Innlagnir í Nýyrðabankann
Nýyrðabanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (nyyrdi.arnastofnun.is) var opnaður á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2018. Með Nýyrðabankanum – eða Nýyrðavefnum eins og hann er einnig kallaður – er almenningi gefinn kostur á að senda inn nýyrði og fá þau birt. Nýyrðabankinn kemur einnig til móts við málnotendur sem hafa ánægju af að skoða innsend nýyrði en möguleika á að birta nýyrði frá almenningi hafði vantað hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fjöldi skráðra nýyrða í Nýyrðabankanum eru nú rúmlega 900 og hafa um 350 einstaklingar sent þau inn. Fjöldi þeirra sem hafa skoðað Nýyrðabankann er um 8000.
Í erindi mínu verða kynntar niðurstöður af athugun á innlögnum í Nýyrðabankann þann tíma sem hann hefur verið opinn. Helstu spurningar sem leitað er svara við eru: Hvers konar nýyrði hafa verið send inn? Eru þetta orð fyrir ný fyrirbæri? Hvaða leiðir eru helst farnar við orðmyndun?
Niðurstöður sýna að minni hluti nýyrðanna er til að tákna ný fyrirbæri. Allmikið er um orð sem nýyrðasmiðir telja á einhvern hátt betri en þau almennt eru notuð; dæmi: þjóþota (rassaþota), þeytikvörn (blandari) og loðloka (franskur rennilás). Einnig er nokkuð um innsend nýyrði séu nánast beinar þýðingar á enskum orðum; dæmi: orkulúr (power nap), skjóluskrá (bucket list), föstubrjótur (breakfast). Allnokkur dæmi eru um tilraunir til að þýða erlend heiti: Skyndimyndin (Instagram), Víxla (Nintendo Switch), Fésbók (Facebook) og Þúvarpið (YouTube).
Þá er athyglisverður fjöldi innsendra nýyrða fyrir ný frændsemisorð, dæmi: langmæðgur, ömmgur, afgin, lamma, lafi, foreldraforeldrar, tengslabörn og örlagasystkin. Dægurmálaumræður skila einnig ýmsum innsendum nýyrðum, dæmi: klausturbleikja (máttlaus tilraun til að fegra efir skandal) og Hrapið (gjaldþrot Wow-air 2019). Nokkuð hefur verið um að send séu inn stök íðorð; dæmi beinlínukort (line map), súgsalerni (vacuum toilet) og skólaforðun (school refusal). Talsvert er um slanguryrði í Nýyrðabankanum; dæmi: harðskafi (hrjúfur salernispappír), skyrhaus (manneskja sem notar stera) og ginsmökkun (sleikur).
Hvað varðar leiðir sem farnar eru við orðmyndun þá er samsetning algengasta leiðin við myndun innsendu nýyrðanna og mörg þeirra eru tökuþýðingar eða beinþýðingar úr ensku; dæmi fölöl (pale ale), kraftbjór (craft beer) og bálkakeðja (blockchain). Lítið er um innsend nýyrði mynduð með viðskeytum (dæmi: sankari, frúast og meðvirkill) og tiltölulega lítið er um aðlögun erlendra orða; dæmi: súðlur (zoodles) og dróni (drone). Athygli vekur að tiltölulega mikið er um svokallaða „blöndun“ (e. portmanteau) sem hefur ekki verið algeng leið til að mynda íslensk orð. Dæmi: karlærislegt (= karl + hallærislegt), flugviskubit (= flug + samviskubit), dvergilkál (= dvergur + spergilkál) og blátalari (Bluetooth + hátalari). Gömul orð fá stundum nýja merkingu sem eins konar orðaleikir; dæmi: undirbúningur (nærföt), langvía („sous vide“) og strokufangi (sá sem er fangi þess að strjúka farsímanum).
Ekki er hægt að sjá það fyrir hvort nýyrði festi rætur í málinu eða hverfi og erfitt er að fullyrða að þörf sé á nema litlum hluta þeirra orða sem hafa verið skráð í Nýyrðabankann. Það er þó ljóst Nýyrðabankinn er talsvert skoðaður og að aldursbil þeirra sem senda inn orð er mjög breitt.