Sagnarsamræmi við samtengda nafnliði
Í þessum fyrirlestri skoðum við dæmi eins og í (1) og (2).
(1) Síðan hafa ég og fleiri lýst áhyggjum af því … (https://bit.ly/2Ykeu1m)
(2) Og allt þetta höfum ég og hv. þingmaður farið í gegnum … (https://bit.ly/2rmpgrQ)
Það sem er athyglisverðast við (1) er að þar er ekki persónusamræmi sagnar við samtengda nafnliðinn ég og fleiri, ólíkt (2), heldur eingöngu tölusamræmi. Margvísleg dæmi af þessum toga finnast við leit í Risamálheildinni (malheildir.arnastofnun.is, Steinþór Steingrímsson o.fl. 2018).
Þegar svo betur er að gáð kemur í ljós að það skiptir máli hvort samtengdi nafnliðurinn fer á eftir, sbr (1)–(2), eða á undan persónubeygðu sögninni, sbr. (3)–(4).
(3) Eftir þeirri reynslu, sem ég og aðrir hafa af því … https://bit.ly/356C0kY)
(4) … og við eigum að gera mun betur í þessu, eins og ég og fleiri höfum barist fyrir. (https://bit.ly/2LoWGwL)
Þegar samtengdi nafnliðurinn fer á undan, eins og í (3)–(4), er hlutfallslega mun sjaldgæfara að ekkert persónusamræmi sé í setningunni. Svipað mynstur kemur fyrir í ensku — samræmisleysi er mögulegt í (5), þar sem persónubeygða sögnin fer á undan samtengda nafnliðnum, en ekki í (6), þar sem hún fer á eftir honum.
(5) There is a man and a woman in the room.
(6) *A man and a woman is in the room. (Munn 1999:654)
Jafnframt virðist skipta máli í umhverfi eins og (3)–(4) hvort síðari hluti samsetningarinnar sé eintala eða fleirtala. Þannig eru mun fleiri dæmi á borð við Ég og fleiri fóru þangað en Ég og hann fóru þangað. Í fyrirlestrinum veltum við fyrir okkur hvers vegna þetta er í ljósi hugmynda um og einnig með hliðsjón af um sjálfgefið samræmi. Þannig heldur Þorbjörg Þorvaldsdóttir (2019) því fram að hvorugkyn (og fleirtala) sé sjálfgefið gildi í samtengdum nafnliðum. Dæmin í (1) og (3) benda til þess að jafnframt sé 3. persóna sjálfgefið gildi persónu og þar sé skýringar að hluta að leita á samræmisleysinu. Við ræðum einnig hvers vegna skýringar byggðar á hugmyndum um samræmi við þann lið samtengda liðsins sem stendur næst persónubeygðu sögninni (e. closest conjunct agreement) duga skammt.
Að auki skoðum við afturbeygingu með samtengdum liðum með hliðsjón af því hvort þeir stýra persónusamræmi eða ekki (sbr. Wood og Einar Frey Sigurðsson 2014).
(5) Ég og fleiri skoðuðu/*skoðuðum sig um.
(6) Ég og fleiri skoðuðum/*skoðuðu okkur um.
Hér virðist mega draga þá ályktun að ef útreiknað gildi samtengds nafnliðar sé 3.p.ft. hafi það ekki eingöngu áhrif á persónubeygðu sögnina heldur líka afturbeygða fornafnið.
Að lokum skoðum við svo möguleikann á því að samtengdir nafnliðir geti verið undanþegnir persónuhömlu nefnifallsandlaga svo lengi sem þeir hafi gildi 3.p. Spáin er að (9) sé betra en (7) og (8). Við skoðum hvort hún rætist (og þess vegna látum við vera að dæma (9)).
(7) Þeim ??líkar/*líka ég.
(8) Þeim ??líkar/?*líka/*líkum við.
(9) Þeim líkar/líka ég og hún.