Jóhannes B. Sigtryggsson

Forn og ný íslenska og Rasmus Rask

Danski málfræðingurinn Rasmus Rask (1787–1832) er lykilmaður í stöðlun íslensku á fyrri hluta 19. aldar. Almennt er talið að hann hafi lengi vel ekki áttað sig á muninum á forníslensku og nútímaíslensku heldur litið á þau sem sama málið. Kjartan G. Ottósson segir til að mynda um þetta (2000:126): „One important aspect of Icelandic not perceived by Rask was that Modern Icelandic and Old Norse were not identical languages, but differed in phonology and morphology, as well as in other features. To some extent though, Rask came to realize this by the time he wrote his last Icelandic grammar (1832a).“ Ýmislegt bendir þó til þess að Rask hafi frá upphafi áttað sig betur á muninum á fornu máli og nýju en talið hefur verið en hafi frekar valið að gera lítið úr honum í málpólitísku skyni. Þetta kemur skýrt fram í bréfi Rasks til Gríms Jónssonar árið 1817 (Björn M. Ólsen 1888:90–91) þar sem hann segir: „Þú veizt þar að auki, að það er mín höfuðregla, að maður eigi öldungis ekki að greina það nýja islenzka tungumál frá þeirri gömlu Norrænu, vegna þess að meðan það gamla mál viðhelzt, er íslands þjóð ein sú markverðasta í Norðurálfunni, en geri maður „forskilið“ á því nýja og gamla máli of „týðelegt“, sem ljett er að gjöra, þá „blífur það skítt“ allt til samans, því bæði verður þá þjóðin smámsaman skilin frá sinni fornu literatúr, og líka munu þá aðrir út í frá ekki gefa um þjóð eður Iand framar en um Skrælingja.“

Í erindinu verður fjallað um hugmyndir Rasks og annarra á 19. öld um þetta og hvernig skoðanir á muninum á fornu og nýju máli höfðu áhrif á málstöðlun aldarinnar. Áhrif þessa hafi verið að meira mið hafi verið tekið af forníslensku í henni en ella hefði orðið (sjá Kjartan G. Ottósson 1990:53).

 

Heimildir

  • Björn M. Ólsen. 1888. „Brjef frá Rask“, Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags 9:54–100.
  • Guðrún Kvaran. 1987. Rasmus Kristján Rask 1787–1987. Skírnir 2:213–232. Reykjavík.
  • Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6. Reykjavík: Íslensk málnefnd.
  • Kjartan G. Ottósson. 2000. 4.5.2.4 Icelandic. Í: Hovdhaugen, Even, Fred Karlsson, Carol Henriksen and Bengt Sigurd (ritstj.). The History of Linguistics in the Nordic Countries, bls. 126–127.
  • Rask, Rasmus Kristian. 1811. Vejledning til det Islandske eller gamle nordiske Sprog. Kjøbenhavn. Rask, Rasmus Kristian. 1818. Anvisning till isländskan eller nordiska fornspråket. Öfversatt och     omarbetat af författaren. Stockholm.