkunar felst í svo kölluðum málvíxlum, þ.e.a.s. notkun orða, orðasambanda, setninga og jafnvel lengri segða á ensku þar sem íslenska er annars grunnmálið, en slík víxl eru gjarnan talin vera eitt helsta einkenni unglingamáls. Í erindinu verður grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á málvíxlum eins og þau birtast í málnotkun 92 framhaldsskólanema á samfélagsmiðlinum Facebook. Byggt er á greiningu á formi málvíxlanna í stöðuuppfærslum og athugasemdum á Facebook-síðum ungmennanna og í einkasamtölum þeirra á milli á Messenger-forriti miðilsins. Sú greining var í megindráttum tvíþætt, annars vegar voru málvíxlin flokkuð eftir því hvort þau teldust hrein eða blönduð, þ.e. hvort enskan sem notuð var hverju sinni sýndi einhver merki um aðlögun eða blöndun við íslensku, t.d. í gegnum stafsetningu eða beygingu, eða var laus við öll slík áhrif. Með þessu vildum við fá yfirsýn yfir hvort um blöndun af þessu tagi væri yfirleitt að ræða og þá hvar og hvernig hún birtist. Hins vegar voru öll málvíxl greind með tilliti til þess hvort þau teldust innansetningavíxl, millisetningavíxl eða utansetningavíxl, með það fyrir augum að fá mynd af því hvar í segðum ungmennanna er líklegast að víxlun birtist.
Niðurstöður sýna að algengast er að málvíxl birtist innan setningar eða segðar og hlutfall slíkra innansetningavíxla er hvað hæst í spjalli nemendanna. Það má líkast til rekja til þess að þar ber mest á vöntun einstakra orða á íslensku og þau detta þá inn á ensku í staðinn. Millisetningavíxl, þ.e. sjálfstæðir enskir textabútar, birtast aftur frekar í stöðuuppfærslum og athugasemdum. Utansetningavíxl, þ.e. sjálfstæðar textaeiningar sem standa utan við efnið, eru almennt fremur fátíð en koma þó oftar fyrir eftir því sem gagnvirkni í textunum eykst og sjást þannig oftast í spjallinu. Hvað varðar hlutföllin á milli hreinna málvíxla, eins og þau eru skilgreind hér, og blöndunar, þ.e. einhvers konar aðlögunar að íslensku innan víxlanna, má sjá að fyrri gerðin er algengari en sú síðari. Hrein málvíxl eru jafnframt algengust í athugasemdum og koma síst fyrir í spjalli, en ekki er gott að fínna skýringar á þessu. Sú blöndun sem á sér stað birtist síðan oftast í því að íslenskri stafsetningu eða beygingum er blandað saman við enskan grunn, en áhrifin geta einnig náð til setningagerðar og merkingarlegra þátta. Loks sýna gögnin að blöndun tengist innansetningavíxlum sterkum böndum á meðan hrein víxl geta birst nokkuð jöfnum höndum í innan- og millisetningavíxlum. Loks er vert að benda á að enskunotkunin er heilt á litið afar lítil, eða aðeins 3,02% af heildarorðaforðanum. Um leið er ljóst að aðstæður ráða því mjög hvaða mál er notað; enska er sáralítið notuð þegar rætt er um efni á borð við skóla eða almennar frístundir en þegar talið berst að tölvuleikjum, sjónvarpsþáttum og tilteknum sérhæfðum viðfangsefnum eru málvíxl býsna áberandi.